Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrirbærinu speglun var lýst að nokkru á Vísindavefnum í svari við spurningunni Af hverju getur maður séð sjálfan sig í spegli?. Þar var greint á milli speglunar frá gljáandi fleti og dreifðrar speglunar eða endurkasts frá möttum fleti. Við dreifða speglun dreifast ljósgeislarnir í allar áttir frá speglunarfletinum, óháð stefnu til ljósgjafa. Flestir hlutir í umhverfi okkar eru mattir og við sjáum þá vegna dreifðrar speglunar. Upplýsingar um staðsetningu ljósgjafans eru aðeins óbeinar, svo sem í skuggamyndun. Við greinum form hlutarins vegna breytinga á styrk og litasamsetningu dreifðu ljósgeislanna með stefnu.
Þannig sérð þú appelsínu sem þú setur á borð fyrir framan þig, þó svo þú sjáir ekki ljósgjafann sem lýsir upp herbergið og þar með appelsínuna. Ef skuggar sjást á appelsínunni eða frá henni má þó ráða í stefnu til ljósgjafans. Eins er þessu varið með tunglið. Við skynjum geisla frá sólinni sem dreifast af yfirborði tunglsins. Ef við gerum ráð fyrir að tunglið sé kúlulagað segir form tunglmyndarinnar sem við sjáum til um stefnu milli sólar og tungls. Litasamsetning tunglskinsins ræðst af þrennu: litasamsetningu sólarljóssins og annars vegar ljósdreifieiginleikum tunglyfirborðsins og eiginleikum lofthjúps jarðar hinsvegar. Tunglskinið verður rauðleitara en annars þegar tunglið er lágt á lofti, á sama hátt og sólroðinn myndast kvölds og morgna þegar sólargeislarnir fara lengsta leið í lofthjúpnum áður en þeir ná til jarðar. Sjá nánar um þetta atriði í svari við spurningunni Af hverju er himininn blár?.
Ari Ólafsson. „Hvað veldur því að við sjáum speglun sólarinnar í tunglinu?“ Vísindavefurinn, 30. nóvember 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1199.
Ari Ólafsson. (2000, 30. nóvember). Hvað veldur því að við sjáum speglun sólarinnar í tunglinu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1199
Ari Ólafsson. „Hvað veldur því að við sjáum speglun sólarinnar í tunglinu?“ Vísindavefurinn. 30. nóv. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1199>.