Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað er ofvirkni?
Við fyrstu kynni af ofvirku barni er ekki víst að fólk taki eftir að eitthvað ami að. Barnið lítur eðlilega út og hagar sér jafnvel eins og önnur börn. Oft getur það tekið ókunnugt fólk töluverðan tíma að átta sig á því að barnið býr við mikla erfiðleika. Sum ofvirk börn eiga til dæmis erfitt með að ljúka því sem þau byrja á, þau vaða úr einu í annað og verða fljótt leið á verkefnum eða leikjum. Þau virðast oft vera annars hugar og eiga í erfiðleikum með að einbeita sér. Önnur eru sífellt á ferðinni, eru hvatvís og gengur illa að vera kyrr. Eins og gefur að skilja getur oft verið mjög erfitt fyrir þessi börn að fóta sig í umhverfi þar sem ætlast er til að þau fylgi fyrirmælum, sitji kyrr og einbeiti sér. Vandamál í skóla eru þess vegna mjög algeng hjá þessum börnum.
Nú til dags eru börn með framangreind einkenni sögð hafa athyglisbrest með ofvirkni (AMO), sem einnig er nefnt ofvirkniröskun. Það er mikilvægt að átta sig á því að ofvirkniröskun og athyglisbrestur með ofvirkni eru tvö greiningarhugtök sem ná yfir samskonar einkenni. Ástæðan fyrir ólíkum nöfnum er til komin vegna þess að í hinum vestræna heimi er notast við tvö greiningarkerfi, annars vegar DSM-IV og hins vegar ICD-10. DSM-IV er greiningarkerfi Bandarísku geðlæknasamtakanna en ICD-10 er gefið út af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Í þessari umfjöllun er tekið mið af DSM-greiningarkerfinu.
Í daglegu tali gengur AMO undir heitinu ofvirkni. Þess ber þó að geta að barn sem greinist með AMO þarf ekki nauðsynlega að hreyfa sig of mikið. Það getur alveg eins verið að athyglisskortur eða hvatvísi sé meginvandamálið. Of mikil hreyfivirkni er því ekki nauðsynleg til þess að hægt sé að greina barn með ofvirkni, þó að það kunni að hljóma sennilega.
Hvað einkennir ofvirkni?
Ekki eru til nein læknisfræðileg próf, eins og blóðprufur, sem meta hvort barn sé með AMO eða ekki. AMO er einungis hægt að finna með því að fylgjast með því hvernig börnin hegða sér. Gróflega má skipta hegðun barna með AMO í þrjá flokka:
Athyglisbrestur. Eins og nafnið gefur til kynna eiga börn með athyglisbrest erfitt með að beina eftirtekt sinni að einhverju einu í tiltekinn tíma. Þeim gengur oft vel að fylgjast með því sem þeim þykir skemmtilegt eða því sem er mjög fjölbreytt, svo sem sjónvarpsefni eða tölvuleikjum. Þau eiga hins vegar í miklum erfiðleikum með það að skipuleggja og ljúka verkefni sem fyrir þau eru lögð.
Ofvirkni. Fólk sem er ofvirkt virðist aldrei geta eirt sér. Það á í vandræðum með að sitja kyrrt og talar oft mjög mikið. Að sitja kyrr í heila kennslustund getur því verið nánast útilokað. Þurfi ofvirkt barn að sitja kyrrt, til dæmis í skólanum, er það oft allt á iði, það danglar fótunum, snertir allt í kringum sig eða lemur blýantinum í borðið sitt. Ofvirkir unglingar og fullorðnir tala gjarnan um eirðarleysi sem hrjáir þá og að reyna að koma mörgu í verk samtímis.
Hvatvísi. Fólk sem er hvatvíst á í erfiðleikum með að halda aftur af sér. Það talar oft án þess að hugsa og framkvæmir það fyrsta sem í hugann kemur án þess að íhuga hverjar afleiðingarnar gætu orðið. Hvatvísin gerir það að verkum að því gengur oft erfiðlega að bíða þar til röðin kemur að því eða að skiptast á að leika sér með tiltekið leikfang.
Einstaklingsbundið er hvað af ofangreindu er meginvandamálið. Rannsóknir hafa bent til þess að AMO megi gróflega skipta í þrjá undirflokka:
Aðallega athyglisbrestur.
Aðallega ofvirkni og/eða hvatvísi.
Sambland af hvorutveggja.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að samsetning þessara hópa er ólík. Í fyrsta hópnum er líklega hærra hlutfall stúlkna en stráka; hjá þeim byrjar vandinn seinna. Og það eru meiri líkur á slakri frammistöðu í skóla í samanburði við hina hópana.
Flestir, ef ekki allir, þekkja af eigin raun það að eiga stundum í erfiðleikum með að einbeita sér, eða að vera eirðarlausir og tala án þess að hugsa. Það þýðir samt ekki að um AMO sé að ræða. En hvernig má þá greina á milli þess sem er eðlilegt og þess sem sérfræðingar kalla AMO?
Til þess að meta hvort viðkomandi sé með AMO eða ekki þarf sérfræðingurinn að huga að ýmsum mikilvægum spurningum. Í fyrsta lagi hversu algeng hegðunin er og hversu lengi hún varir. Í öðru lagi þarf að bera hegðunina saman við hegðun jafnaldra. Í þriðja lagi þarf að huga að því hvort vandamálið er stöðugt eða breytilegt eftir aðstæðum. Það veltur meðal annars á svörum við þessum spurningum hvort íhuga beri að greina viðkomandi með AMO.
Hvað veldur ofvirkni?
Til þess að þróa megi betri meðferð og (vonandi einhvern tíma) fyrirbyggja að fólk fái AMO verður að leita að orsökum röskunarinnar. Rannsóknir benda til þess að heimilisaðstæður og uppeldi valdi ekki AMO, heldur megi finna orsakir AMO í starfsemi heilans. Fjöldinn allur af orsakakenningum hefur litið dagsins ljós. Sumum þessara kenninga hefur verið hafnað en aðrar hafa leitt af sér fjölmargar spennandi rannsóknir.
Ein af kenningunum sem miklar vonir voru bundnar við var sú að AMO mætti rekja til vægs heilaskaða, sem hugsanlega gæti átt sér stað vegna erfiðleika við fæðingu eða sýkingar. Þó svo að vissar tegundir heilaskaða valdi einkennum svipuðum og í AMO var þessari kenningu hafnað vegna þess að hún gat einungis útskýrt tilurð AMO hjá mjög fáum.
Önnur kenning, vinsæl á sínum tíma, var á þá leið að AMO mætti rekja til sykurneyslu og aukaefna í matvælum. Foreldrar voru hvattir til að láta börn sín hætta að borða mat sem innihélt sykur, litarefni og rotvarnarefni. Eftir fjöldann allan af rannsóknum komust vísindamenn að því að slíkir matarkúrar drógu einungis úr einkennum hjá um 5% barna og stærsti hópur þessara barna var með einhvers konar fæðuofnæmi.
Menn hafa oft gripið til einfaldra útskýringa á orsökum AMO. Rannsóknir hafa sýnt að AMO orsakast ekki af:
Ægir Már Þórisson. „Hver eru einkenni ofvirkni hjá börnum og hvað veldur henni?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2001, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1678.
Ægir Már Þórisson. (2001, 6. júní). Hver eru einkenni ofvirkni hjá börnum og hvað veldur henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1678
Ægir Már Þórisson. „Hver eru einkenni ofvirkni hjá börnum og hvað veldur henni?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2001. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1678>.