Hvers vegna er miðja norðurljósabeltisins á norðurhveli jarðar skammt vestur af Qaanaaq á Grænlandi, en ekki á segulskautinu eða norðurpólnum?Miðja norðurljósanna er ekki alltaf skammt vestur af Qaanaaq á Grænlandi, en getur verið það. Eins og fram kom í svari Aðalbjarnar Þórólfssonar og Ögmundar Jónssonar við spurningunni Af hverju stafa norður- og suðurljósin?, þá mynda norðurljósin kraga utan um segul-norðurpólinn. Í reyndinni er segul-norðurpóllinn ekki nákvæmlega í miðju þessa kraga. Ástæðan er sú að segullínur jarðarinnar eru aflagaðar af sólvindinum sem flæðir umhverfis jörðina (sjá fyrrnefnt svar). Þannig þjappar sólvindurinn segullínunum saman á daghlið jarðar, en togar úr þeim á næturhliðinni. Á daghliðinni myndast norðurljósin því við hærri breiddargráður en á næturhliðinni.
Myndin sýnir þetta, en þar má sjá útgeislun frá efri lofthjúp jarðar af völdum norðurljósanna (kragi) og sólarinnar (skjöldurinn vinstra megin á myndinni). Segul-norðurpóllinn er í miðju minnsta hringsins á myndinni og sólin skín frá vinstri. Eins og sést á myndinni er norðurljósakraginn þynnri og við hærri breiddargráður á daghliðinni. Ef miðað er við innri rönd norðurljósakragans virðist miðjan vera skammt austan við Qaanaaq (staðsett með hvítum punkti nálægt segul-pólnum), en ef miðað er við ytri röndina lendir miðjan skammt fyrir suð-austan Qaanaaq. Þar sem norðurpóllinn og segul-norðurpóllinn eru ekki á sama stað, þá færist þessi sýnilega miðja norðurljósakragans þegar jörðin snýst, en heldur sig ávallt í grennd við segul-norðurpólinn og yfirleitt næturmegin við hann.