Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:20 • sest 16:07 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 15:40 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:11 • Síðdegis: 23:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:43 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?

Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir

Orðið lesblinda

Lesblinda er íslensk þýðing á orðinu dyslexia sem er notað í flestum erlendum málum. Oftast er orðið notað til að lýsa því þegar börn eiga í erfiðleikum með að læra að lesa þótt orðið sé einnig haft um það þegar fólk glatar lestrarhæfni við afmarkaða heilaskaða.

Íslenska orðið lesblinda virðist fela í sér að engin lestrarhæfni sé til staðar, að viðkomandi sé alveg „blindur” á letur. Það getur gerst að heilaskaði hafi þau áhrif en er þó ekki algengt. Þegar orðið er haft um lestrarvanda sumra barna er hins vegar ekki átt við neina slíka blindu, heldur erfiðleika sem geta verið mismiklir.

Orðið lesblinda þykir að mörgu leyti óheppilegt nú orðið til að lýsa erfiðleikum barna í lestrarnámi. Einkum er það vegna þess að orðið blinda gefur til kynna að erfiðleikarnir séu sjónræns eðlis en rannsóknir síðustu áratuga benda ekki til þess að svo sé. Í öðru lagi snerta erfiðleikarnir ekki bara lestur heldur einnig stafsetningu.

Ekki hefur náðst samstaða um annað íslenskt orð sem gæti leyst orðið lesblinda af hólmi þótt oft sé rætt um lesraskanir. Það orð er að því leyti heppilegra að það felur ekki í sér (hugsanlega ranga) skýringu á orsökum vandans eins og orðið lesblinda. Hugtakið lesröskun nær samt ekki til stafsetningar og hefur sumum því þótt sem best væri að nota einfaldlega erlenda orðið í íslensku. Hér verða orðin lesblinda og lesröskun notuð jöfnum höndum um dyslexíu.

Eldri skýringar á lesblindu

Ein fyrsta lýsingin á lesblindu birtist árið 1895 í British Medical Journal. Þar sagði læknirinn W. Pringle Morgan frá Percy, vel greindum dreng, sem átti í óvæntum erfiðleikum með lestrarnám og gat lítið sem ekkert lesið þótt hann væri orðinn 14 ára. Morgan taldi drenginn þjást af „meðfæddri orðblindu” sem varð þess valdandi að hann átti í ótrúlegum erfiðleikum með að læra að lesa. Morgan taldi einnig að erfiðleikarnir væru sjónræns eðlis og var sú skoðun lengi útbreidd. Af þessum sökum voru augnlæknar fengnir til að rannsaka þessa erfiðleika og fyrstu bókina um lesblindu samdi einmitt breskur augnlæknir, Hinshelwood að nafni, árið 1917.

Síðar naut töluverðrar hylli sú skýring sem bandaríski taugalæknirinn Samuel Orton setti fram um 1940, að einhver truflun ætti sér stað í samskiptum vinstra og hægra heilahvels hjá börnum með lesraskanir. Orton taldi sig merkja slíkar truflanir í því að lesröskuðum hætti meir en vel læsum til að snúa við orðum og bókstöfum, ruglast á ‘b’ og ‘d’ til dæmis eða lesa orðið ‘sál’ sem ‘lás’.

Nú er hins vegar vitað að hér skjátlaðist Orton. Viðsnúningur er reyndar algengur í lestri hjá lesblindum en aðeins ef þeir eru bornir saman við lestur jafnaldra sem eru vel læsir. Viðsnúningur er algengur í lestri flestra sem eru stutt komnir í lestrarnámi og því líklega aðeins til marks um takmarkaða lestrargetu en ekki afbrigðilega lestrargetu. Hann er því afleiðing lesröskunar en ekki orsök hennar.

Lesblinda og hljóðkerfisvitund

Á síðustu þremur áratugum hefur athygli fræðimanna einkum beinst að mállegum orsökum lesraskana. Blað var brotið í sögu þessara rannsókna þegar Isabelle Liberman, Donald Shankweiler og fleiri sýndu fram á að skert hljóðkerfisvitund fylgir lestrarerfiðleikum [1]. Hljóðkerfisvitund er hæfni til að meðhöndla hljóð tungumálsins á meðvitaðan hátt, segja til um rím orða og um einstök hljóð orðanna. Svo er að sjá sem talskynjun sé ekki háð því að hlustendur geti meðhöndlað málhljóðin með slíkum meðvituðum hætti en það er hins vegar nauðsynlegt þegar lesin er stafrófsskrift.

Þessar rannsóknir hafa gjörbreytt skilningi manna á eðli lesraskana eins og sést meðal annars á því að áður var engin leið að spá fyrir um það hverjir myndu eiga í erfiðleikum með að læra að lesa en nú er hægt, í mörgum tilvikum að minnsta kosti, að sjá það fyrir og grípa til aðgerða til að reyna að liðka fyrir lestrarnáminu. Hér skiptir miklu máli kerfisbundin þjálfun hljóðkerfisvitundar en rannsóknir hafa sýnt að slík þjálfun eflir lestrarnám. Til er íslenskt námsefni, Markviss málörvun eftir þær Helgu Friðfinnsdóttur, Sigrúnu Löve og Þorbjörgu Þóroddsdóttur, sem víða mun notað í leikskólum í þeim tilgangi [2].

Þótt nú sé almennt talið að skert hljóðkerfisvitund skipti sköpum um framvindu lestrarnáms, og myndar nokkurs konar kjarna þeirra röskunar sem leiðir til erfiðleika í lestrarnámi, er samt enn margt á huldu um eðli lesraskana. Hvað veldur því að hljóðkerfisvitund barna er ólík, má rekja það til röskunar í heilastarfsemi og þá hverrar? Og hvaða áhrif hefur ritmálið sjálft á birtingarmynd lesraskana?

Rannsóknir á heilastarfsemi samfara lestri sýna frávik hjá lesröskuðum einstaklingum miðað við það sem er að finna hjá vel læsum. Í þessum rannsóknum er starfsemi heilans könnuð með því að mæld er upptaka súrefnis í heilavef en því meiri sem upptakan er á tilteknum svæðum þeim mun virkari eru þau. Margar rannsóknir af þessu tagi benda til slakari samskipta sjónsvæða og málsvæða í vinstra heilahveli hjá lesröskuðum einstaklingum en hjá þeim sem eru vel læsir. Að sama skapi verður oft vart meiri virkni í hægra heilahvelinu hjá lesröskuðum. Ekki er hins vegar auðvelt að túlka þessar niðurstöður því að þær gætu á sinn hátt einnig verið afleiðing slakari lesturs rétt eins og orsök.

Þannig benda aðrar rannsóknir til sérstakra truflana í ákveðnum sjónbrautum þótt flestir fræðimenn hallist að því að þar sé yfirleitt ekki að finna ástæðu lesröskunar. Hér má minnast þess að augnhreyfingar eru afbrigðilegar hjá þeim sem eru illa læsir. Á árum áður töldu sumir að það væri einmitt ástæða lestrarerfðileikanna og var oft gripið til þjálfunar augnhreyfinga. Nú er hins vegar almennt talið að afbrigðilegar augnhreyfingar séu fyrst og fremst til marks um slakan lestur og því afleiðing lesröskunar en ekki orsök.

Þótt enn sé langt í land með að tekist hafi að skýra hvað fer úrskeiðis í heilastarfsemi þeirra sem glíma við lesraskanir má ætla að smám saman öðlist fræðimenn betri skilning á því. Nú er einnig orðið ljóst að erfðir skipta töluverðu máli fyrir lesblindu.

Tíðni í mismunandi tungumálum

Eðli ritmálsins hefur einnig áhrif á birtingarmynd lesraskana. Ritmál eru margbrotin og standa hljóðgerð tungumálanna misjafnlega nærri. Flestir kannast við að tengsl ritháttar og framburðar eru óvenju torræð í ensku og að sama skapi veitist börnum erfitt að læra að lesa ensku og lesraskanir eru áberandi hjá enskumælandi börnum.

Annað er uppi á teningunum í ítölsku en þar eru tengsl ritháttar og framburðar gagnsæ og lesraskanir að sama skapi minna áberandi en hjá enskumælandi. Þrátt fyrir það er ekki við öðru að búast en að hin hugræna röskun, orsök lesblindunnar, sé jafn útbreidd meðal Ítala og enskumælandi þjóða.

Í nýlegri rannsókn, sem birtist í tímaritinu Science [3], er þetta einmitt staðfest. Þar var heilastarfsemi könnuð hjá enskum, frönskum og ítölskum háskólastúdentum sem allir áttu við lestrarerfiðleika að glíma þótt hún væri minnst áberandi hjá Ítölunum. Heilaröskunin hjá stúdentunum var sambærileg þótt birtingarmynd lesblindunnar væri ólík.

Þetta leiðir hugann að íslenskunni og að því hvernig lesraskanir birtist í íslensku. Hér er því miður fátt um rannsóknir og erfitt að fullyrða um samanburð við önnur mál. Þó virðist mega slá því föstu að lesraskanir séu hér minna áberandi en í ensku og jafnframt er áberandi að þeirra verður oft sérstaklega vart í stafsetningu, frekar en í lestri, að minnsta kosti þegar börn eru orðin eldri.

Margir mætir menn hafa viljað freista þess að einfalda íslenska stafsetningu til að gera hana auðveldari. Hér má minnast merkilegra rannsókna Björns M. Ólsens [4], sem síðar varð fyrsti rektor Háskóla Íslands, en hann taldi stafsetningarvillur í stílum nemenda í lærða skólanum um 1890 og rökstuddi með hliðsjón af þeim að rétt væri að færa stafsetningu nær framburði. En þar hafði hann ekki erindi sem erfiði.

Björn hefði sennilega kunnað að meta þá rannsókn úr Science sem fyrr var nefnd og talið hana vera til marks um að hann væri á réttri braut í tillögum sínum um einföldun á stafsetningunni. Af öllu þessu virðist því mega álykta sem svo að eðli ritmálsins sé einn þáttur sem hefur áhrif á það hvernig lesblindan birtist og hversu illvíg hún getur orðið [5].

Úrræði

Ekki er til nein „lækning” við lesblindu en ýmislegt má gera til að auðvelda glímuna við hana og yfirvinna hana, að einhverju leyti að minnsta kosti. Rannsóknir hafa sýnt að kerfisbundin þjálfun hljóðkerfisvitundar samfara lestrarkennslu er líklega áhrifaríkasta aðferðin. Miklu skiptir að þjálfunin sé kerfisbundin og stöðug og að gripið sé til hennar sem fyrst. Að því leyti skipta fyrrgreindar rannsóknir á þætti hljóðkerfisvitundar í lestrarnámi miklu máli því þær opna möguleika á því að greina lestrarerfiðleika langtum fyrr en áður var hægt.

Þáttur foreldra er mikilvægur í lestrarnámi og þá ekki hvað síst við að vekja áhuga barna á lestri en það getur vitaskuld verið erfitt ef lestrarnámið gengur illa. Þá skiptir miklu að veita börnum jákvætt aðhald, lesa fyrir þau og skiptast á um að lesa þegar þau eru byrjuð að ná tökum á lestri. Sjálfsagt er að þeir sem eiga erfitt með stafsetningu nýti sér öll þau hjálpartæki sem tiltæk eru eins og villuleitarforrit fyrir tölvur. Skólar koma nú orðið til móts við nemendur sem eiga í lestrarerfiðleikum með því að veita þeim lengri tíma í prófum.

Heimildir:

[1] Jörgen Pind. (1997). Sálfræði ritmáls og talmáls. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

[2] Helga Friðfinnsdóttir, Sigrún Löve og Þorbjörg Þóroddsdóttir (1999). Markviss málörvun: Þjálfun hljóðkerfisvitundar. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

[3] Paulesu, E., Demonet, J.-F., Fazio, F., McCrory, E., Chanoine, V., Brunswick, N., Cappa, S. F., Cossu, G., Habib, M., Frith, C. D. og Frith, U. (2001). „Dyslexia: Cultural diversity and biological unity”. Science, 291, 2165–2167.

[4] Björn M. Ólsen (1889). Um stafsetning. Firirlestur, fluttur í „hinu íslenska kennarafjelagi“. Tímarit um uppeldis- og menntamál, II, 3–24.

[5] Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir (2001). „Reading difficulty: An update”. Trends in Cognitive Sciences, 5, 130–132.

Höfundar

Jörgen Pind

prófessor í sálarfræði við HÍ

sálfræðikennari

Útgáfudagur

2.5.2001

Spyrjandi

Björn Ásbjörnsson,
Sigursteinn Vigfússon

Efnisorð

Tilvísun

Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir. „Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2001, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1556.

Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir. (2001, 2. maí). Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1556

Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir. „Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2001. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1556>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er lesblinda? Er hægt að lækna hana?
Orðið lesblinda

Lesblinda er íslensk þýðing á orðinu dyslexia sem er notað í flestum erlendum málum. Oftast er orðið notað til að lýsa því þegar börn eiga í erfiðleikum með að læra að lesa þótt orðið sé einnig haft um það þegar fólk glatar lestrarhæfni við afmarkaða heilaskaða.

Íslenska orðið lesblinda virðist fela í sér að engin lestrarhæfni sé til staðar, að viðkomandi sé alveg „blindur” á letur. Það getur gerst að heilaskaði hafi þau áhrif en er þó ekki algengt. Þegar orðið er haft um lestrarvanda sumra barna er hins vegar ekki átt við neina slíka blindu, heldur erfiðleika sem geta verið mismiklir.

Orðið lesblinda þykir að mörgu leyti óheppilegt nú orðið til að lýsa erfiðleikum barna í lestrarnámi. Einkum er það vegna þess að orðið blinda gefur til kynna að erfiðleikarnir séu sjónræns eðlis en rannsóknir síðustu áratuga benda ekki til þess að svo sé. Í öðru lagi snerta erfiðleikarnir ekki bara lestur heldur einnig stafsetningu.

Ekki hefur náðst samstaða um annað íslenskt orð sem gæti leyst orðið lesblinda af hólmi þótt oft sé rætt um lesraskanir. Það orð er að því leyti heppilegra að það felur ekki í sér (hugsanlega ranga) skýringu á orsökum vandans eins og orðið lesblinda. Hugtakið lesröskun nær samt ekki til stafsetningar og hefur sumum því þótt sem best væri að nota einfaldlega erlenda orðið í íslensku. Hér verða orðin lesblinda og lesröskun notuð jöfnum höndum um dyslexíu.

Eldri skýringar á lesblindu

Ein fyrsta lýsingin á lesblindu birtist árið 1895 í British Medical Journal. Þar sagði læknirinn W. Pringle Morgan frá Percy, vel greindum dreng, sem átti í óvæntum erfiðleikum með lestrarnám og gat lítið sem ekkert lesið þótt hann væri orðinn 14 ára. Morgan taldi drenginn þjást af „meðfæddri orðblindu” sem varð þess valdandi að hann átti í ótrúlegum erfiðleikum með að læra að lesa. Morgan taldi einnig að erfiðleikarnir væru sjónræns eðlis og var sú skoðun lengi útbreidd. Af þessum sökum voru augnlæknar fengnir til að rannsaka þessa erfiðleika og fyrstu bókina um lesblindu samdi einmitt breskur augnlæknir, Hinshelwood að nafni, árið 1917.

Síðar naut töluverðrar hylli sú skýring sem bandaríski taugalæknirinn Samuel Orton setti fram um 1940, að einhver truflun ætti sér stað í samskiptum vinstra og hægra heilahvels hjá börnum með lesraskanir. Orton taldi sig merkja slíkar truflanir í því að lesröskuðum hætti meir en vel læsum til að snúa við orðum og bókstöfum, ruglast á ‘b’ og ‘d’ til dæmis eða lesa orðið ‘sál’ sem ‘lás’.

Nú er hins vegar vitað að hér skjátlaðist Orton. Viðsnúningur er reyndar algengur í lestri hjá lesblindum en aðeins ef þeir eru bornir saman við lestur jafnaldra sem eru vel læsir. Viðsnúningur er algengur í lestri flestra sem eru stutt komnir í lestrarnámi og því líklega aðeins til marks um takmarkaða lestrargetu en ekki afbrigðilega lestrargetu. Hann er því afleiðing lesröskunar en ekki orsök hennar.

Lesblinda og hljóðkerfisvitund

Á síðustu þremur áratugum hefur athygli fræðimanna einkum beinst að mállegum orsökum lesraskana. Blað var brotið í sögu þessara rannsókna þegar Isabelle Liberman, Donald Shankweiler og fleiri sýndu fram á að skert hljóðkerfisvitund fylgir lestrarerfiðleikum [1]. Hljóðkerfisvitund er hæfni til að meðhöndla hljóð tungumálsins á meðvitaðan hátt, segja til um rím orða og um einstök hljóð orðanna. Svo er að sjá sem talskynjun sé ekki háð því að hlustendur geti meðhöndlað málhljóðin með slíkum meðvituðum hætti en það er hins vegar nauðsynlegt þegar lesin er stafrófsskrift.

Þessar rannsóknir hafa gjörbreytt skilningi manna á eðli lesraskana eins og sést meðal annars á því að áður var engin leið að spá fyrir um það hverjir myndu eiga í erfiðleikum með að læra að lesa en nú er hægt, í mörgum tilvikum að minnsta kosti, að sjá það fyrir og grípa til aðgerða til að reyna að liðka fyrir lestrarnáminu. Hér skiptir miklu máli kerfisbundin þjálfun hljóðkerfisvitundar en rannsóknir hafa sýnt að slík þjálfun eflir lestrarnám. Til er íslenskt námsefni, Markviss málörvun eftir þær Helgu Friðfinnsdóttur, Sigrúnu Löve og Þorbjörgu Þóroddsdóttur, sem víða mun notað í leikskólum í þeim tilgangi [2].

Þótt nú sé almennt talið að skert hljóðkerfisvitund skipti sköpum um framvindu lestrarnáms, og myndar nokkurs konar kjarna þeirra röskunar sem leiðir til erfiðleika í lestrarnámi, er samt enn margt á huldu um eðli lesraskana. Hvað veldur því að hljóðkerfisvitund barna er ólík, má rekja það til röskunar í heilastarfsemi og þá hverrar? Og hvaða áhrif hefur ritmálið sjálft á birtingarmynd lesraskana?

Rannsóknir á heilastarfsemi samfara lestri sýna frávik hjá lesröskuðum einstaklingum miðað við það sem er að finna hjá vel læsum. Í þessum rannsóknum er starfsemi heilans könnuð með því að mæld er upptaka súrefnis í heilavef en því meiri sem upptakan er á tilteknum svæðum þeim mun virkari eru þau. Margar rannsóknir af þessu tagi benda til slakari samskipta sjónsvæða og málsvæða í vinstra heilahveli hjá lesröskuðum einstaklingum en hjá þeim sem eru vel læsir. Að sama skapi verður oft vart meiri virkni í hægra heilahvelinu hjá lesröskuðum. Ekki er hins vegar auðvelt að túlka þessar niðurstöður því að þær gætu á sinn hátt einnig verið afleiðing slakari lesturs rétt eins og orsök.

Þannig benda aðrar rannsóknir til sérstakra truflana í ákveðnum sjónbrautum þótt flestir fræðimenn hallist að því að þar sé yfirleitt ekki að finna ástæðu lesröskunar. Hér má minnast þess að augnhreyfingar eru afbrigðilegar hjá þeim sem eru illa læsir. Á árum áður töldu sumir að það væri einmitt ástæða lestrarerfðileikanna og var oft gripið til þjálfunar augnhreyfinga. Nú er hins vegar almennt talið að afbrigðilegar augnhreyfingar séu fyrst og fremst til marks um slakan lestur og því afleiðing lesröskunar en ekki orsök.

Þótt enn sé langt í land með að tekist hafi að skýra hvað fer úrskeiðis í heilastarfsemi þeirra sem glíma við lesraskanir má ætla að smám saman öðlist fræðimenn betri skilning á því. Nú er einnig orðið ljóst að erfðir skipta töluverðu máli fyrir lesblindu.

Tíðni í mismunandi tungumálum

Eðli ritmálsins hefur einnig áhrif á birtingarmynd lesraskana. Ritmál eru margbrotin og standa hljóðgerð tungumálanna misjafnlega nærri. Flestir kannast við að tengsl ritháttar og framburðar eru óvenju torræð í ensku og að sama skapi veitist börnum erfitt að læra að lesa ensku og lesraskanir eru áberandi hjá enskumælandi börnum.

Annað er uppi á teningunum í ítölsku en þar eru tengsl ritháttar og framburðar gagnsæ og lesraskanir að sama skapi minna áberandi en hjá enskumælandi. Þrátt fyrir það er ekki við öðru að búast en að hin hugræna röskun, orsök lesblindunnar, sé jafn útbreidd meðal Ítala og enskumælandi þjóða.

Í nýlegri rannsókn, sem birtist í tímaritinu Science [3], er þetta einmitt staðfest. Þar var heilastarfsemi könnuð hjá enskum, frönskum og ítölskum háskólastúdentum sem allir áttu við lestrarerfiðleika að glíma þótt hún væri minnst áberandi hjá Ítölunum. Heilaröskunin hjá stúdentunum var sambærileg þótt birtingarmynd lesblindunnar væri ólík.

Þetta leiðir hugann að íslenskunni og að því hvernig lesraskanir birtist í íslensku. Hér er því miður fátt um rannsóknir og erfitt að fullyrða um samanburð við önnur mál. Þó virðist mega slá því föstu að lesraskanir séu hér minna áberandi en í ensku og jafnframt er áberandi að þeirra verður oft sérstaklega vart í stafsetningu, frekar en í lestri, að minnsta kosti þegar börn eru orðin eldri.

Margir mætir menn hafa viljað freista þess að einfalda íslenska stafsetningu til að gera hana auðveldari. Hér má minnast merkilegra rannsókna Björns M. Ólsens [4], sem síðar varð fyrsti rektor Háskóla Íslands, en hann taldi stafsetningarvillur í stílum nemenda í lærða skólanum um 1890 og rökstuddi með hliðsjón af þeim að rétt væri að færa stafsetningu nær framburði. En þar hafði hann ekki erindi sem erfiði.

Björn hefði sennilega kunnað að meta þá rannsókn úr Science sem fyrr var nefnd og talið hana vera til marks um að hann væri á réttri braut í tillögum sínum um einföldun á stafsetningunni. Af öllu þessu virðist því mega álykta sem svo að eðli ritmálsins sé einn þáttur sem hefur áhrif á það hvernig lesblindan birtist og hversu illvíg hún getur orðið [5].

Úrræði

Ekki er til nein „lækning” við lesblindu en ýmislegt má gera til að auðvelda glímuna við hana og yfirvinna hana, að einhverju leyti að minnsta kosti. Rannsóknir hafa sýnt að kerfisbundin þjálfun hljóðkerfisvitundar samfara lestrarkennslu er líklega áhrifaríkasta aðferðin. Miklu skiptir að þjálfunin sé kerfisbundin og stöðug og að gripið sé til hennar sem fyrst. Að því leyti skipta fyrrgreindar rannsóknir á þætti hljóðkerfisvitundar í lestrarnámi miklu máli því þær opna möguleika á því að greina lestrarerfiðleika langtum fyrr en áður var hægt.

Þáttur foreldra er mikilvægur í lestrarnámi og þá ekki hvað síst við að vekja áhuga barna á lestri en það getur vitaskuld verið erfitt ef lestrarnámið gengur illa. Þá skiptir miklu að veita börnum jákvætt aðhald, lesa fyrir þau og skiptast á um að lesa þegar þau eru byrjuð að ná tökum á lestri. Sjálfsagt er að þeir sem eiga erfitt með stafsetningu nýti sér öll þau hjálpartæki sem tiltæk eru eins og villuleitarforrit fyrir tölvur. Skólar koma nú orðið til móts við nemendur sem eiga í lestrarerfiðleikum með því að veita þeim lengri tíma í prófum.

Heimildir:

[1] Jörgen Pind. (1997). Sálfræði ritmáls og talmáls. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

[2] Helga Friðfinnsdóttir, Sigrún Löve og Þorbjörg Þóroddsdóttir (1999). Markviss málörvun: Þjálfun hljóðkerfisvitundar. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

[3] Paulesu, E., Demonet, J.-F., Fazio, F., McCrory, E., Chanoine, V., Brunswick, N., Cappa, S. F., Cossu, G., Habib, M., Frith, C. D. og Frith, U. (2001). „Dyslexia: Cultural diversity and biological unity”. Science, 291, 2165–2167.

[4] Björn M. Ólsen (1889). Um stafsetning. Firirlestur, fluttur í „hinu íslenska kennarafjelagi“. Tímarit um uppeldis- og menntamál, II, 3–24.

[5] Jörgen Pind og Aldís Guðmundsdóttir (2001). „Reading difficulty: An update”. Trends in Cognitive Sciences, 5, 130–132.

...