Upphafleg spurning var sem hér segir:Þvengeðlan (Compsognathus) er með minnstu risaeðlum sem fundist hafa merki um. Hún var á stærð við lítinn heimiliskött eða um 30-50 cm á lengd og vó aðeins 3-5,5 kg. Sumir telja að þvengeðlan hafi verið forfaðir öglis (Archaeopteryx) sem er forfaðir fugla nútímans. Þetta er þó nokkuð umdeilt og allt eins er líklegt að þessar tegundir hafi verið uppi á sama tíma, seint á Júra-tímabilinu (fyrir 163 til 144 milljónum ára).
Fyrirspurnir um Þvengeðlu (Compsognathus). Hvar í fæðukeðjunni var hún, hvað er vitað um hegðun hennar og var hún hjarðdýr?
Fyrstu steingerðu leifar þvengeðlu fundust í sandsteinslögum í Steinshof í Bavaríu árið 1861 og hafa flestar leifar þessarar eðlu fundist í Evrópu. Árið 1881 fannst lítil beinagrind hjá beinagrind þvengeðlu og bendir það til að hún hafi verið kjötæta. Sennilega hefur hún verið skæður eggjaræningi auk þess að ræna nýklöktum ungum stóru eðlanna. Hún hefur því verið ofarlega í fæðukeðjunni. Vísindamenn telja að oft hafi stærri ráneðlur náð í þennan litla þjóf og étið hann. Þess vegna er ekki hægt að segja að hún hafi verið efst í fæðukeðjunni enda bráð annarra ráneðla. Erfitt hefur verið að alhæfa um atferli útdauðra dýra en þó telja vísindamenn að þessar eðlur hafi haldið sig í smáum hópum. Margar risaeðlur voru aftur á móti einfarar til dæmis hin gríðastóra ráneðla Tyrannosaurus rex.