Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er hnattvæðing?

Kristín Loftsdóttir

Hugtakið hnattvæðingu má í stuttu máli skýra sem aukna samtengingu jarðarbúa. Hnattvæðing, eða alþjóðavæðing eins og hún er stundum kölluð, er oft talin vera afleiðing hraðrar þróunar samskipta- og flutningstækni í nútímanum. Einnig má nefna minni höft á hreyfingu fjármagns og einstaklinga milli landsvæða og ríkja. Veraldarvefurinn er auðvitað gott dæmi um tækni sem felur í sér hraðari og tíðari samskipti sem og aukið aðgengi að fjölbreytilegum upplýsingum. Veraldarvefurinn einfaldar tengsl milli einstaklinga, samtaka og stofnana í ólíkum heimshornum og stuðlar þannig að flóknari og hraðari samskiptum

Ekki má gleyma að heimurinn hefur verið samtengdur í nokkuð langan tíma, en slík tengsl milli heimsálfa hafa oft verið vanmetin af fræðimönnum. Upphaf alþjóðavæðingar heimsins hefur stundum verið tímasett í komu Kristófers Kólumbusar til nýja heimsins árið 1492, en í kjölfar landafundanna svokölluðu hófust miklir fólksflutningar sem fólu í sér röskun og jafnvel útrýmingu samfélaga og vistkerfa, ásamt því að breyta heimsmynd viðkomandi þjóða.

Sumir hafa viljað meina að hnattvæðing sé einungis beint framhald þessarar auknu tengingar heimsins sem hefur átt sér stað síðustu aldir og sé því í raun ekki ólík henni í eðli sínu, en vegna hinna gífurlega hröðu hreyfinga fólks, mynda, texta og vöru í tíma og rúmi megi samt tala um nýtt skeið í sögu mannkyns (sjá til dæmis umræðu Arjun Appadurai í Modernity at Large: Cultural Dimensions of Globalization, 1996).

Á sama tíma og hnattvæðing felur í sér aukna tengingu samfélaga í heiminum virðist hún einnig fela í sér aukna vanþekkingu á þessum tengslum og minnkandi tilfinningu fyrir áhrifum af lífsmunstri okkar á samfélög og vistkerfi annarra þjóða. Flestir í samfélagi okkar í dag nota til dæmis almennar neysluvörur sem koma frá öllum heimshornum en geta í fæstum tilfellum gert grein fyrir hvar vörurnar voru framleiddar, af hverjum eða við hvaða aðstæður og hafa því ekki forsendur til að skilja kostnað við framleiðslu þeirra fyrir viðkomandi samfélög og/eða vistkerfi.

Einnig má nefna að fyrir nokkrum áratugum töldu fræðimenn almennt að hnattvæðing fæli í sér minnkandi mikilvægi þjóðernishyggju og mundi að vissu leyti þurrka út sérkenni þjóða. Á síðustu árum hefur hins vegar verið lögð vaxandi áhersla á að hnattvæðing virðist í mörgum tilfellum stuðla að aukinni þjóðernishyggju sem og að hafa margbreytileg og oft ófyrirsjáanleg áhrif á þjóðfélög heimsins, bæði út frá ólíkri menningu og pólitískri aðstöðu þeirra.

Mynd: The Mariners' Museum

Höfundur

Kristín Loftsdóttir

prófessor í mannfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.3.2001

Spyrjandi

Þóra Árnadóttir

Tilvísun

Kristín Loftsdóttir. „Hvað er hnattvæðing?“ Vísindavefurinn, 15. mars 2001, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1380.

Kristín Loftsdóttir. (2001, 15. mars). Hvað er hnattvæðing? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1380

Kristín Loftsdóttir. „Hvað er hnattvæðing?“ Vísindavefurinn. 15. mar. 2001. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1380>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er hnattvæðing?
Hugtakið hnattvæðingu má í stuttu máli skýra sem aukna samtengingu jarðarbúa. Hnattvæðing, eða alþjóðavæðing eins og hún er stundum kölluð, er oft talin vera afleiðing hraðrar þróunar samskipta- og flutningstækni í nútímanum. Einnig má nefna minni höft á hreyfingu fjármagns og einstaklinga milli landsvæða og ríkja. Veraldarvefurinn er auðvitað gott dæmi um tækni sem felur í sér hraðari og tíðari samskipti sem og aukið aðgengi að fjölbreytilegum upplýsingum. Veraldarvefurinn einfaldar tengsl milli einstaklinga, samtaka og stofnana í ólíkum heimshornum og stuðlar þannig að flóknari og hraðari samskiptum

Ekki má gleyma að heimurinn hefur verið samtengdur í nokkuð langan tíma, en slík tengsl milli heimsálfa hafa oft verið vanmetin af fræðimönnum. Upphaf alþjóðavæðingar heimsins hefur stundum verið tímasett í komu Kristófers Kólumbusar til nýja heimsins árið 1492, en í kjölfar landafundanna svokölluðu hófust miklir fólksflutningar sem fólu í sér röskun og jafnvel útrýmingu samfélaga og vistkerfa, ásamt því að breyta heimsmynd viðkomandi þjóða.

Sumir hafa viljað meina að hnattvæðing sé einungis beint framhald þessarar auknu tengingar heimsins sem hefur átt sér stað síðustu aldir og sé því í raun ekki ólík henni í eðli sínu, en vegna hinna gífurlega hröðu hreyfinga fólks, mynda, texta og vöru í tíma og rúmi megi samt tala um nýtt skeið í sögu mannkyns (sjá til dæmis umræðu Arjun Appadurai í Modernity at Large: Cultural Dimensions of Globalization, 1996).

Á sama tíma og hnattvæðing felur í sér aukna tengingu samfélaga í heiminum virðist hún einnig fela í sér aukna vanþekkingu á þessum tengslum og minnkandi tilfinningu fyrir áhrifum af lífsmunstri okkar á samfélög og vistkerfi annarra þjóða. Flestir í samfélagi okkar í dag nota til dæmis almennar neysluvörur sem koma frá öllum heimshornum en geta í fæstum tilfellum gert grein fyrir hvar vörurnar voru framleiddar, af hverjum eða við hvaða aðstæður og hafa því ekki forsendur til að skilja kostnað við framleiðslu þeirra fyrir viðkomandi samfélög og/eða vistkerfi.

Einnig má nefna að fyrir nokkrum áratugum töldu fræðimenn almennt að hnattvæðing fæli í sér minnkandi mikilvægi þjóðernishyggju og mundi að vissu leyti þurrka út sérkenni þjóða. Á síðustu árum hefur hins vegar verið lögð vaxandi áhersla á að hnattvæðing virðist í mörgum tilfellum stuðla að aukinni þjóðernishyggju sem og að hafa margbreytileg og oft ófyrirsjáanleg áhrif á þjóðfélög heimsins, bæði út frá ólíkri menningu og pólitískri aðstöðu þeirra.

Mynd: The Mariners' Museum...