Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Áhyggjur af matvendni barna eru eðlilegar og ekki aðeins byggðar á takmörkuðu fæðuvali og afleiðingum þess eins og næringarskorti, heldur einnig á lífsgæðum út frá sálrænum-, sálfélagslegum- og líkamlegum þáttum barnanna og foreldra/forsjáraðila þeirra. Mikil streita getur fylgt því að eiga barn með matvendni og skapar það oft mikið álag á foreldra og fjölskylduna í heild sem aftur getur mótað fæðuval, heilsu og líðan barnsins. Um fjórðungur barna er með matvendi eða takmarkað fæðuval, en hlutfallið getur farið upp í 40-80% hjá börnum með taugaþroskaraskanir á borð við athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) eða einhverfurófsröskun (algengast hjá síðarnefnda hópnum). Börn sýna helst matvendni á aldrinum 2-6 ára en það lagast gjarnan á grunnskólaaldri, þó síður hjá börnum með taugaþroskaröskun.
Þróunarfræðilega er það að vissu leyti eðlilegt að hafna mat sem við þekkjum ekki því forfeðrum okkar var eðlislægt og nauðsynlegt að sýna tortryggni gagnvart nýrri fæðu í náttúrunni, en með því að prófa sig endurtekið áfram lærðu þeir hvað bar að varast og hvers mátti örugglega neyta. Í nútímanum þarf þó oftast ekki að hafa áhyggjur af öryggi matvæla og matvendni sem slík því ekki eðlilegt ástand til lengri tíma. Þó er sá kúfur sem sést í matvendni á leikskólaaldri talinn hluti af þroskaferlinu, ekki síst vegna aukins sjálfstæðis sem gjarnan er hægt að sýna með því að hafna mat.
Þróunarfræðilega er það að vissu leyti eðlilegt að hafna mat sem við þekkjum ekki því forfeðrum okkar var eðlislægt og nauðsynlegt að sýna tortryggni gagnvart nýrri fæðu í náttúrunni.
Matvendni má skipta í fæðusérvisku (e. fussy eating) og fæðunýfælni (e. neophobia).[1] Í daglegu tali eru bæði fæðusérviskan og fæðunýfælnin nefnd matvendni; í fæðusérsvisku forðast börn fjölda matvæla eða fæðuflokka en í fæðunýfælni eru börn hrædd við nýjungar í mat. Hvoru tveggja getur leitt til þess að fæði verður mjög einhæft. Algengast er að fúlsa við til dæmis trefjaríkri fæðu eins og grænmeti, ávöxtum og heilkorni en það getur tekið tíma að læra að meta beiska bragðið af grænmeti séu börn ekki vanin á það. Endurtekning skiptir máli þannig að við þurfum helst að prófa fæðutegundina að minnsta kosti 8-15 sinnum svo okkur fari að líka hún, en í fæðusérvisku dugir þessi endurtekna kynning síður til. Það vill verða þannig að þau sem eru matvönd sækja frekar í litlausan og bragðlítinn mat eins og núðlur, kex, snakk og grjón. Þetta mætti ef til vill kalla hvítfæðuheilkenni á íslensku í takt við enska heitið 'white food syndrome'.
Matvendni getur orsakast af ýmsu og ekki er ein sérstök ástæða fyrir henni. Þekkt er þó að erfðir, sálrænir þættir, uppeldi og ýmislegt úr umhverfi okkar getur haft áhrif á upplifun okkar og vali á mat. Þegar búið er að útiloka læknisfræðilegan eða líkamlega vanda eins og í munni, tönnum og vélinda og að barn eigi ekki erfitt með að tyggja, ýta mat aftur með tungunni eða kyngja er ráðlagt að skoða aðra þætti sem geta komið til greina í matvendni.
Neikvæð upplifun og sálrænir þættir
Neikvæð upplifun af tilteknum mat eins og þegar börn eru neydd til að smakka hann getur þróast út í langvarandi tortryggni og togstreitu. Sérstaklega er mikilvægt að beita aldrei þvingunum, hótunum eða mútum við að fá börn til að borða fæðu sem þeim þykir ekki góð en sýnt hefur verið fram á að aðferðir eins og Bragðlaukaþjálfun[2] sem er íslenskt úrræði þróað í rannsóknum við Háskóla Íslands er heppileg leið til að auka fæðufjölbreytni, draga úr kvíða gagnvart mat, létta á áhyggjum foreldra og bæta samskipti við matarborðið.[3][4][5] Mikill kvíði getur bæði orsakað og verið afleiðing af erfiðum upplifunum í tengslum við mat og getur leitt til að börn óttist nýja fæðu og fari að hafna sífellt fleiri fæðuflokkum. Kvíði tengdur mat getur fest í sessi og fylgt fólki allt fram á fullorðinsár.
Uppeldi og umhverfi
Matarvenjur okkar mótast af miklum hluta í æsku. Matmálstímar heima fyrir og matvendni foreldra getur haft áhrif á upplifun barna þeirra af mat enda þekkt að börn spegla sig í viðbrögðum og hegðun foreldra. Þarna er reyndar um samspil uppeldis og erfða að ræða því matvendni foreldra getur bæði erfst og haft áhrif á hvernig fyrirmyndir þeir eru á matartímum og hvernig uppeldisaðferðum er beitt. Mikilvægt er að foreldrar og uppalendur ungra barna bjóði snemma upp á fjölbreytta, holla og litríka fæðu og tali á jákvæðan hátt um mat án þess að notuð séu gildishlaðin orð. Jafnframt þarf að sýna þolinmæði á meðan börnin eru að læra að meta nýja fæðu samanber að börn þurfa oft að fá 8-15 tækifæri til að kynnast nýjum fæðutegundum áður en þeim fer að líka þær.
Skynúrvinnsluvandi
Algengt er að börn með taugaþroskaraskanir séu með skynúrvinnsluvanda þar sem óvenju mikil næmi er fyrir áferð, lykt, hljóð, útliti og bragði en slíkt getur verið gríðarlega óþægileg og streituvekjandi upplifun fyrir börnin. Áreiti sem okkur þykja hversdagsleg geta þannig verið truflandi, sérstaklega í tengslum við mat og matartíma.
Tilvísanir:
^ Dovey, T. M., Staples, P. A., Gibson, E. L., og Halford, J. C. G. Food neophobia and 'picky/fussy' eating in children: A review. Appetite, 2008;50(2-3), 181-193. https://doi.org/10.1016/j.appet.2007.09.009
^ Thorsteinsdottir, S., Njardvik, U., Bjarnason, R., Olafsdottir, A. S. Taste education–A food-based intervention in a school setting, focusing on children with and without neurodevelopmental disorders and their families. A randomized controlled trial. Appetite, 2021;167:105623. https://doi.org/10.1016/j.appet.2021.105623
^ Thorsteinsdottir, S., Njardvik, U., Bjarnason, R., og Olafsdottir, A.S. Changes in Eating Behaviors Following Taste Education Intervention: Focusing on Children with and without Neurodevelopmental Disorders and Their Families: A Randomized Controlled Trial. Nutrients 2022;14: 4000. https://doi.org/10.3390/nu14194000
^ Thorsteinsdottir, S., Olsen, A., og Olafsdottir, A. S. Fussy Eating among Children and Their Parents: Associations in Parent-Child Dyads, in a Sample of Children with and without Neurodevelopmental Disorders. Nutrients, 2021;13:2196. https://doi.org/10.3390/nu13072196
^ Thorsteinsdottir, S., Olafsdottir, A.S., Traustadottir, O. U. & Njardvik, U. Changes in Anxiety following Taste Education Intervention: Fussy Eating Children with and without Neurodevelopmental Disorders. Nutrients 2023;15: 4783. https://doi.org/10.3390/nu15224783
Sigrún Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir. „Af hverju eru börn matvönd en hætta því svo oftast þegar þau verða eldri?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2025, sótt 10. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=13564.
Sigrún Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir. (2025, 9. janúar). Af hverju eru börn matvönd en hætta því svo oftast þegar þau verða eldri? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=13564
Sigrún Þorsteinsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir. „Af hverju eru börn matvönd en hætta því svo oftast þegar þau verða eldri?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2025. Vefsíða. 10. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=13564>.