Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fiður er mjög mikilvægt líffæri sem einkennir fugla. Fiðrið gegnir fyrst og fremst því hlutverki að vera einangrunarlag, sem temprar líkamshitann, og er einnig mjög mikilvægt flugtæki. Auk þess er fiðrið mikilvægt vegna litar og munsturs, sem er venjulega til þess fallið að fuglinn verður minna áberandi, en er einnig notað í tjáskiptum og merkjasendingum.
Allir fuglar fella fjaðrir að minnsta kosti einu sinni á ári og skipta þannig um hverja fjöður. Stóru fjaðrirnar, flugfjaðrirnar, á vængjum og stéli, eru endurnýjaðar einu sinni á ári en bolfiðrið er stundum endurnýjað oftar. Hver fjöður vex upp úr fjaðursekk í húðinni og er í fyrstu mjúk og blóðrík (blóðfjöður), en þegar vexti er lokið er öll fjöðrin orðin stinn og hornkennd sem stafar af þverbindingum próteina sem mynda hyrni (keratín). Fjöðrin er þá ekki lengur lifandi og hún byrjar að slitna.
Við endurnýjun fjaðrar fer fjaðursekkurinn aftur að mynda nýja blóðfjöður sem ýtir gömlu fjöðrinni smám saman burt. Fjaðurskiptum er stjórnað af hormónum, en margt er þó óljóst í þeim efnum. Skjaldkirtilshormónið thyroxín er yfirleitt talið helsta hormónið sem hvetur fjaðurskipti, en kynhormón (testosterón og progesterón) hafa hamlandi áhrif á fjaðurskipti. Fjaðurskipti eru árstíðabundnar breytingar og á norðurslóðum er það birtan sem stjórnar þeim þegar upp er staðið. Í hitabeltinu, þar sem dægurlengd er jöfn yfir árið, koma hins vegar oftast aðrir umhverfisþættir til, einkum regn og fæða.
Algengast er að árstíðabundin litaskipti fugla stafi af því að þeir skipta um fiður, og svo er um rjúpuna. Snemma vors, í apríl, byrja brúnar sumarfjaðrir að myndast undir hvítu vetrarfjöðrunum. Hjá körrunum (karlfuglunum) stöðvast fjaðurskiptin að mestu í maí, þegar þeir hafa mest að gera við að verja óðul sín. Þeir eru þá enn að miklu leyti í hvítum vetrarbúningi og nýta hann til þess að láta bera á sér, en það kemur sér vel á þessum árstíma til þess að laða að kvenfugla en bægja öðrum körrum frá. Ókostur við þetta auglýsingaratferli hvítra karra er þó sá að hætta á árás fálka er mun meiri en ella.
Kvenfuglinn skiptir hins vegar hratt um fiður og er orðin albrún um það leyti sem hún leggst á, í júníbyrjun. Um leið breyta karrarnir um atferli. Þeir hætta að auglýsa sig og verja land sitt af öllum mætti, en gerast í staðinn felugjarnir og taka aftur til við að skipta yfir í sumarfiðrið. Bæði kyn skipta enn um bolfiður um sumarið, auk þess sem þau skipta um flugfjaðrir. Síðsumars halda rjúpurnar til fjalla og frá því snemma í september fram yfir miðjan október eru þær aftur að skipta um bolfiður og fara í þetta skiptið í hvítan vetrarbúning.
Í stuttu máli stafa litaskipti rjúpunnar af því að þær skipta um bolfiður. Fjaðurskiptunum er stýrt af hormónum sem eru hluti af árstíðaferli líkamsstarfseminnar, en þetta árstíðaferli er aðlögun að breytilegum lífskilyrðum. Þörfin fyrir að vera vel falin á öllum tímum árs er mikil hjá rjúpunni, sem aflar sér ætis á snögglendi undir vökulum augum fálkans sem er sérhæfður rjúpnaveiðari.