Upphafleg spurning var á þessa leið: Hvað er pamfíll? Oft er sagt: „Þú ert lukkunnar pamfíll.” Við hvað er verið að líkja manni?Orðið pamfíll er þekkt í íslensku máli frá því á 18. öld. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, aðstoðarmanns Árna Magnússonar handritasafnara. Orðið var notað um sérstakt spil sem meðal annars er sagt frá hjá Ólafi Davíðssyni í bókinni Gátur, þulur, skemmtanir og vikivakar. Pamfíll var líka notað um laufagosa í spilinu púkki, að minnsta kosti á Suðurlandi. Þriðja merkingin í orðinu er 'náungi', nú oftast í sambandinu lukkunnar pamfíll 'heppinn maður, sá sem lánið leikur við'. Pamfíll er tökuorð úr dönsku pamfilius þar sem það var notað um laufagosann og sérstakt spil eins og hér en einnig almennt um fólk. Danska orðið er aftur fengið að láni úr latínu þar sem Pamphilius var mannsnafn tekið að láni úr grísku Pámphilos.
Mynd: HB