Gömul trú er að morgunroðinn væti en kvöldroðinn bæti og er þá þurrkur talinn til bóta. Erfitt er að leggja mat á hversu marktæk þessi regla er. Við hefðbundnar veðurathuganir er roði á himni ekki skráður, svo að leita þyrfti annarra heimilda eða gera sérstakar athuganir um nokkra hríð. Hugsanlega mætti meta líkur á roða á himni frá gervihnattamyndum af skýjum, en það væri viðamikið verk og óhjákvæmileg óvissa í niðurstöðum. Forsenda þess að morgun- eða kvöldroði sjáist er að sól sé ekki hulin skýjum. Morgunroði sést semsagt ef léttskýjað er í austri og til að kvöldroði verði þarf að vera léttskýjað í vestri. Ef sólin skín upp undir ský sem eru nærri þeim sem horfir getur roðinn orðið mjög mikill. Nú hagar svo til að skýja- og úrkomukerfi koma oftast að Íslandi úr suðvestri og berast til norðausturs. Má því túlka kvöldroðann á þann veg að ekkert slíkt kerfi sé um það bil að koma upp að landinu og því ekki yfirvofandi úrkoma. Skýjabakki sem eykur á morgunroða gæti verið undanfari rigningar sem er að berast úr vestri eða suðvestri, en ef svo er fengjust um það betri upplýsingar með því einu að líta til vesturs og athuga hversu þungbúið væri í þeirri átt. Ljóst er að þessi aðferð við veðurspár á misvel við eftir landshlutum á Íslandi. Suðvestanlands fylgir úrkoma oftast skýja- og úrkomukerfum sem koma úr suðvestri, en það á síður við norðaustanlands. Margir aðrir annmarkar eru á að beita roðareglum við veðurspár. Má þar til dæmis nefna að skýjakerfi geta borist hraðar en svo að til þeirra sjáist að kvöldi þótt hann nái að þykkna upp yfir nóttina og rigni með morgninum. Þá fellur hluti úrkomu á Íslandi úr skúraskýjum sem ekki tengjast stórum skýja- og úrkomukerfum, heldur myndast á svipuðum slóðum og úrkoman fellur. Það á til dæmis við um síðdegisskúrir á sumardögum, en þar fer einmitt úrkoma sem olli áhyggjum hjá stórum hluta þeirra kynslóða sem studdust helst við veðurboða í stíl við morgun- og kvöldroða.
Mynd úr kvikmyndinni: Á hverfanda hveli (Gone With the Wind)