Ég hef bæði lesið að Júlíus Sesar hafi sagt "Teningnum er kastað" og "Teningunum er kastað." Þetta skiptir máli fyrir mig því ég er að vinna að verkefni þar sem þetta þarf helst að vera á hreinu. Treystið þið ykkur til að skera úr um eintöluna og fleirtöluna?Ekki er víst að til sé alveg einhlítt svar við þessari spurningu en lesendum er boðið að meta þau rök sem hér eru lögð fram. Orðin sem um er spurt eru á latínu iacta alea est, alea iacta est eða iacta est alea.Við höfum undir höndum latneska orðabók: Simpson, D.P., 1962. Cassell's New Latin-English English-Latin Dictionary. London: Cassell. Samkvæmt henni þýðir orðið alea ekki 'teningur' eins og margir halda sjálfsagt, heldur 'teningaspil, áhættuleikur' og sú merking færist síðan yfir í 'tilviljun, áhætta, óvissa.' Aðrar orðabækur staðfesta þetta og það er líka samhljóða latnesk-íslenskri orðabók Jóns Árnasonar frá 1738, utan hvað hann talar um 'kotruspil'. Teningur er hins vegar 'talus, tessera'. 'Að spila teningaspil' má segja á að minnsta kosti þrjá vegu á latínu: 'talis ludere, tesseris ludere, alea ludere'. Orðmyndin iacta er lýsingarháttur þátíðar af sögninni 'iacio/iacere' sem þýðir hér 'að kasta' (stundum skrifað 'jacio'). Hún lifir góðu lífi í mörgum orðum í vestrænum málum, til dæmis í ensku í orðum sem enda á '-ject'. 'Að kasta teningum' getur heitið á latínu 'talos iacere' en þá er merkingin trúlega hlutbundnari en Sesar hafði í huga. Jón Árnason nefnir þetta einmitt sem orðasamband undir flettiorðinu 'jacio'. Þannig kann nákvæmasta þýðing á orðum Sesars á nútímamál að vera 'teningaspilið er hafið'. Merkingarfærsla hefur hins vegar átt sér stað milli teninganna og teningaspilsins. Þetta er alveg hliðstætt því sem við þekkjum til dæmis um fótboltann. Nærtækara er að hugsa sér að fleiri teningar en einn séu notaðir í spilinu og því sýnist þýðingin 'teningunum er kastað' eðlilegri.
Mynd: Teningasafn Giulio Ferrari