Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Óson getur, jafnvel í litlu magni, verið skaðlegt barka og lungum. Hversu alvarlegur skaðinn verður veltur bæði á styrk ósonsins í loftinu og hversu lengi maður verður fyrir áhrifum þess. Þó getur hlotist alvarlegur og varanlegur skaði á lungum eða dauði af því að anda að sér tiltölulega litlu ósoni í mjög stuttan tíma.
Í fyrstu gerir mjög lítið magn ósons öndunarveginn viðkvæmari fyrir öðrum efnum sem maður andar að sér, og veldur bólgukenndum viðbrögðum í öndunarvef. Ef þetta gerist við æfingar eða vinnu aukast þessi áhrif. Aukin viðkvæmni hefur verið mæld hjá fólki sem hefur andað að sér lofti með 0,08-0,12 milljónustu hlutum (ppm) af ósoni í sjö klukkustundir, eða 0,35 ppm í eina klukkustund. Þessi viðbrögð sjást nánast um leið innöndun ósons hefst og þau haldast í að minnsta kosti 18 klukkustundir.
Meðal einkenna sem greind hafa verið hjá fólki sem orðið hefur fyrir 0,25-0,75 ppm eru hósti, tíður andardráttur, þrenging að brjósti, andnauð, þurr háls, önghljóð, höfuðverkur og ógleði.
Alvarlegri einkenni hafa greinst í kjölfar þess að hafa orðið fyrir hærri skömmtum (meira en 1 ppm) og eru þar á meðal minnkuð lungnageta, mikil þreyta, svimi, svefnleysi, einbeitingarskortur og bláleit húð. Ef maður andar að sér 9 ppm af ósoni af og til í 3-14 daga getur það valdið bólgu í berkjum og lungum.
Maður sem andaði að sér um 11 ppm í fimmtán mínútur fékk alvarlega ertingu í öndunarveg og varð næstum því meðvitundarlaus. Talið er banvænt að anda að sér 50 ppm í 30 mínútur.
Tilraunir á dýrum benda til að óson geti líka valdið banvænni uppsöfnun á vökva í lungum. Einkenni þessa, svo sem tíður andardráttur, koma stundum ekki fram fyrr en sólarhring eftir innöndun og verða alvarlegri við líkamlega áreynslu.
Við endurtekna, daglega innöndun dregur úr viðbrögðum í öndunarvegi við ósoni. Þessi "aðlögun" að áhrifum ósons getur varað í marga daga eftir að innöndun þess lýkur. Öndunarhæfni virðist ekki minnka meira hjá þeim sem reykja eða þjást af lungnasjúkdómum.
Heimild:Miðstöð um heilsu og öryggi í starfi í Kanada