Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Upphafleg spurning var á þessa leið:
Hvernig ber að fara með og varðveita persónulegar upplýsingar um börn í leik- og grunnskóla? Má veita upplýsingar um börn (ólögráða einstaklinga) án vitneskju foreldra eða forráðamanna (t.d. milli skólastiga, til félagsmálayfirvalda, til ættingja eða utanaðkomandi sérfráðinga)? Hver er meginreglan út frá persónulegum rétti barna?
Í vestrænu nútímaþjóðfélagi eru mannréttindi meðal þeirra meginréttinda sem talin eru skipta hvað mestu máli. Spurningar um hve ríkið megi seilast langt inn í einkalíf manna án þess að brjóta mannréttindi koma sífellt upp og hugtök eins og „stóri bróðir“ heyrast æ oftar.
Árið 1995 voru tekin upp í íslensku stjórnarskrána mannréttindaákvæði, meðal annars til að samræmast þeim skuldbindingum sem Ísland hafði bundið sig að þjóðarétti með þátttöku í Mannréttindasáttmála Evrópu. Eitt af þeim ákvæðum sem tekið var upp 1995 er 71. gr. um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og að enginn skuli sæta leit á sjálfum sér, heimili, skjölum, símtölum og svo framvegis nema með sérstökum dómsúrskurði eða skýrri lagaheimild. Þetta eru almenn réttindi sem er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir ofstjórn og afskiptasemi ríkisins í anda Gestapo og Stasi-leynilögreglunnar og eru þau gild fyrir alla þegna landsins.
Persónuupplýsingar eru viðkvæmar upplýsingar og vandmeðfarnar og ekki á einn hátt hægt að segja almennt hvernig skuli meðhöndla þær. Nú í upphafi árs 2001 tóku gildi ný lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77 frá árinu 2000. Tilgangur þeirra laga er að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að áreiðanleiki og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði evrópska efnahagssvæðisins séu tryggð, samanber 1. grein laganna. Þessi lög taka einnig til úrvinnslu á persónuupplýsingum og eiga að tryggja að rétt sé farið með upplýsingar. Í lögunum er greint milli persónuupplýsinga annars vegar og viðkvæmra persónuupplýsinga hins vegar. Viðkvæmar persónuupplýsingar eru meðal annars upplýsingar um uppruna, litarhátt, trúarskoðanir, kynhegðun, heilsuhagi, fyrri afbrot og þess háttar. Þá ályktun má draga að um viðkvæmar persónuupplýsingar eigi að fara varlegar en venjulegar persónuupplýsingar, það er að segja upplýsingar sem persónugreina þann einstakling sem um ræðir og rekja má til hans beint eða óbeint.
Kennitölur hafa oft verið notaðar til að persónugreina einstaklinga í skólum, sérstaklega á háskólastigi, og eru þá birtar með prófúrlausn. Hin síðari ár hafa verið tekin upp sérstök prófnúmerakerfi til að koma í veg fyrir að hægt sé að þekkja einstakling þegar hann skilar inn prófúrlausn og virðist þetta kerfi hafa gefið góða raun þótt benda megi á ýmsa vankanta þess. Spurning er þó hvernig meðhöndla eigi munnleg próf.
Í skólastarfi, til dæmis þegar einstaklingur færist milli tveggja skólastiga, getur verið óhjákvæmilegt að notast við einhvers konar persónugreiningu, hvort sem hún er í formi nafns viðkomandi eða kennitölu. Kennitölu má nota ef hún er nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu, samanber 10. grein laga um persónuvernd.
Hvað varðar aðrar upplýsingar eru til sérstök barnaverndarlög nr. 58 frá árinu 1992 sem fjalla þó frekar um almenna vernd barna og eiga að tryggja þeim viðunandi uppeldisskilyrði. Barnaverndaráði er gefin ákveðin heimild í lögunum til að grennslast fyrir um hagi barns ef rökstuddur grunur liggur fyrir um að barni séu búin óviðunandi skilyrði. Ef einstaklingur verður þess var að barni séu búin óviðunandi lífskilyrði er honum beinlínis skylt að tilkynna það til barnaverndarnefndar og getur maður hlotið refsingu farist fyrir hjá honum að tilkynna um slíkt brot. Í 18. grein þessara laga er barnaverndarnefnd heimilt að kanna mál ef brotið er gegn þessu og segir í 2. mgr.:
Skal kosta kapps um að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barna sem í hlut eiga, tengsl þeirra við foreldra eða aðra og aðbúð þeirra á heimili, skólagöngu þeirra og hegðun á heimili og utan þess, svo og um andlegt og líkamlegt ásigkomulag þeirra. Skal leita aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur.
Í þessu ákvæði fær barnaverndarnefnd ákveðna heimild til að grennslast fyrir um hagi barns, hjá þeim sem það dvelur hjá sem og þar sem það sækir skóla, enda er það tilgangur laganna að vernda börnin og sjá til þess að ekkert slæmt komi fyrir þau. Öllum sem að málinu koma er skylt að veita þær upplýsingar sem barnarverndarnefnd þarf á að halda til að rannsaka málið. Hins vegar þarf barnaverndarnefnd samkvæmt 3. málsgrein 43. greinar að greina foreldrum eða forráðamönnum barns frá því að rannsókn á högum barnsins sé í gangi og þurfa foreldrar að samþykkja rannsóknina skriflega samkvæmt 4. málsgsrein. Ef um neyðartilvik er að ræða sem skiptir sköpum fyrir barnið má barnaverndarnefnd aðhafast án samþykkis foreldra samkvæmt neyðarákvæði sem finna má í 47. grein.
Meginreglan út frá rétti barnsins er að þær persónuupplýsingar sem skráðar eru um það skuli meðhöndla eins og um fullorðna manneskju væri að ræða, því að mannréttindi gera ekki greinarmun eftir aldri og eru ætluð til verndar einstaklingum en ekki ríkinu. Hins vegar má nota upplýsingar um börn ef tilgangur er málefnalegur og ef þær eru nauðsynlegar til persónugreiningar (til dæmis með kennitölu). Ekki má misnota upplýsingar sem skráðar eru um viðkomandi, sérstaklega ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða, og þarf ríka og sterka ástæðu til að meðhöndla slíkar upplýsingar.
Magnús Viðar Skúlason. „Hvernig ber að fara með persónulegar upplýsingar um börn í leik- og grunnskóla?“ Vísindavefurinn, 12. janúar 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1276.
Magnús Viðar Skúlason. (2001, 12. janúar). Hvernig ber að fara með persónulegar upplýsingar um börn í leik- og grunnskóla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1276
Magnús Viðar Skúlason. „Hvernig ber að fara með persónulegar upplýsingar um börn í leik- og grunnskóla?“ Vísindavefurinn. 12. jan. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1276>.