Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í sólkerfinu, það er á svæðinu kringum sólina okkar, eru ýmsir hlutir á ferð. Þar eru reikistjörnur eins og jörðin okkar og Júpíter, smástirni, tungl og halastjörnur. Auk þess eru þar enn smærri hlutir sem sjást þó vel með berum augum. Þetta eru grjót- eða málmhnullungar af ýmsum stærðum og gerðum. Þeir kallast einu nafni geimgrýti en einstaka hnullunga köllum við geimsteina. Flestir geimsteinar eru taldir eiga rætur að rekja til smástirnabeltisins milli Mars og Júpíters eða til halastjarna sem hafa sundrast.
Á hverjum sólarhring dynja milljónir geimsteina á lofthjúpi jarðar. Núningur við loftið verður til þess að steinninn hitnar og fer jafnvel að glóa og brenna. Slíkur steinn er kallaður loftsteinn og við tölum um stjörnuhrap þegar við sjáum ljósrákina sem myndast á himninum, enda líkist hún óneitanlea hrapandi stjörnu.
Langflestir loftsteinar brenna upp til agna í lofthjúpnum. Nokkrir lifa þó ferðina af og lenda á jörðinni. Þeir nefnast þá hrapsteinar. Þeir eru afar mismunandi að stærð, langflestir afar smáir en einstaka steinn er afar stór. Þegar stór hrapsteinn fellur til jarðar myndast gígur sem líkist sprengigíg eftir eldgos. Stærstu hrapsteinar hafa valdið meiri háttar náttúruhamförum hér á jörðu niðri. Þeir þyrla upp ryki og öðrum efnum þar sem þeir lenda auk þess sem mikið kvarnast úr þeim við lendinguna. Þessi efni fara hátt upp í lofthjúpinn og jafnvel út í geiminn og dreifast kringum alla jörðina. Þá getur orðið myrkur í nokkra mánuði og fimbulkuldi, jafnvel þar sem hefði átt að vera sumar.
Slíkar hamfarir hafa auðvitað veruleg áhrif á lífríkið. Þannig telja til dæmis margir að svona hrapsteinn hafi valdið því að risaeðlurnar dóu út fyrir um það bil 65 milljón árum. En sem betur fer eru slíkir atburðir sjaldgæfir í jarðsögunni; verða ef til vill á 100 milljón ára fresti. Það er langur tími í samanburði við aldur tegundarinnar Homo sapiens sem er talinn vera aðeins nokkur hundruð þúsund ár.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju kemur stjörnuhrap?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=119.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 17. febrúar). Af hverju kemur stjörnuhrap? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=119
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju kemur stjörnuhrap?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=119>.