Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í svonefndu fingrarími er til regla sem segir til um hvenær rímspillisár er. Reglan er svona: Rímspillisár er þegar aðfaradagur árs (það er seinasti dagur ársins á undan) er laugardagur og næsta ár á eftir er hlaupár.
Seinasti dagur ársins 2022 er laugardagur og árið 2024 er hlaupár. Af því leiðir að árið 2023 er rímspillisár. Það sama átti við um árið 1995. Seinasti dagur ársins á undan (1994) var laugardagur og árið 1996 var hlaupár. Þess vegna var árið 1995 rímspillisár. Rímspillisár eru oftast á 28 ára fresti.
Opna úr riti Jóns Árnasonar Skálholtsbiskups, Dactylismus ecclesiasticus eður fingrarím, frá árinu 1739. Fingrarím er tímatalsreikningur með fingrunum.
Ekki er víst að hugtökin hér á undan séu öllum töm. Þessa vegna er ekki úr vegi að útskýra þau, og önnur sem tengjast þeim, aðeins nánar. Í útskýringunum er stuðst við greinagóða texta Þorsteins Sæmundssonar stjarnfræðings, sem getið er nánar í heimildaskrá.
Orðið rím er notað um útreikning almanaks eða dagatals. Orðatiltækið að ruglast í ríminu er dregið af því og merkir þess vegna upphaflega þegar einhver ruglast á dögunum.
Fingrarím er tímatalsreikningur með fingrunum. Með fingrarími er til dæmis hægt að reikna dagatal, finna tunglkomur og hátíðisdaga og fleira. Fingrarímið gagnast einnig til að ákvarða dagsetningar í hinu forna íslenska misseristali.
Misseristal er heiti á hinu gamla íslenska tímatali. Í því var áhersla lögð á misserin tvö sumar og vetur. Misseristalið grundvallaðist ennfremur á vikum í stað mánaða.
Hugtakið rímspillir er notað um tímabil í misseristali þegar viðmiðunartímar verða degi seinna en gildir samkvæmt venjulegum rímreglum. Orðið vísar til þess að þá spillist rímið, það er dagsetningar ruglast. Rímspillirinn verður þegar svonefndum sumarauka er skotið inn í misseristalið degi síðar en vanalegt er. Sumaraukinn er vika sem bætt er við misseristalið á nokkurra ára fresti svo það sé í samræmi við náttúrlegt árstíðaár.
Innskot á sumarauka degi síðar en vanalega, verður oftast á 28 ára fresti en aldrei þegar hlaupár er. Rímspillirinn stendur þá frá sumarauka og fram á hlaupársdag næsta ár. Rímspillisár er árið sem rímspillir hefst. Rímspillisár hefst þegar sumarauka er skotið inn í 23. júlí í stað 22. júlí.
Á eftir rímspillisári hefst góa til að mynda 25. febrúar en ekki á tímabilinu 18. til 24. febrúar, miðsumar hefst 30. júlí, en ekki á tímabiliinu 23. til 29. júlí og haustmánuður hefst þá 28. september, en ekki á tímabilinu 21. til 27. september.
Heimildir og frekara lesefni:
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvenær er næsta rímspillisár?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2022, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83139.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2022, 23. mars). Hvenær er næsta rímspillisár? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83139
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvenær er næsta rímspillisár?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2022. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83139>.