Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað er lystarstol?
Lystarstol einkennist af ýktum áhyggjum af offitu og áráttukenndri megrun sem verður að sjálfsvelti. Lystarstolssjúklingar eru haldnir stöðugum ótta um að verða feitir og reyna í sífellu að grenna sig, þrátt fyrir það að vera orðnir lífshættulega grannir. Þeir borða einungis hitaeiningasnauðan mat, ef þeir borða eitthvað yfir höfuð, og matarvenjur þeirra eru oft undarlegar. Til dæmis er algengt að fólk með lystarstol forðist að borða í návist annarra. Að auki stunda þeir oft mikla og erfiða líkamsþjálfun, kannski margar klukkustundir á dag. Það leiðir að sjálfsögðu til mikils þyngdartaps og stundum er líkamsþyngd fólks með lystarstol orðin undir 50% af eðlilegri þyngd þess. Mun algengara er að konur fái lystarstol en karlar.
Orðið lystarstol lýsir í raun ekki röskuninni sem um ræðir því að lystarstolssjúklingur missir alls ekki matarlystina. Þvert á móti er hann mjög oft áhugasamur og jafnvel mjög upptekinn af mat. Hann gæti haft ánægju af því að matbúa handa öðrum, safnað uppskriftum og jafnvel sankað að sér mat sem hann borðar aldrei. Í einni rannsókn voru volgir og girnilegir snúðar bornir á borð fyrir kvenkyns lystarstolssjúklinga og konur sem þjáðust ekki af lystarstoli. Konunum stóðu snúðarnir til boða kærðu þær sig um. Næstu 10 mínúturnar tóku rannsakendur blóðprufur og greindu insúlínmagn þátttakendanna. Þeir komust að því að báðir hóparnir höfðu aukið insúlínmagn og kom á óvart að magn þess var töluvert meira hjá hópnum með lystarstol heldur en hinum. Þar af leiðandi er ekki hægt að slá því föstu að lystarstolssjúklingar hafi ekki áhuga á mat og sýni ekki viðbrögð við honum. Það kom einnig í ljós að heilbrigðu konurnar gerðu snúðunum góð skil en lystarstolssjúklingarnir brögðuðu þá ekki. Ástæðan sem þær gáfu var sú að þær væru ekki svangar.
Lystarstolssjúklingar eru haldnir stöðugum ótta um að verða feitir og reyna í sífellu að grenna sig, þrátt fyrir það að vera orðnir lífshættulega grannir.
Lystarstol er misalvarlegt og einnig er mjög einstaklingsbundið hvernig sjúklingar taka við meðferð. Í sumum tilvikum varir lystarstolið í skamman tíma og sjúklingarnir ná sjálfir bata án aðstoðar en hjá öðrum er það samfellt, í langan tíma og endar með dauða. Það torveldar meðferð að einstaklingar eru tregir til að viðurkenna sjúkdóm sinn og fara sjaldnast sjálfviljugir í meðferð.
Hvað veldur lystarstoli?
Ýmsar kenningar hafa komið fram um orsakir lystarstols. Skemmst er frá því að segja að sumum þessara kenninga hefur verið hafnað en aðrar hafa leitt af sér spennandi rannsóknarniðurstöður og bætt meðferðarúrræði. Hér verður ekki gefið ítarlegt yfirlit um þær fjölmörgu kenningar sem settar hafa verið fram til að útskýra þennan flókna sjúkdóm. Þess í stað verður tæpt á fjórum ólíkum sjónarmiðum. Hafa skal í huga að þessi sjónarmið eru síður en svo andstæð hvert öðru. Þau beina athyglinni einfaldlega að ólíkum hliðum sjúkdómsins.
Fjölskyldukenningar
Hér er litið svo á að orsaka lystarstols sé að leita í samskiptum innan fjölskyldna. Þeir sem aðhyllast þetta sjónarmið gera ráð fyrir að fjölskylda sé kerfi og að ekki sé hægt að fjalla um lystarstol nema með hliðsjón af þessu kerfi. Fjölskyldumeðlimir lystarstolssjúklings búi því yfir neikvæðri sjálfsmynd. Barn í slíkri fjölskyldu er mjög verndað en getur ekki öðlast sjálfstæði eða sjálfræði á sama tíma.
Einstaklingur með lystarstol ögrar fjölskyldukerfinu, af vanmætti vill hann brjótast út úr því og sjálfssvelti er uppreisn hans. Annað einkenni fjölskyldna lystarstolssjúklinga - samkvæmt þessum kenningum – er stífni og vanhæfni til að leysa vandamál. Árekstrar innan fjölskyldu eru óhjákvæmilegir og lystarstol verður leið hjá barni til að reyna að hafa stjórn á árekstrum milli foreldra sinna. Segja mætti að lystarstolseinkennin séu viðleitni barns til að koma á jafnvægi innan fjölskyldunnar.
Þótt þessar hugmyndir hafi ekki verið rannsakaðar til hlítar bendir ýmislegt til þess að hjá fjölskyldum fólks með lystarstol séu óvenjumiklir árekstrar eða spenna milli foreldra. Reyndar mætti spyrja sig að því hvort það sé orsök eða afleiðing þess að einn í fjölskyldunni þjáist af lystarstoli?
Námskenningar
Námskenningar grundvallast á því að lystarstol sé lærð hegðun sem sé viðhaldið vegna afleiðinga lystarstols. Námskenningar lýsa lystarstoli sem undankomuviðbragði (avoidance response) þar sem mikill kvíði tengist því að sneiða hjá eða forðast mat. Kvíði lystarstolssjúklings er jafnmikill þótt hann láti ekki ofan í sig mat og eykst enn frekar ef hann borðar. Þetta mynstur styrkist síðan í sessi með athyglinni sem einstaklingurinn fær við að grennast. Þannig hafi einstaklingurinn lært það að ef hann borðar ekki þá fái hann aukna athygli í kjölfarið.
Námskenningar leggja einnig áherslu á félagslegan þrýsting sem ungar konur eru beittar og beinist að útliti þeirra, að þær eigi að vera grannar. Löngum hefur verið talið að fjölmiðlar haldi við ímynd kvenna af æskilegri líkamsþyngd og lögun. Í vestrænum samfélögum er ímynd hinnar fullkomnu konu sífellt að grennast og er farin að smita út frá sér til annarra menningarsamfélaga. Eftir því sem meiri munur verður á ímynd og raunveruleika er aukin þörf fyrir „töfrabrögð" sem geri konur heilbrigðari, grennri og þar af leiðandi fallegri. Rannsóknir sýna að ímynd kvenna í fjölmiðlum hefur áhrif á sjálfsmynd kvenna á neikvæðan hátt og að fylgni er milli fjölmiðlaáhrifa og lystarstols. Þær sýna einnig að konur með lystarstol meta líkama sinn mun neikvæðar eftir að hafa skoðað myndir í tískublöðum heldur en aðrar konur gera.
Hugrænar kenningar
Á miðjum níunda áratugnum komu fram hugrænar skýringar á lystarstoli. Fræðimenn á þessu sviði fóru að veita því eftirtekt að hugsanaskekkjur gegnsýrðu allan þankagang lystarstolssjúklinga og hegðun þeirra endurspeglaði þeirra hjartans sannfæringu að þeir „yrðu" að vera grannir. Þetta var þeim ekki lengur ósk eða löngun til að verða grannur heldur krefjandi þörf sem stjórnað hegðun þeirra og hugsun. Hugrænt mat fólks með lystarstol er þar af leiðandi brenglað, þyngdartap verður þeim staðfesting á sjálfstjórn þeirra og velgengni.
Hjá lystarstolssjúklingum eykur þyngdartapið sjálfsöryggi og afléttir vanmáttarkennd og með þessum hugsunargangi eru þeir komnir í eilífan vítahring, nema lækning komi til: Því meira sem þeir léttast því sælli er tilfinningin um velgengni og árangur. Það gefur augaleið að slíkt leiðir til óhóflegrar megrunar sem verður skaðleg að lokum.
Hugrænar skýringar hafa samtvinnast námskenningum. Útkoman úr því kallast “hugrænt atferlislíkan”. Samkvæmt þessu líkani er lystarstoli og lotugræðgi viðhaldið af ofuráherslunni sem er lögð á líkamslögun og þyngd. Orsakanna er að leita í samspili persónueinkenna (til dæmis fullkomnunaráráttu og mikilli þörf fyrir sjálfsstjórn) og menningarlegra ímynda um útlit kvenna.
Á endanum hefur vítahringur lystarstolssjúklinga lífeðlisleg áhrif. Þau stuðla aftur að því að halda við áráttuhugsunum og hegðun lystarstolssjúklinganna.
Það sem einkennir helst hugrænar-atferlisfræðilegar kenningar er áhersla þeirra á að skoðanir lystarstolssjúklinga á þyngd og viðmið þeirra um hana séu grundvallaratriðið og það sem allt snýst um í átröskun. Fleira hefur þó sitt að segja, svo sem brengluð skynjun lystarstolssjúklinganna, hugsanir þeirra, tilfinningar og hegðun.
Þeir sem aðhyllast hið síðastnefnda telja að lystarstol og lotugræðgi megi í grundvallaratriðum skýra á svipaðan hátt. Viðhorf beggja hópanna eru lík og sömu skoðunum gert jafnhátt undir höfði. Enda er raunin sú að einstaklingur með lotugræði er líka oft með lystarstol hvort sem hann finnur fyrir báðum röskununum samtímis eða fær hvora á eftir annarri. Fræðimenn segja að það sem skilji á milli þessara tveggja raskana séu þættir sem erfitt er að stjórna eða breyta (til dæmis persónueinkenni og líffræðilegur munur). Viðmið, hugsanir og viðhorf fólks með lotugræðgi og lystarstol eru því mjög lík.
Lífeðlisfræðilegar skýringar
Ýmislegt bendir til þess að lystarstol sé að einhverju leyti erft og því sé um einhverja afbrigðilega lífeðlisfræðilega starfsemi að ræða. Margir rannsakendur telja að lystarstol og lotugræðgi stafi af afbrigðilegri starfsemi í þeim hlutum heilans sem stjórna áti og efnaskiptum. Ekki hafa þó komið fram neinar óyggjandi lífeðlisfræðilegar eða líffræðilegar skýringar á lystarstoli þótt ýmislegt hafi verið athugað.
Hormónakerfið fer úr skorðum hjá fólki með lystarstol en svo virðist sem um sé að ræða afleiðingu sjúkdómsins frekar en orsök af því að það lagast við bata. Lengi hefur verið talið að undirstúkan (hypothalamus) væri það heilasvæði sem stjórnaði áti og orsakir fyrir lystarstoli tengdust þar af leiðandi undirstúku. Núna er vitað að undirstúka er mikilvæg í stjórnun á ýmissi hegðun tengdri áhugahvöt. Stafaði lystarstol af lífeðlislegum völdum hefði það því sennilegast með eitthvert annað heilasvæði að gera.
Rannsóknir hafa sýnt fylgni milli lystarstols og breytinga á magni boðefnanna serótóníns og noradrenalíns. Enn er óljóst hvort breytingin er orsök eða afleiðing lystarstols. Hið sama er uppi á teningnum með breytingu á heilavef sem fundist hefur hjá fólki með lystarstol. Erfðaþættir gætu haft einhver áhrif og gert einstaklinga veikari fyrir röskuninni.
Tvíburannsóknir hafa leitt í ljós að eineggja tvíburar eru líklegri en tvíeggja tvíburar til að fá báðir lystarstol. Í einni rannsókn var samræmi 56% fyrir eineggja og 5% fyrir tvíeggja. Það er að segja, ef annar eineggja tvíbura þjáist af lystarstoli þá eru helmingslíkur á að hinn fái eða hafi einnig lystarstol. Almennt hefur komið fram að um 6-10% af kvenkyns ættingjum kvenna með lystarstol þjást einnig af lystarstoli og hið sama gildir um systkini. Sumar erfðaskýringar tengja lystarstol við þunglyndi í fjölskyldum, en það er þó umdeilt.
Fæstir halda því fram að orsakir lystarstols séu einungis lífeðlisfræðilegar. Flestir telja að um sé að ræða einhverskonar samvirkni lífeðlisfræðilegra þátta og umhverfisþátta. Ýmis lyf hafa verið reynd við lystarstoli en ekkert þeirra virðist duga.
Mynd:
Elsa Eiríksdóttir. „Hvers vegna fær maður anorexíu og er hún hættuleg?“ Vísindavefurinn, 12. janúar 2001, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=1275.
Elsa Eiríksdóttir. (2001, 12. janúar). Hvers vegna fær maður anorexíu og er hún hættuleg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1275
Elsa Eiríksdóttir. „Hvers vegna fær maður anorexíu og er hún hættuleg?“ Vísindavefurinn. 12. jan. 2001. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1275>.