Upphaflega spurningin var svona: Ég er oft á sumrin stödd á sveitabæ þar sem flugur safnast stöðugt í eldhúsið. Þótt þær séu drepnar, koma alltaf mjög fljótt aðrar í staðinn, en aðeins að vissu marki, yfirleitt aldrei fleiri en 5-6 í þetta eldhús (nema í sérstökum flugnasumrum). Flugurnar sýnast virða eitthvert lögmál um lífsrými sitt. Hvaða skýring er á þessu fyrirbæri?Fjöldi flugna á hverjum stað ræðst í flestum tilfellum af fæðuframboði fyrir þær eða fyrir lirfurnar sem þær klekjast af. Þó er það þannig að sumar flugur, sérstaklega mýflugur (Chironomidae) safnast saman á ákveðna staði. Karlflugur stóru toppflugunnar (Chironomus islandicus) safnast til dæmis oft yfir hólum og eru þar í tugþúsundatali þegar þær sveima í mökunarflugi. Þessi hegðun þeirra er því ekki tengd fæðuöflun. Kvenflugur mývargsins (Simulium vittatum) safnast oft kringum hesta, kýr eða önnur spendýr til að sjúga blóð og geta verið þar í þúsundatali. Í því tilviki er það sem sagt fæðuframboðið sem ræður.
Mynd: Dicrotendipes thanatogratus Chironomidae and Water Beetles of Florida Web Site