Hér er jafnframt svarað spurningu Björgvins Ármannssonar Hver er uppruni orðsins eykt? Hver er skyldleiki þess við önnur orð í íslensku eða öðrum málum?Orðið eykt er notað annars vegar um þrjár klukkustundir og hins vegar um tímann frá 3.30–4.30. Það finnst einnig í öðrum Norðurlandamálum, til dæmis nýnorsku øykt 'vinnutími milli tveggja máltíða, tíminn milli 3 og 4 eftir hádegi', í sænskum mállýskum ökt, öft 'vinnustund, matarhlé kl. 5 eftir hádegi' og í dönskum mállýskum øttønder 'aukamáltíð um fimmleytið'. Eykt er skylt orðinu eykur 'dráttardýr, burðardýr'. Sama orð er til í öðrum Norðurlandamálum. Í norsku er það øk 'gamall og lélegur hestur', í nýnorsku øyk 'hestur', í dönsku øg 'gamall, slitinn hestur' og í sænsku ök 'hestur'. Rótin er því samnorræn og gömul. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:158–159) getur Ásgeir Blöndal Magnússon sér þess til að orðið eykt sé hugsanlega leitt af sögninni *eykja 'spenna fyrir' og að átt hafi verið við tímann sem dráttardýrin voru spennt fyrir plógi eða hlassi, og að eykur sé þá dráttardýr spennt fyrir æki. Orðið er skylt lat. jūgis 'ævarandi, sífelldur', jungō 'tengi saman' og jugum 'ok' (sbr. einnig ísl. ok og þýsku Joch). Enn lengra aftur er unnt að rekja orðið til sanskr. yōgya- 'dráttardýr'. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans: Reykjavík.
- Pokorny, Julius. 1959. Indogermanisches etymologisches Wörterbuch. Francke Verlag: Bern og München.
Svar við þessari spurningu birtist upprunalega 26.4.2001 en var endurskoðað 3.3.2014.