Er það rétt að nóvemberkaktus blómstri alls staðar í heiminum í nóvember og ef svo er hvernig veit hann hvaða mánuður er?Nóvemberkaktus er ræktunarafbrigði sem tilheyrir ættkvíslinni Schlumbergera. Náttúruleg heimkynni þessarar ættkvíslar er skóglendi við strendur Suðaustur-Brasilíu. Þessir kaktusar eru ásetar á trjám, en svo kallast þær plöntur sem koma sér fyrir og lifa í holum á greinum hárra trjáa þar sem mold og lauf hefur safnast fyrir. Til Schlumbergera-ættkvíslarinnar teljast nokkrar tegundir. Tegundunum hefur mikið verið blandað saman þannig að þær plöntur sem fólki standa til boða sem pottaplöntur í dag eru svo til eingöngu ýmis afbrigði og blendingar og hafa samnefnið Schlumbergera-hybrider. Ræktunarafbrigðin ganga undir ýmsum nöfnum. Hér á landi er talað um nóvemberkaktus en líka desemberkaktus eða jólakaktus eftir því hvenær þeir blómstra. Í Evrópu er þekkt að tala um jólakaktus; 'Christmas cactus' á ensku, 'Weihnachtskaktus' á þýsku, 'cactus de Noël' á frönsku og 'cacto de Navidad' á spænsku. Í Bandaríkjunum er talað um jólakaktus en einnig þakkargjörðarkaktus (e. Thanksgiving cactus). Heitin vísa til þess hvenær plantan blómstrar en það er ekki alltaf í nóvember. Kaktusinn er haustkaktus og blómstrar þegar daginn tekur að stytta, talið er að hann þurfi að minnsta kosti 12 klukkustunda nótt til þess að mynda blóm. Á norðurhveli jarðar gerist þetta þegar líður á haustið, seint í október, nóvember og desember. Í sínum náttúrulegu heimkynnum og annars staðar á suðurhveli blómstrar kaktusinn líka að hausti en það er í apríl eða maí. Heimildir:
- Valgerður Einarsdóttir. Jólakaktus og aðrir haustkaktusar - MBL.is, 26. 11. 2007. (Skoðað 7. 11. 2016).
- Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir. Planta vikunnar - Nóvemberkaktus - Náttúrulækningafélag Íslands, 22. 10. 2015. (Skoðað 7. 11. 2016).
- Schlumbergera - Wikipedia. (Skoðað 7. 11. 2016).
- Gerald Klingaman. Thanksgiving Cactus (Holiday Cactus, Christmas Cactus) - The University of Arkansas Division of Agriculture, 20. 10. 2000. (Skoðað 7. 11. 2016).
- National Gardening Association. (Skoðað 7. 11. 2016).
- Mynd: Cactus de noël rev.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 7. 11. 2016).