Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á undanförnum árum hefur framboð efnis í útvarpi og sjónvarpi stóraukist og er nú mikið, oft heldur meira en eftirspurnin. Með aukinni samkeppni hefur baráttan harðnað á markaðnum fyrir útvarps- og sjónvarpsefni og ljósvakamiðlar keppast við að ná sem flestum hlustendum og áhorfendum.
Um útvörpun á ljósvakaefni eru til lög, útvarpslög nr. 68 frá árinu 1985, og nær hugtakið útvarp yfir sendingar í hljóðvarpi og sjónvarpi. Í 1. grein laganna eru tíunduð ýmis sérfræðihugtök og skilgreiningar á ýmsum hlutum tengdum útvarpssendingum. Þar er til dæmis gerður skýr greinarmunur á auglýsingu og dulinni auglýsingu og í stuttu máli sagt eru duldar auglýsingar bannaðar. Hinsvegar er í 4. gr. laganna tekið fram að útvarpsstöðvum (hljóð- og sjónvarpi) er heimilt að afla tekna með afnotagjaldi, sérstöku gjaldi vegna framleiðslu fræðslu- og skýringarefnis, og með auglýsingum.
Tekið er skýrt fram hvenær heimilt er að hafa auglýsingar og mega auglýsingar til dæmis ekki nema meira en 15% af heildarútsendingartíma yfir daginn. Einnig er talað um að auglýsingar skuli vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki. Skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingartímum á milli dagskrárliða, sbr. 1. mgr. Segja má að þetta sé meginreglan um auglýsingar í útvarpi, þær eiga að vera auðkennanlegar þannig að ekki fari á milli mála að um auglýsingu sé að ræða og að auglýsingum sé ætlaður sérstakur tími milli dagskrárliða.
Hinsvegar er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. að heimilt sé að rjúfa dagskrárliði með auglýsingartímum svo framarlega sem það leiði ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi. Í framhaldi af því eru tiltekin dæmi um dagskrárliði sem má rjúfa til að setja inn auglýsingar:
Dagskrárliði sem samsettir eru úr mörgum sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrá eða sambærilega dagskrárliði sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma á þann veg að auglýsingum sé aðeins skotið inn á milli þátta eða í hléum.
Útsendingu kvikmynda, þar með talinna kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp og eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira ein 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.
Af ofangreindu má ætla að heimilt sé að rjúfa dagskrárlið með auglýsingahléi svo framarlega sem skýrt er tekið fram að um auglýsingar sé að ræða og að heildarmynd dagskrárliðarins skaðist ekki. Aftur á móti er það svo matsatriði hvers og eins hvort um sé að ræða afbökun á sjónvarpsefni.
Magnús Viðar Skúlason. „Er löglegt að sýna auglýsingar í miðjum þáttum í sjónvarpsdagskrá á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 30. janúar 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1304.
Magnús Viðar Skúlason. (2001, 30. janúar). Er löglegt að sýna auglýsingar í miðjum þáttum í sjónvarpsdagskrá á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1304
Magnús Viðar Skúlason. „Er löglegt að sýna auglýsingar í miðjum þáttum í sjónvarpsdagskrá á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 30. jan. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1304>.