Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það að beina sjónum að maka, og nánar tiltekið kynhneigð maka, þeirra sem fara í kynskiptaaðgerð, er satt að segja harla einkennileg og gátukennd aðferð. Sannarlega eru dæmi um að fólk sem fer í kynskiptaaðgerð eigi sambönd eða hjónabönd að baki og því má alveg eins spyrja hvort kona sem gift er karlmanni sem síðan fer í kynskiptaaðgerð verði þar með lesbía.
Tilfellið er hinsvegar að það er ákvaflega fátítt að sambönd eða hjónabönd “lifi” það langa og flókna ferli sem kynskiptaaðgerðir eru, enda oftast til þeirra stofnað á röngum forsendum. Til þess að hægt sé að nálgast spurninguna þarf því að byrja á því að spyrja hverjir það eru sem fara í kynskiptaaðgerð, og skoða síðan aðeins það langa og stranga ferli.
Áður en lengra er haldið er þó rétt að huga aðeins að orðanotkun. Enska orðið yfir fólk sem fer í kynskiptaaðgerð er transsexuals. Það hefur verið þýtt á íslensku sem “kynskiptingar” en sú þýðing er meingölluð. Hugtakið “kynskiptingur” bendir til ákveðinnar sífellu eða endurtekningar og vísar auk þess stöðugt í aðgerðina. Staðreyndin er sú að fólk sem fer í kynskiptaaðgerð gerir það aðeins einu sinni á ævinni, og kærir sig ekki um að vera kennt við þá aðgerð það sem eftir er. Ég mun því fylgja fordæmi Arnars Haukssonar og nota skammstöfunina TS fyrir transsexual.
Fólk sem gengst undir kynskiptaaðgerð þjáist af því sem á ensku er kallað gender identity disorder en það felst í því að upplifa frá unga aldri að þeir eða þær hafi fæðst inn í rangan líkama af röngu kyni. Kynfærin “passa ekki” og frá barnæsku hefur þetta fólk því óbeit á kynfærum sínum. Tíðni TS er um það bil 1/10-30.000 sem þýðir að á Íslandi fæðist eitt slíkt barn á 3-5 ára fresti (sjá Arnar Hauksson, „Transsexúalismi“ Flögð og fögur skinn, ritstjóri Jón Proppé, 1998, bls. 152-159).
Karlar sem láta umbreyta sér í konur (en það er algengara en að konur láti breyta sér í karla) hafa þannig upplifað sig sem stúlkur frá blautu barnsbeini. Viðbrögð foreldra og umhverfis við hinum karllega líkama og samfélagslegur þrýstingur fyrir því að taka upp “strákslega hætti” og “hegða sér eins og karlmaður” vekur því upp stöðuga óánægju og vanlíðunartilfinningu vegna eigin kynferðis. Hann eða hún á þá ósk heitasta að losna við kynfæri sín og taka upp líkamlegt útlit og háttu hins gagnstæða kyns, sem hann telur sig í raun og veru tilheyra. Transsexúalar eru þannig fangar eigin líkama, fastir í grímubúningi sem þeir vilja fyrir alla muni losna úr. Áður en fólk getur gengist undir kynskiptaaðgerð á sér þó stað langt ferli, því mikilvægt er að greina TS frá annars konar persónuleikatruflunum. Á Íslandi er meðferð við TS í höndum starfshóps á vegum landlæknis um kynskiptingar, og má skipta meðferðinni í fjögur stig.
Samtalsmeðferð, sem er um tveggja ára ferli þar sem rætt er við sálfræðinga og geðlækna.
Hormónameðferð (hálft til eitt ár), þar sem eigin hormónaframleiðsla er bæld, og einstaklingnum síðan gefin hormón hins gagnstæða kyns.
Atferlismeðferð (samhliða hormónameðferð), þar sem einstaklingurinn “æfir sig” að lifa í því kynhlutverki sem hann eða hún hyggst taka upp.
Skurðaðgerðir. Hjá körlum þarf að fjarlægja lim og eistu og útbúa leggöng, flestir fara síðan í brjósastækkun og lýtaaðgerðir ýmiskonar til að fullkomna kvenleikann. Konur þurfa hinsvegar að láta fjarlægja brjóst, eggjastokka og leg, og síðan að byggja upp ytri kynfæri karla; tippi og pung.
Samanlagt er því kynskiptaaðgerð að minnsta kosti 4-5 ára ferli, en ef vel tekst til má breyta vansælum strákum eða stelpum í hamingjusamar konur eða karla.
Kynhneigð, eða sexuality, kemur kynskiptaaðgerðum lítið við. Þörfin til að umbreyta líkamanum og koma á samhljómi eða harmóníu milli líffræðilegs kyns, og þar með ytra útlits, og eigin upplifana um “rétt” kyngervi eða kynhlutverk er aflið sem knýr TS-fólk áfram. Löngun til að lifa kynlífi sem hið gagnstæða kyn fylgir einhvers staðar á eftir, en er fjarri því að hafa forgang.
Þess eru þó dæmi að fólk sé í svo ákafri afneitun á kynhneigð sinni að það vilji frekar breyta um kyn en viðurkenna fyrir sjálfum sér og samfélaginu að það sé hommar eða lesbíur. Kynskiptaaðgerð er hinsvegar ekki lausn á þeirra vanda og viðtöl við sálfræðinga og geðlækna á fyrsta stigi eru meðal annars til að forða slíku fólki frá því að gangast undir flóknar og margþættar aðgerðir á röngum forsendum.
Það að sambönd eða hjónabönd sem efnt er til fyrir kynskiptaaðgerð standist álagið er í hæsta máta fágætt, enda er yfirleitt til þeirra efnt á röngum forsendum. Þau eru gjarnan örvæntingarfull tilraun til að falla inn í norm samfélagsins og hunsa eigin líðan og tilfinningar. Það sem breytist við kynskipaiaðgerð er kyn þess sem í aðgerðina fer, karl verður kona, eða kona karl. Hinsvegar er frekar ólíklegt að kynhneigð sambýlisfólks, hvort sem það er gagnkynhneigt eða samkynhneigt, breytist við kynskipti maka.
Svar mitt við upphaflegu spurningunni um það hvort samkynhneigður kærasti manns sem færi í kynskiptaaðgerð hætti að vera hommi er því: Nei, það er satt að segja miklu líklegra að hann eignist nýjan kærasta.
Sjá einnig svar Guðmundar Vikars Einarssonar við spurningunni Hvar er hægt að fá upplýsingar um kynskiptaaðgerðir?
Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). „Ef samkynhneigður maður í sambandi með öðrum karlmanni breytir um kyn, hættir þá hinn aðilinn að vera hommi?“ Vísindavefurinn, 4. janúar 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1261.
Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). (2001, 4. janúar). Ef samkynhneigður maður í sambandi með öðrum karlmanni breytir um kyn, hættir þá hinn aðilinn að vera hommi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1261
Þorgerður Þorvaldsdóttir (1968-2020). „Ef samkynhneigður maður í sambandi með öðrum karlmanni breytir um kyn, hættir þá hinn aðilinn að vera hommi?“ Vísindavefurinn. 4. jan. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1261>.