Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar?

Sigrún Júlíusdóttir

Auðvelt væri að svara þessari spurningu út frá almennu viðhorfi og ef til vill fordómum um „eðli kynjanna” sem svo oft er vísað til í daglegu lífi. Kunnara er en frá þurfi að segja að konur eru til dæmis almennt álitnar forvitnari - í merkingunni rýnandi eða hnýsinn - en karlar. Þær eru álitnar málglaðari, skrafhreifnari, lausmálli eða fjasgjarnari en karlar - eftir því hvert viðhorf ummælanda er. Karlar eru hins vegar taldir lokaðri - í merkingunni fálátur eða þumbaralegur - en konur. Þeir eru taldir málefnalegri en konur - fastari fyrir, minna tilfinningasamir, ónæmir eða „ferkantaðir” eftir því hvert viðhorf ummælanda er.

Þegar kona er forvitin kann það samkvæmt þessu að fela í sér að hún sé að verða sér úti um vitneskju um annað fólk í þeim tilgangi að ná yfir því einhvers konar völdum eða geta látið til sín taka. Karlmaður sem er forvitinn mundi á hinn bóginn þá álitinn vera að sýna málefni áhuga í þeim tilgangi að ljá því lið. Því mætti einfaldlega svara spurningunni þannig að það sé menningarbundið og hefðinni samkvæmt að líta á forvitni sem einn af þeim kvenlegu eiginleikum sem óprýða - eða prýða - venjulegar konur, og tilætlunarsemi eða afskiptasemi sem einn af þeim eiginleikum sem einkum prýða – eða óprýða - konur í móður- og eiginkonuhlutverki.

Málvísindamaðurin Deborah Tannen hefur rannsakað, greint og fjallað um í bókum sínum (1990 o.fl.) hvernig kynin nota mismunandi orð um sömu hluti og hvernig sömu orð fá aðra merkingu eftir því hvort kynið þau eiga við, og enn fremur hvernig ólík orð eru notuð um sömu hegðun eftir því hvort karl á í hlut eða kona. Kynin noti því sjálf orð og hugtök með ólíkri vísun og boðskiptahegðun þeirra sé oft eins og af tvennum toga og þau tali ekki sama mál. Stundum gengur þetta svo langt að þau skilja ekki boðskap orðanna og misskilningur verður með hrapallegum afleiðingum, meðal annars í tjáskiptum á vinnustöðum og enn frekar í nánum samskiptum eins og í hjónabandi. Ein af bókum hennar hefur verið þýdd á íslensku og gefin út hjá Almenna bókafélaginu (1995): Þú misskilur mig.

Þannig á líka málið og orðræðan, hvað er sagt, með hvaða orðum og hvernig það er sagt, sinn þátt í því að móta gildismat og festa fordóma um hvað sé kvenlegt eða karlmannlegt. Öll tvískipting eða tvíhyggja (dualism) og áhersla á að eitthvað sé ósamræmanlegt (antagonism) er yfirleitt til þess fallin að efla andstæður, skapa bil og aðgreiningu og draga úr jafnvægi eða jöfnuði. Þetta á sér stundum eðlilegar, djúpstæðar frumorsakir af líffræðilegum eða menningarlegum toga sem í raun þjónar litlum tilgangi að vísa til í nútímasamfélagi. Stundum þjónar það hins vegar hagsmunum eða pólitískum tilgangi.

Að klifa á sérkennum og „eðli” annars kynsins getur orðið til þess að halda niðri eða veikja stöðu annars en styrkja stöðu hins. Annadís Rúdolfsdóttir hefur fjallað um þetta efni í doktorsritgerð sinni frá 1997 þar sem hún byggir á greiningu á orðræðu í íslenskum minningargreinum um konur og hvernig þær þjóna þeim tilgangi að viðhalda hefðbundinni ímynd um kvenleika og menningarbundnum hugmyndum um líf kvenna, hlutverk og hegðun, eiginleika hins kvenlega sjálfs.

Í samskiptafræðum og þá ekki síst kynjafræðum hafa rannsóknir mjög beinst að mótun kynjanna og hvernig fjölmargir þættir eru samverkandi í hinu flókna samspili manns og samfélags. Eitt af tímamótaverkunum á því sviði er bók Carol Gilligan (1982), In a Different Voice. Í rannsókn sinni á ólíkri siðferðismótun kynjanna setti hún fram kenningu um grundvallarmun á piltum og stúlkum í samskiptum. Meginhugtökin þar eru siðferðilegur réttur, skyldu- og ábyrgðarkennd, samsömun, gildismat, marksækni og ferlishugsun.

Rit og rannsóknir Gilligans tengjast kenningum og skrifum Nancy Chodorow (1978) sem setti fram kenningu um hvernig mæður tengjast dætrum sínum öðruvísi en sonum og hvernig þær ala upp og móta dætur sínar og syni með ólíkum hætti, bæði félagslega og tilfinningalega. Hún leiðir rök að því að þetta eigi sinn þátt í því að konur hafa haft tilhneigingu til að láta sig varða og tengjast persónulega, hvort sem er í einkalífi eða starfsverkefnum, en karlar taka frekar mið af stöðu, markmiði og árangri í eigin þágu.

Þetta má einnig lesa út úr starfsvali kvenna og karla. Í hefðbundnum kvennagreinum er fengist við lifandi manneskjur, rækt þeirra, umönun og aðhlynningu. Í doktorsritgerð sinni frá 1997 fjallar Þorgerður Einarsdóttir um sérgreinaval í læknastétt. Í niðurstöðum hennar er greining á því hvernig konur virðast að svo stöddu velja sér sérfræðigrein í samræmi við hefðina um að axla ábyrgð á börnum og öldruðum og almennri heilsu. Slíkar greinar krefjast mikillar árvekni og eftirfylgdar og virðist það vega þyngra en hagkvæmismat með hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi eins og gjarnan hefur verið álitið. Enn síður virðast konur meðal lækna velja sérgrein út frá eigin framamöguleikum og virðingarstiga samfélagsins.

Í þessu sambandi má minna á að eðlislægt hlutverk kynjanna er í frumatriðum ekki aðeins ólíkt heldur andstætt. Sumir hafa bent á í anda sálgreiningarkenningarinnar að kynlífið og líffræðilega mótuð hlutverk skapi forsendur fyrir hegðunarmótun kynjanna. Við getnað þrýstist sæðið frá karlinum inn í konuna. Þar skilur hann það eftir og yfirgefur - án þess að gera sér neinar sérstakar áhyggjur af því hvað um það verður, alltént fyrst um sinn. Konan tekur við sæðinu og laðar það að sér með eiginleikum sem stuðla að því að festa sæðið í egginu sem hún „býður fram”, halda saman þessari heild, næra hana og vernda inni í sér.

Fljótlega eftir að kona er hugrænt og tilfinningalega meðvituð um að getnaður hafi átt sér stað fer hún ósjálfrátt að miða líf sitt við hagsmuni hins ófædda barns sem hún ber undir belti. Fóstrið og síðan barnið á allt sitt undir ábyrgðarkennd hennar, umhyggju og jafnvel sjálfsafneitun. Hún ákveður að færa ýmsar fórnir og hætta margvíslegri hegðun, sem kann að veita henni sjálfri ánægju, einfaldlega ef hún veit að það skaðar barnið. Hún er upptekin af að afla sér upplýsinga um hollustuhætti og hugsanleg áhrif á fóstrið. Þessi forvitni, fróðleiksfýsn og ráðstafanir sem fylgja í kjölfarið snúast um forsendur lífsins. Áhrif margvíslegra félagsþátta, menning og framleiðluhættir hafa til skamms tíma stuðlað að því að styrkja þessa hegðun.

Eftir að barnið er fætt er þetta líf á hennar ábyrgð. Það kemur fram líkamlega í brjóstagjöfinni og andlega í þeim tilfinningalega samruna sem rofnar stundum ekki fyrr en eftir áratugi eða jafnvel aldrei. Stundum birtist þessi sterka tilfinning fyrir velferð annarrra - einkum eigin barna - í ofvaxinni forvitni, tilætlunarsemi og afskiptum sem upphaflega er sprottin af þessari lífsnauðsynlegu umhyggju og ábyrgðarkvöð. Hún verður þá stundum að því sem kallað hefur verið mæðrahyggja og felur í sér vísun til eignarréttar og stjórnsemi gagnvart fjölskyldumeðlimum.

Margt bendir til að á okkar tímum sé mjög að draga úr þessum áhrifum. Kemur þar til aukin jafnstaða kynjanna bæði í fjölskyldu og á vinnumarkaði, en líka breytt réttarstaða barna og feðra, meðal annars í skilnaðar- og forsjármálum.

Heimildir:

Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, 1997. The Construction of Femininity in Iceland. Óbirt doktorsritgerð við London School of Economics.

Chodorow, Nancy, 1978. The Reproduction of Mothering: Psychoanalysis and the Sociology of Gender. Berkeley: University of California Press.

Gilligan, Carol, 1982. In a Different Vooice: Psychological theory and women's development. Cambridge, Mass.: Harvard University Press.

Tannen, Deborah, 1990. You Just Don't Understand: Women and Men in Conversation. New York: William Morrow.

Þorgerður Einarsdóttir, 1997. Läkaryrket i förändring. En studie av den medicinska professionens heterogenisering och könsdifferentiering. Gautaborg: Göteborgs universitet.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum Hvað er ást? Er hún mælanleg? og Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?

Mynd: Vefsetur Deborah Tannen

Höfundur

Sigrún Júlíusdóttir

prófessor í félagsráðgjöf við HÍ

Útgáfudagur

20.6.2001

Spyrjandi

NN

Tilvísun

Sigrún Júlíusdóttir. „Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1723.

Sigrún Júlíusdóttir. (2001, 20. júní). Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1723

Sigrún Júlíusdóttir. „Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1723>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju þurfa mæður alltaf að vera svona forvitnar og tilætlunarsamar?
Auðvelt væri að svara þessari spurningu út frá almennu viðhorfi og ef til vill fordómum um „eðli kynjanna” sem svo oft er vísað til í daglegu lífi. Kunnara er en frá þurfi að segja að konur eru til dæmis almennt álitnar forvitnari - í merkingunni rýnandi eða hnýsinn - en karlar. Þær eru álitnar málglaðari, skrafhreifnari, lausmálli eða fjasgjarnari en karlar - eftir því hvert viðhorf ummælanda er. Karlar eru hins vegar taldir lokaðri - í merkingunni fálátur eða þumbaralegur - en konur. Þeir eru taldir málefnalegri en konur - fastari fyrir, minna tilfinningasamir, ónæmir eða „ferkantaðir” eftir því hvert viðhorf ummælanda er.

Þegar kona er forvitin kann það samkvæmt þessu að fela í sér að hún sé að verða sér úti um vitneskju um annað fólk í þeim tilgangi að ná yfir því einhvers konar völdum eða geta látið til sín taka. Karlmaður sem er forvitinn mundi á hinn bóginn þá álitinn vera að sýna málefni áhuga í þeim tilgangi að ljá því lið. Því mætti einfaldlega svara spurningunni þannig að það sé menningarbundið og hefðinni samkvæmt að líta á forvitni sem einn af þeim kvenlegu eiginleikum sem óprýða - eða prýða - venjulegar konur, og tilætlunarsemi eða afskiptasemi sem einn af þeim eiginleikum sem einkum prýða – eða óprýða - konur í móður- og eiginkonuhlutverki.

Málvísindamaðurin Deborah Tannen hefur rannsakað, greint og fjallað um í bókum sínum (1990 o.fl.) hvernig kynin nota mismunandi orð um sömu hluti og hvernig sömu orð fá aðra merkingu eftir því hvort kynið þau eiga við, og enn fremur hvernig ólík orð eru notuð um sömu hegðun eftir því hvort karl á í hlut eða kona. Kynin noti því sjálf orð og hugtök með ólíkri vísun og boðskiptahegðun þeirra sé oft eins og af tvennum toga og þau tali ekki sama mál. Stundum gengur þetta svo langt að þau skilja ekki boðskap orðanna og misskilningur verður með hrapallegum afleiðingum, meðal annars í tjáskiptum á vinnustöðum og enn frekar í nánum samskiptum eins og í hjónabandi. Ein af bókum hennar hefur verið þýdd á íslensku og gefin út hjá Almenna bókafélaginu (1995): Þú misskilur mig.

Þannig á líka málið og orðræðan, hvað er sagt, með hvaða orðum og hvernig það er sagt, sinn þátt í því að móta gildismat og festa fordóma um hvað sé kvenlegt eða karlmannlegt. Öll tvískipting eða tvíhyggja (dualism) og áhersla á að eitthvað sé ósamræmanlegt (antagonism) er yfirleitt til þess fallin að efla andstæður, skapa bil og aðgreiningu og draga úr jafnvægi eða jöfnuði. Þetta á sér stundum eðlilegar, djúpstæðar frumorsakir af líffræðilegum eða menningarlegum toga sem í raun þjónar litlum tilgangi að vísa til í nútímasamfélagi. Stundum þjónar það hins vegar hagsmunum eða pólitískum tilgangi.

Að klifa á sérkennum og „eðli” annars kynsins getur orðið til þess að halda niðri eða veikja stöðu annars en styrkja stöðu hins. Annadís Rúdolfsdóttir hefur fjallað um þetta efni í doktorsritgerð sinni frá 1997 þar sem hún byggir á greiningu á orðræðu í íslenskum minningargreinum um konur og hvernig þær þjóna þeim tilgangi að viðhalda hefðbundinni ímynd um kvenleika og menningarbundnum hugmyndum um líf kvenna, hlutverk og hegðun, eiginleika hins kvenlega sjálfs.

Í samskiptafræðum og þá ekki síst kynjafræðum hafa rannsóknir mjög beinst að mótun kynjanna og hvernig fjölmargir þættir eru samverkandi í hinu flókna samspili manns og samfélags. Eitt af tímamótaverkunum á því sviði er bók Carol Gilligan (1982), In a Different Voice. Í rannsókn sinni á ólíkri siðferðismótun kynjanna setti hún fram kenningu um grundvallarmun á piltum og stúlkum í samskiptum. Meginhugtökin þar eru siðferðilegur réttur, skyldu- og ábyrgðarkennd, samsömun, gildismat, marksækni og ferlishugsun.

Rit og rannsóknir Gilligans tengjast kenningum og skrifum Nancy Chodorow (1978) sem setti fram kenningu um hvernig mæður tengjast dætrum sínum öðruvísi en sonum og hvernig þær ala upp og móta dætur sínar og syni með ólíkum hætti, bæði félagslega og tilfinningalega. Hún leiðir rök að því að þetta eigi sinn þátt í því að konur hafa haft tilhneigingu til að láta sig varða og tengjast persónulega, hvort sem er í einkalífi eða starfsverkefnum, en karlar taka frekar mið af stöðu, markmiði og árangri í eigin þágu.

Þetta má einnig lesa út úr starfsvali kvenna og karla. Í hefðbundnum kvennagreinum er fengist við lifandi manneskjur, rækt þeirra, umönun og aðhlynningu. Í doktorsritgerð sinni frá 1997 fjallar Þorgerður Einarsdóttir um sérgreinaval í læknastétt. Í niðurstöðum hennar er greining á því hvernig konur virðast að svo stöddu velja sér sérfræðigrein í samræmi við hefðina um að axla ábyrgð á börnum og öldruðum og almennri heilsu. Slíkar greinar krefjast mikillar árvekni og eftirfylgdar og virðist það vega þyngra en hagkvæmismat með hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi eins og gjarnan hefur verið álitið. Enn síður virðast konur meðal lækna velja sérgrein út frá eigin framamöguleikum og virðingarstiga samfélagsins.

Í þessu sambandi má minna á að eðlislægt hlutverk kynjanna er í frumatriðum ekki aðeins ólíkt heldur andstætt. Sumir hafa bent á í anda sálgreiningarkenningarinnar að kynlífið og líffræðilega mótuð hlutverk skapi forsendur fyrir hegðunarmótun kynjanna. Við getnað þrýstist sæðið frá karlinum inn í konuna. Þar skilur hann það eftir og yfirgefur - án þess að gera sér neinar sérstakar áhyggjur af því hvað um það verður, alltént fyrst um sinn. Konan tekur við sæðinu og laðar það að sér með eiginleikum sem stuðla að því að festa sæðið í egginu sem hún „býður fram”, halda saman þessari heild, næra hana og vernda inni í sér.

Fljótlega eftir að kona er hugrænt og tilfinningalega meðvituð um að getnaður hafi átt sér stað fer hún ósjálfrátt að miða líf sitt við hagsmuni hins ófædda barns sem hún ber undir belti. Fóstrið og síðan barnið á allt sitt undir ábyrgðarkennd hennar, umhyggju og jafnvel sjálfsafneitun. Hún ákveður að færa ýmsar fórnir og hætta margvíslegri hegðun, sem kann að veita henni sjálfri ánægju, einfaldlega ef hún veit að það skaðar barnið. Hún er upptekin af að afla sér upplýsinga um hollustuhætti og hugsanleg áhrif á fóstrið. Þessi forvitni, fróðleiksfýsn og ráðstafanir sem fylgja í kjölfarið snúast um forsendur lífsins. Áhrif margvíslegra félagsþátta, menning og framleiðluhættir hafa til skamms tíma stuðlað að því að styrkja þessa hegðun.

Eftir að barnið er fætt er þetta líf á hennar ábyrgð. Það kemur fram líkamlega í brjóstagjöfinni og andlega í þeim tilfinningalega samruna sem rofnar stundum ekki fyrr en eftir áratugi eða jafnvel aldrei. Stundum birtist þessi sterka tilfinning fyrir velferð annarrra - einkum eigin barna - í ofvaxinni forvitni, tilætlunarsemi og afskiptum sem upphaflega er sprottin af þessari lífsnauðsynlegu umhyggju og ábyrgðarkvöð. Hún verður þá stundum að því sem kallað hefur verið mæðrahyggja og felur í sér vísun til eignarréttar og stjórnsemi gagnvart fjölskyldumeðlimum.

Margt bendir til að á okkar tímum sé mjög að draga úr þessum áhrifum. Kemur þar til aukin jafnstaða kynjanna bæði í fjölskyldu og á vinnumarkaði, en líka breytt réttarstaða barna og feðra, meðal annars í skilnaðar- og forsjármálum.

Heimildir:

Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, 1997. The Construction of Femininity in Iceland. Óbirt doktorsritgerð við London School of Economics.

Chodorow, Nancy, 1978. The Reproduction of Mothering: Psychoanalysis and the Sociology of Gender. Berkeley: University of California Press.

Gilligan, Carol, 1982. In a Different Vooice: Psychological theory and women's development. Cambridge, Mass.: Harvard University Press.

Tannen, Deborah, 1990. You Just Don't Understand: Women and Men in Conversation. New York: William Morrow.

Þorgerður Einarsdóttir, 1997. Läkaryrket i förändring. En studie av den medicinska professionens heterogenisering och könsdifferentiering. Gautaborg: Göteborgs universitet.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum Hvað er ást? Er hún mælanleg? og Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?

Mynd: Vefsetur Deborah Tannen

...