Hver ójafna á koltrefjaplastinu er um 125 nanómetra þykk, 500 nanómetra breið og lengdin er á bilinu 0,83 til 3,5 míkrómetrar. Geislinn í spilaranum les ójöfnurnar á koltrefjaplastinu sem gögn. Ójöfnurnar liggja á spírallaga braut sem hringar sig frá miðju disksins út að jaðrinum. Hver armur spíralsins er um 0,5 míkrómetra breiður og bilið á milli hvers arms er um 1,6 míkrómetri. Þetta eru agnarsmáar stærðir svo fjöldi arma er gífurlegur og myndi afundinn spíralbrautin vera um 5 kílómetra löng. Þar sem ójöfnurnar eru svona litlar þarf mjög nákvæm tæki til að nema þær. Sá hluti geisladrifs sem les diskinn skiptist að mestu í þrjá hluta. Fyrst ber að nefna geislann sem les ójöfnurnar. Hann skín í gegnum sérstaka linsu sem gerir hann örmjóan en linsan liggur á sérstökum sleða sem færist í átt frá miðju disksins. Í miðjunni er lítill mótor sem snýr geisladisknum 200 til 500 sinnum á sekúndu. Geisladisknum er snúið mismunandi hratt til þess að tryggja að lestrahraðinn sé sá sami við miðjuna og út við jaðarinn og alls staðar þar á milli.
Aflestur geisladisks fer þannig fram að geislinn fer í gegnum koltrefjalagið og lendir á álhimnunni sem aftur endurvarpar geislanum á ljósnema. Þessi ljósnemi skynjar breytingarnar sem verða á geislanum þegar ójöfnurnar þjóta hjá og breytir þeim í stafrænt merki sem hægt er að túlka sem ýmist tónlist, myndir eða önnur gögn.
Þar sem ójöfnurnar á disknum eru gríðarmargar á litlu svæði getur ein rispa haft mikil áhrif. Það kann að virðast undarlegt en geisladiskar eru viðkvæmari fyrir skemmdum þeim megin sem merkimiðinn er heldur en á glampandi hliðinni sem snýr niður. Það er vegna þess að meiri líkur eru á að rispur ofan á disknum nái niður í dældir ójafnanna þar eð mun styttra er milli yfirborðsins og ójafnanna en milli þeirra og trefjaplastsins. Rispur á trefjaplastinu sem ekki ná niður að álfilmunni geta haft áhrif á fókusinn á geislanum en þær má auðveldlega losna við með sérstöku efni sem fyllir upp í rispurnar.