Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Chinchilla er suður-amerískt nagdýr (Rodentia) og heitir á fræðimáli Chinchilla lanigera. Dýrið er 35 til 40 cm að lengd með skotti. Umrætt dýr hefur verið kallað loðka, loðkanína eða silkikanína á íslensku. Þessar þýðingar virðast þó ekki vera mikið notaðar og orðið chinchilla er oft notað. Orðið loðkanína mun oftar vera notað um angórakanínur og því er hætta á að notkun þess um chinchilla-dýr geti valdið misskilningi. Hér á eftir verður því notast við orðið silkikanína um þessi dýr.
Enska heitið er dregið af ættbálki indíána sem heitir Chincha og hagnýtti ættbálkur þessi fyrr á öldum bæði kjöt og skinn dýrsins. Sagan segir að fljótlega eftir að Spánverjar komu til Suður-Ameríku á 16. öld hafi þeir lært af Chincha-indíánum að hagnýta sér þetta litla dýr, sérstaklega feldinn sem þykir ákaflega fínn, og í framhaldi af því nefndu þeir dýrið í höfuðið á ættbálkinum.
Í tímans rás varð gríðarlega mikil eftirspurn í Evrópu eftir silkikanínufeldum sem leiddi til þess að tegundin varð ofveidd. Í bland við ofveiðina var rauðrefur fluttur inn í heimkynni silkikanínunnar á slétturnar í Andesfjöllum þar sem breskir námamenn hófu námagröft á 19. öld og vildu koma á fót rauðrefastofni svo að þeir gætu haldið áfram sínum þjóðlega sið, að stunda refaveiðar í þessum nýju heimkynnum. Þetta leiddi til þess að refirnir hófu að veiða silkikanínur á næturnar en menn veiddu dýrin á daginn. Loks gripu ríkisstjórnir þriggja ríkja Suður-Ameríku, Chile, Perú og Bolivíu, til þess ráðs að banna veiðar og sölu á afurðum silkikanínunnar árið 1918 til að koma nagdýrinu litla til bjargar en þá var tegundin á barmi algerrar útrýmingar.
Eftir mikið verndunarátak eru nú til litlir einangraðir stofnar syðst á hinu upprunalega útbreiðslusvæði dýrsins í Chile og hafa mörg þessara svæða verið friðuð til að tryggja framtíð þess. Silkikanínan hefur á síðari árum orðið vinsælt gæludýr víða í Norður-Ameríku og Evrópu og er einnig ræktuð vegna feldsins.
Myndin er fengin af vefsetrinu chinchilla.com
Jón Már Halldórsson. „Af hvaða stofni eða tegund er dýrið "chinchilla"? Hvað heitir það á íslensku?“ Vísindavefurinn, 2. janúar 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1254.
Jón Már Halldórsson. (2001, 2. janúar). Af hvaða stofni eða tegund er dýrið "chinchilla"? Hvað heitir það á íslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1254
Jón Már Halldórsson. „Af hvaða stofni eða tegund er dýrið "chinchilla"? Hvað heitir það á íslensku?“ Vísindavefurinn. 2. jan. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1254>.