Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Erfitt er að fá einhlítan mælikvarða á breytingu verðlags, sérstaklega yfir svo langt tímabil. Skýringarnar eru margar og ein er sú að vörur og þjónusta og neysla manna hafa breyst mjög á þessum tíma. Engu að síður má reyna að meta slíkar verðbreytingar með ýmiss konar verðvísitölum. Hér verður stuðst við svokallaða vísitölu neysluverðs án húsnæðis, sem Hagstofa Íslands reiknar út. Frá því í október árið 1935 og til febrúar árið 2001 margfaldaðist sú vísitala með 20.451. Samkvæmt því var hægt að kaupa fyrir eina krónu undir lok tímabilsins 0,005% af því sem hægt var að kaupa fyrir krónu í upphafi tímabilsins.
Rétt er þó að hafa í huga að árið 1981 voru tvö núll tekin af krónunni; með öðrum orðum skiptu menn á 100 gömlum krónum fyrir hverja eina nýja. Ef við tökum tillit til þess fæst að fyrir hverja (nýja) krónu í febrúar árið 2001 er hægt að kaupa 0,5% af því sem fékkst fyrir (gamla) krónu í október árið 1935. Þetta samsvarar um 16,4% verðbólgu að meðaltali á ári.
Þessi vísitala hefur verið reiknuð út frá árinu 1914. Frá því í júlí árið 1914 og til febrúar 2001 hefur vísitalan margfaldast með 39.062. Fyrir eina (nýja) krónu í febrúar 2001 er því hægt að kaupa 0,26% af því sem fékkst fyrir eina (gamla) krónu árið 1914. Þessu má líka snúa við og segja að 390 (nýjar) krónur þurfi í febrúar árið 2001 til að kaupa jafnmikið og fékkst fyrir eina (gamla) krónu í júlí árið 1914. Ef ekki hefðu verið klippt tvö núll aftan af krónunni hefði þurft 39.062 krónur. Þetta samsvarar um 13% verðbólgu að meðaltali á ári. Þótt vísitalan gefi þetta svar er þó sem fyrr segir rétt að hafa í huga að verðlagsvísitölur eru ónákvæm tæki. Vöruúrvalið árið 1914 var auðvitað allt annað en 2001. Allar heimsins krónur hefðu ekki dugað til að kaupa einn farsíma árið 1914!
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gylfi Magnússon. „Hversu mikils virði er ein íslensk króna í dag miðað við eina krónu árið 1935?“ Vísindavefurinn, 28. mars 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1430.
Gylfi Magnússon. (2001, 28. mars). Hversu mikils virði er ein íslensk króna í dag miðað við eina krónu árið 1935? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1430
Gylfi Magnússon. „Hversu mikils virði er ein íslensk króna í dag miðað við eina krónu árið 1935?“ Vísindavefurinn. 28. mar. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1430>.