Líta má á innstreymi í gjárnar á Þingvöllum sem kaldavermsl, en svo kallast lindir þar sem hiti vatnsins er jafn árið um kring og þá venjulega svipaður meðalárshita staðarins, á láglendi 3-5°C en á hálendi 2-3°C. Um slíkar lindir segir Þorleifur Einarsson í Jarðfræði sinni að vatnsgæfni þeirra sé mjög jöfn árið um kring og að þær leggi aldrei, jafnvel ekki í mestu frostum. Vatnið í gjánum á uppruna sinn í Langjökli og hefur því runnið langa leið neðanjarðar og er um 4°C þegar það rennur í gjárnar. Tvennt stuðlar sennilega að því að seint frýs í gjánum: Annars vegar er í þeim talsverður straumur, og hins vegar halda gjárnar vel hita þegar loftið kólnar, vegna þess hve djúpar þær eru miðað við breidd. Veggirnir ná langt niður fyrir frostmörk í jörð og stuðla að því að halda vatninu fyrir ofan frostmark.
Mynd: Listaverkið Gjá á Þingvöllum eftir Ásgrím Jónsson. Vefsetur Listasafns Íslands