Það er ekkert litarefni af nokkru tagi í sólinni. Eins og Ari Ólafsson bendir á í svari við spurningunni Af hverju er himinninn blár? sendir sólin frá sér hvítt ljós sem hlutirnir hér á jörðinni, þar með talinn lofthjúpurinn, endurvarpa á mismunandi hátt þannig að við sjáum ólíka liti. Svona útskýrir Ari mismunandi litbrigði tunglskinsins:
Tunglið endurvarpar til okkar sólarljósi sem á það fellur, og hefur því í meginatriðum sömu litasamsetningu. Tunglið er gulleitt hátt á lofti en rauðleitara við sjóndeildarhring þar sem lofthjúpur jarðar hefur dreift bláa litnum úr geislunum. Tunglskinið er hins vegar svo sterkt að við verðum ekki vör við blámóðuna milli okkar og ljósgjafans, enda er sól þá gjarna sest.Sama skýring á við um af hverju sólin verður gul og síðan rauðleit eftir því sem hún er lægra á lofti. Um miðjan dag fer sólarljósið hins vegar stutta leið í gegnum lofthjúpinn og þá fáum við hvíta ljósið nokkurn veginn óbrenglað til okkar.