Þeir sprengigígar sem helst líkjast loftsteinsgígum eru öskugígar eða "hverfjöll" (eftir samnefndu felli í Mývatnssveit), en slíkir gígar myndast við það að bergkvikan kemst í snertingu við grunnvatn á leið sinni til yfirborðsins, hún freyðir og sundrast í smáar agnir; ekkert hraun myndast heldur einungis gjóska (aska og vikur). Séu gosin kraftlítil hlaðast gosefnin upp í kringum gosopið og myndast þá öskugígur. Efnið í gígnum er þá hraðkæld bergbráð sem á fræðimáli nefnist "hýalóklastít", sambreyskja úr eldfjallagleri. Hér á landi liggja slíkir gígar á gossprungu - til dæmis eru tvö "hverfjöll" á Lakagígasprungunni.
Loftsteinsgígar tengjast auðvitað ekki sprungum (nema þá fyrir tilviljun), efnið í þeim er að vísu glerjað, en það er uppbrætt bergið sem loftsteinninn féll í. Kristallar í berginu, bæði í gígnum sjálfum og umhverfis, sýna oft merki um höggbylgju sem fór um efnið þegar loftsteininum laust til jarðar. Meginmunurinn er samt sá, að gagnstætt loftsteinsgígum hafa eldgígar "rætur", það er aðfærsluæð eða -æðar sem fluttu bergbráðina til yfirborðsins. Í annan stað eru loftsteinsgígar sjaldnast úr storkubergi, heldur myndast þeir í setbergi eða myndbreyttu bergi.
Mynd af loftsteinsgíg: Neo Program: NASA Mynd af sprengigíg: Volcano World