Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta er ein af þeim spurningum sem við fáum trúlega aldrei endanlegt svar við. Svarið ræðst af því hvað við eigum við þegar við tölum um liti en heimspekingum hefur reynst ákaflega erfitt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það.
Sumir halda því fram að augljóst sé að hlutur haldi lit sínum óháð aðstæðum á borð við myrkur eða ljós. Öðrum finnst jafn augljóst að allir hlutir hljóti að teljast svartir í myrkri. Báðir aðilar telja svo kannski skoðun sína byggða á almennri skynsemi.
Aðstæður á borð við myrkur og birtu hafa ekki áhrif á hlutina sjálfa sem við skynjum, heldur aðeins á skynjun okkar á hlutunum. Myrkrið breytir ekki mjólkinni sem slíkri heldur gerir það okkur ómögulegt að sjá almennilega. Sjón okkar snýst um að nema birtu, við getum ekki séð í myrkri og allt virðist því svart.
Þeir sem telja að litur mjólkurinnar breytist ekki eftir því hvort bjart eða dimmt er í kring gætu til dæmis talið að litur hlutar sé eiginleiki yfirborðs hans sem veldur því að hluturinn endurvarpar ljósi af tilteknu tagi. Þetta er svo það sem sker úr um það hvað við sjáum þegar við horfum á hlutinn og þar með hvernig við teljum hann vera á litinn. Þessi eiginleiki breytist ekki eftir birtunni á staðnum þannig að ef þessi eiginleiki er sami eiginleiki og litur hlutarins hlýtur hluturinn að halda lit sínum í myrkri. Ef litur mjólkurinnar er eiginleiki yfirborðs hennar hlýtur mjólk því að vera hvít hvort sem hún er í myrkri eða birtu.
Samkvæmt þessari hugmynd eru litir eiginleikar sem eru bundnir hlutum á sama eða svipaðan hátt og stærð þeirra og lögun. Þótt okkur virðist bíll sem við horfum á úr flugvél vera á stærð við leikfangabíl gerum við ekki ráð fyrir að bílarnir minnki í raun og veru við það að við stígum upp í flugvél. Þeir sem telja að mjólk haldi áfram að vera hvít í myrkrinu telja sem sagt að spurningin “Er mjólk svört í myrkri?” sé hliðstæð við spurninguna “Breytast bílar á jörðu niðri í leikfangabíla þegar ég fer í flugvél?”
Aðrir telja hins vegar liti hluta vera svokallaða “huglæga” eiginleika ólíka “hlutlægum” eiginleikum á borð við stærð og lögun. Þeir segja litina vera, að minnsta kosti að hluta til, háða því sem við skynjum og upplifum þegar við sjáum þá. Þær aðstæður sem hafa áhrif á skynjun okkar geta því haft áhrif á litina í kringum okkur. Þessu til stuðnings má til dæmis benda á að litur hlutar getur virst breytilegur eftir aðstæðum. Einnig virðumst við ekki öll skynja liti nákvæmlega eins í öllum tilfellum og erfitt getur reynst að sýna fram á að sum okkar hafi rétt fyrir sér um litina fremur en önnur.
Samkvæmt þessu viðhorfi er vel mögulegt að mjólk sé svört í myrkri, enda spurningin um það alls ekki talin sambærileg við spurninguna um stærð bíla þegar við sitjum í flugvél. Til eru margar mismunandi útgáfur af þessari skoðun; allt frá þeirri skoðun að litir séu eingöngu eiginleikar okkar eigin upplifana til þeirrar að litir séu eiginleikar hlutanna í kringum okkur og ráðist af samspili hlutanna og skynjunar okkar á þeim.
Einnig er hugsanlegt að einhver líti svo á að hlutur hafi alltaf þann lit sem hann endurvarpar nákvæmlega þá stundina og litur sé þannig aðstæðubundinn eiginleiki. Samkvæmt þeirri skoðun hefur mjólk engan lit í myrkri þar sem hún endurvarpar engu ljósi við slíkar aðstæður og er þá svört.
Hér hefur upphaflegri spurningu ekki verið svarað, enda var það ekki ætlunin. Vonandi hefur það þó komist til skila að sterk rök sé hægt að færa fyrir bæði jákvæðu og neikvæðu svari. Fólki til aðstoðar sem vill reyna að gera upp hug sinn um þetta efni læt ég fylgja nokkrar svipaðar spurningar. Fólk getur þá velt fyrir sér hvernig það vill svara þeim og hvort og hvers vegna þær séu sambærilegar við upprunalegu spurninguna:
Er mjólk svört meðan hún er inni í mjólkurfernu?
Eru appelsínur svartar að innan þangað til þær eru skornar í sundur?
Er matur bragðlaus ef við erum með stíflað nef þegar við borðum hann?