Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er kampýlóbakter?

Haraldur Briem

Campylobacter er eins og nafnið ber með sér baktería. Bókstaflega merkir campylo boginn eða beygður en orðið er grískt. Bacter merkir stafur. Bakterían, sem kalla má kampýlóbakter á íslensku, fannst fyrst í látnum fóstrum kinda árið 1909. Til eru að minnsta kosti 14 mismunandi tegundir af kampýlóbakter. Það var ekki fyrr en á 8. áratug 20. aldar með bættri greiningartækni sem ljóst varð að kampýlóbakter gat sýkt menn.

Kampýlóbaktersýkingar (campylobacteriosis) eru þekktar um heim allan. Bakterían finnst í görnum margra villtra dýra og húsdýra. Er hún eðlilegur hluti af þeim bakteríum sem þar finnast. Kampýlóbakter getur þó stundum sýkt nýfædd dýr. Menn geta sýkst af neyslu kampýlóbaktermengaðra dýraafurða sem ekki eru soðnar eða steiktar á fullnægjandi hátt. Dýr geta einnig saurmengað jarðveg og yfirborðsvatn af bakteríunni. Neysla mengaðs vatns getur einnig valdið sýkingum í mönnum.

Kampýlóbaktersýking í mönnum getur verið alvarleg. Meðgöngutími sýkingar, það er tíminn frá smitun þar til einkenna verður vart, er alla jafna 2-5 dagar en getur verið frá einum og upp í tíu daga, eftir því hve stóran skammt af sýklunum menn fá í sig. Helstu einkennin eru hiti, niðurgangur, magaverkir, ógleði og stundum uppköst. Í rannsókn sem gerð var hér á landi árið 1999 reyndist meðaltími veikinda vera 11 dagar en þau gátu varað frá 4 og upp í 26 daga.

Sýkingin getur valdið fylgikvillum og eru liðbólgur algengastar (1% tilvika). Alvarlegasti fylgikvillinn er langdregin lömun (Gullain-Barré syndrome) sem talin er koma fyrir í 0,1% tilvika. Talið er að mun fleiri sýkist af bakteríunni en greinast eftir að hafa leitað læknis.

Kampýlóbaktersýkingar hafa verið þekktar á Íslandi síðustu 2 áratugi. Framan af voru þær tiltölulega fátíðar. Nokkrum hópsýkingum hefur verið lýst sem tengdust menguðu neysluvatni. Á þessu varð skyndileg breyting árið 1998. Þá fjölgaði tilfellum mikið, einkum yfir sumarmánuðina, og hélst þessi aukning á sjúkdómstilfellum áfram árið 1999 en þá greindust hátt í 500 tilfelli. Sýnt var fram á að flest sjúkdómstilvik mátti rekja til kampýlóbaktermengaðra kjúklinga sem eldaðir voru með ófullnægjandi hætti. Líklegasta skýringin á því að kjúklingarnir voru svo algeng smitleið er talin vera að árið 1996 var leyft að selja „ferska” ófrosna kjúklinga til almennings. Fór markaðshlutdeild ófrosinna kjúklinga sífellt vaxandi næstu árin á eftir. Áður höfðu kjúklingar verið seldir frosnir en vitað er að frysting dregur umtalsvert úr magni kampýlóbakter í kjúklingunum.

Í ársbyrjun árið 2000 hófst átak sem miðaði að því að draga úr kampýlóbaktermengun í kjúklingaræktinni hér á landi, jafnframt því sem mengaðir kjúklingar voru frystir fyrir sölu. Mjög góður árangur náðist sem skilaði sér í umtalsverðri fækkun sjúkdómstilfella árið 2000. Það sem af er þessu ári hefur tilfellunum fækkað enn. Erfitt verður þó að útrýma kampýlóbaktersýkingum með öllu þar sem bakterían finnst svo víða í náttúrunni. Með því að sjóða og steikja kjöt vel, einkum fuglakjöt, forðast krossmengun matvæla og með því sjóða yfirborðsvatn áður en það er drukkið má hindra sýkingu.



Mynd: Altekruse, Sean F., og fleiri. "Campylobacter jejuni—An Emerging Foodborne Pathogen". Emerging Infectious Diseases [tímarit á vefnum] 5 (1), 1999 jan.-mars [tilvitnun 28. maí 2001].

Höfundur

Haraldur Briem

læknir, dr.med.

Útgáfudagur

25.5.2001

Spyrjandi

Atli Gunnarsson

Tilvísun

Haraldur Briem. „Hvað er kampýlóbakter?“ Vísindavefurinn, 25. maí 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1644.

Haraldur Briem. (2001, 25. maí). Hvað er kampýlóbakter? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1644

Haraldur Briem. „Hvað er kampýlóbakter?“ Vísindavefurinn. 25. maí. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1644>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er kampýlóbakter?
Campylobacter er eins og nafnið ber með sér baktería. Bókstaflega merkir campylo boginn eða beygður en orðið er grískt. Bacter merkir stafur. Bakterían, sem kalla má kampýlóbakter á íslensku, fannst fyrst í látnum fóstrum kinda árið 1909. Til eru að minnsta kosti 14 mismunandi tegundir af kampýlóbakter. Það var ekki fyrr en á 8. áratug 20. aldar með bættri greiningartækni sem ljóst varð að kampýlóbakter gat sýkt menn.

Kampýlóbaktersýkingar (campylobacteriosis) eru þekktar um heim allan. Bakterían finnst í görnum margra villtra dýra og húsdýra. Er hún eðlilegur hluti af þeim bakteríum sem þar finnast. Kampýlóbakter getur þó stundum sýkt nýfædd dýr. Menn geta sýkst af neyslu kampýlóbaktermengaðra dýraafurða sem ekki eru soðnar eða steiktar á fullnægjandi hátt. Dýr geta einnig saurmengað jarðveg og yfirborðsvatn af bakteríunni. Neysla mengaðs vatns getur einnig valdið sýkingum í mönnum.

Kampýlóbaktersýking í mönnum getur verið alvarleg. Meðgöngutími sýkingar, það er tíminn frá smitun þar til einkenna verður vart, er alla jafna 2-5 dagar en getur verið frá einum og upp í tíu daga, eftir því hve stóran skammt af sýklunum menn fá í sig. Helstu einkennin eru hiti, niðurgangur, magaverkir, ógleði og stundum uppköst. Í rannsókn sem gerð var hér á landi árið 1999 reyndist meðaltími veikinda vera 11 dagar en þau gátu varað frá 4 og upp í 26 daga.

Sýkingin getur valdið fylgikvillum og eru liðbólgur algengastar (1% tilvika). Alvarlegasti fylgikvillinn er langdregin lömun (Gullain-Barré syndrome) sem talin er koma fyrir í 0,1% tilvika. Talið er að mun fleiri sýkist af bakteríunni en greinast eftir að hafa leitað læknis.

Kampýlóbaktersýkingar hafa verið þekktar á Íslandi síðustu 2 áratugi. Framan af voru þær tiltölulega fátíðar. Nokkrum hópsýkingum hefur verið lýst sem tengdust menguðu neysluvatni. Á þessu varð skyndileg breyting árið 1998. Þá fjölgaði tilfellum mikið, einkum yfir sumarmánuðina, og hélst þessi aukning á sjúkdómstilfellum áfram árið 1999 en þá greindust hátt í 500 tilfelli. Sýnt var fram á að flest sjúkdómstilvik mátti rekja til kampýlóbaktermengaðra kjúklinga sem eldaðir voru með ófullnægjandi hætti. Líklegasta skýringin á því að kjúklingarnir voru svo algeng smitleið er talin vera að árið 1996 var leyft að selja „ferska” ófrosna kjúklinga til almennings. Fór markaðshlutdeild ófrosinna kjúklinga sífellt vaxandi næstu árin á eftir. Áður höfðu kjúklingar verið seldir frosnir en vitað er að frysting dregur umtalsvert úr magni kampýlóbakter í kjúklingunum.

Í ársbyrjun árið 2000 hófst átak sem miðaði að því að draga úr kampýlóbaktermengun í kjúklingaræktinni hér á landi, jafnframt því sem mengaðir kjúklingar voru frystir fyrir sölu. Mjög góður árangur náðist sem skilaði sér í umtalsverðri fækkun sjúkdómstilfella árið 2000. Það sem af er þessu ári hefur tilfellunum fækkað enn. Erfitt verður þó að útrýma kampýlóbaktersýkingum með öllu þar sem bakterían finnst svo víða í náttúrunni. Með því að sjóða og steikja kjöt vel, einkum fuglakjöt, forðast krossmengun matvæla og með því sjóða yfirborðsvatn áður en það er drukkið má hindra sýkingu.



Mynd: Altekruse, Sean F., og fleiri. "Campylobacter jejuni—An Emerging Foodborne Pathogen". Emerging Infectious Diseases [tímarit á vefnum] 5 (1), 1999 jan.-mars [tilvitnun 28. maí 2001]....