Hvernig hefur þátttaka Íslendinga verið á Ólympíuleikunum?Á vef ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands) er að finna lista yfir íslenska keppendur á sumarólympíuleikum frá upphafi. Íslendingur tók fyrst þátt á sumarólympíuleikum árið 1908 þegar Jóhannes Jósefsson keppti í grísk-rómverskri glímu á leikunum í London. Frá þeim tíma og til og með leikunum í London árið 2012 hafa 228 einstaklingar tekið þátt fyrir hönd Íslands. Árið 2016 sendi Ísland átta keppendur á leikana í Ríó í Brasilíu en af þeim hafa fimm áður tekið þátt. Flestir íslenskir keppendur hafa aðeins farið á eina Ólympíuleika, nokkrir hafa keppt tvisvar sinnum, einhverjir þrisvar sinnum en fjórir hafa keppt fjórum sinnum. Það eru Guðmundur Gíslason í sundi (1960, 1964, 1968, 1972), Bjarni Friðriksson í júdó (1980, 1984, 1988, 1992), Vésteinn Hafsteinsson í kringlukasti (1984, 1988, 1992, 1996) og Jakob Jóhann Sveinsson í sundi (2000, 2004, 2008, 2012). Að undanskildum leikunum árið 1908 hafa Íslendingar alltaf verið með keppendur í frjálsum íþróttum þegar þeir hafa tekið þátt. Langoftast hafa þeir einnig átt keppendur í sundi. Aðrar greinar sem Íslendingar hafa tekið þátt í eru badminton, fimleikar, glíma, handbolti, júdó, lyftingar, siglingar, skotfimi og sundknattleikur. Það kemur kannski ekki á óvart að flestir íslenskir þátttakendur hafa verið í handbolta, enda um hópíþrótt að ræða. Næstflestir keppendur hafa verið í frjálsum íþróttum og þar á eftir kemur sund. Heimildir:
- Ólympíuleikar - ÍSÍ. (Skoðað 5. 8. 2016).
- Keppendalisti á Ólympíuleikum - ÍSÍ. (Skoðað 5. 8. 2016).
- Óðinn, 4. árgangur 1908-1909, 4. tölublað - Timarit.is. (Sótt 12.08.2016).
- Olympic Stadium (London), 1 September 2012.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 5. 8. 2016).