Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar. Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.Að embættisstörfum loknum á forseti rétt á fullum launum í sex mánuði. Lögbundin fríðindi embættisins eru ókeypis bústaður, ljós og rafmagn. Einnig ber að geta að allur útlagður kostnaður sem fylgir rekstri embættisins er greiddur úr ríkissjóði, til að mynda opinberar heimsóknir forseta og viðhafnarveislur á vegum embættisins. Forseti hefur einnig bíl og bílstjóra til afnota. Áður fyrr var forsetinn skattfrjáls. Því var hins vegar breytt með Lögum um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands árið 2000 en þau lög vörðuðu ekki einungis lög um launakjör forseta heldur skattalög, tollalög og fleira. Lögin tóku gildi þegar Ólafur Ragnar Grímsson hóf sitt annað kjörtímabil sem forseti Íslands. Flutningsmenn frumvarpsins, sem voru úr öllum flokkum á Alþingi nema Samfylkingunni, rökstuddu frumvarpið meðal annars með því að skattfrelsi forseta væri tímaskekkja og bryti gegn almennum jafnræðissjónarmiðum sem skattalög væru byggð á. Þingmenn Samfylkingarinnar lýstu sig hlynnta hugmyndinni að afnema skattfrelsi forsetans en lýstu hins vegar vanþóknun á vinnubrögðum í tengslum við frumvarpið og töldu það keyrt í gegn með offorsi og endurspegla vanvirðingu þings við þjóðhöfðingja. Einnig var lýst yfir áhyggjum af áhrifum frumvarpsins á launaþróun æðstu embættismanna ríkisins og endurspegluðu þær áhyggjur sumra verkalýðsfélaga sem þótti frumvarpið ýta undir launabil í landinu. Laun forseta komu til umræðu í tengslum við forsetakosningar 2016 þegar einn frambjóðenda, Davíð Oddsson, lýsti því yfir að hann hygðist ekki þiggja forsetalaun heldur láta eftirlaun sín duga. Hins vegar var á það bent að eftirlaun hans myndu dragast frá launakostnaði hans hvort sem er en engu að síður væri það 1,4 milljón sem Davíð myndi því afsala sér. Einnig var bent á að samkvæmt lögum gæti forseti ekki afsalað sér launum sínum. Heimildir:
- Úrskurður Kjararáðs. Nóvember 2015. Kjararáð 2015.001. (Sótt 29. 5. 2016).
- Fjármál ríkisaðila í A-hluta. Fjárlagavefurinn. (Sótt 29. 5. 2015).
- Laun þingmanna, ráðherra og forseta hækka. RÚV.is 19. 11. 2015. (Sótt 29. 5. 2016).
- DV 25. júlí 2015. Sérblað: Tekjublaðið 2015, bls. 34.
- Laun forseta hækkað sem nemur umbeðnum lágmarkslaunum frá hruni. Vísir.is 8. 5. 2016. (Sótt 29. 5. 2016).
- Forseti, Alþingismenn og ráðherrar. Frjáls verslun 77:6 (2015) bls. 38.
- JGÞ. Borgar forsetinn og maki hans skatt af tekjum sínum? Vísindavefurinn, 19. febrúar 2009. (Sótt 29. 5. 2016).
- Lög um laun forseta Íslands nr. 10 26. febrúar 1990. Alþingisvefurinn. Lagasafn. (Sótt 29. 5. 2016).
- Lög um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands nr. 84 23. maí 2000. Alþingisvefurinn. Lagasafn. (Sótt 29. 5. 2016).
- Lög um kjararáð nr. 47 14. júní 2006. Alþingisvefurinn. Lagasafn. (Sótt 29. 5. 2016).
- Eftirlaun Davíðs koma til frádráttar forsetalaunum - Vísir. Vísir.is. 18. 5. 2016. (Sótt 29. 5. 2016).
- Ríkið verði að greiða forseta laun. RÚV.is 18.05.2016. (Sótt 29. 5. 2016).
- Lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara nr. 141 20. desember 2003. Alþingisvefurinn. Lagasafn. (Sótt 29. 5. 2016).
- 80-90% líkur á að þetta frumvarp verði samþykkt. Mbl.is. 11. 5. 2000. (Sótt 28.05.2016).
- Frumvarp um afnám skattfrelsis forseta Íslands lagt fram. Mbl.is 11. 5. 2000. (Sótt 28. 5. 2016).
- Lög um afnám laga nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum, og breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum nr. 12 11. mars 2009. Alþingisvefurinn. Lagasafn. (Sótt 23. 9. 2016).
- Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1 10. janúar 1997. Alþingisvefurinn. Lagasafn. (Sótt 23. 9. 2016).
- Haying by Bessastaðir | Flickr - Photo Sharing!. (Sótt 2.06.2016). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0.
Þetta svar var lagfært 23. september 2016 eftir ábendingu frá Helga Bergmanni. Helgi benti á að lög um sérstök lífeyriskjör forseta, ráðherra og alþingismanna hafi verið afnumin árið 2009 og að nú njóti forseti sambærilegra lífeyriskjara og aðrir opinberir starfsmenn. Vísindavefurinn þakkar Helga fyrir ábendinguna.