Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrirspurnin um hvers vegna bókum sé yfirleitt raðað samkvæmt nafni höfundar en ekki bókar kemur frá ungum lesanda sem greinilega hefur ræktað með sér bókfræðilegan áhuga og veltir vöngum yfir tilverunni. Þótt fyrirspurnin sjálf kunni að virðast einföld er þó ekki hægt að svara henni með einni setningu.
Til þess að svara hluta hennar strax vil ég taka það fram í upphafi að ekki er vitað um höfunda allra bóka og ekki er heldur öllum bókum raðað á höfunda sína, enda þótt augljóst sé af bókunum hverjir þeir eru (sjá svar sama höfundar við spurningunni Hvers vegna er ekki öllum bókum raðað eftir nafni höfundar?). En svo er röðun á höfund yfirleitt annað röðunarþrepið en ekki fyrsta og er komið að því hér á eftir.
Röðun í hillur í bókasöfnum ræðst almennt fyrst og fremst af flokkun ritsins og raðstöfum; flokkstala og raðstafir hefur sameiginlega verið nefnt flokksmerki. Fleira getur tilheyrt flokksmerkinu. Það er því flokkun ritsins sem stjórnar röðun þess í safni en síðan raðstafir sem hér á landi eru venjulega fyrstu þrír bókstafir úr höfði (fyrstu skráningarlínu færslu) þess.
Í skólasöfnum og almenningssöfnum er stundum talað um flokkabækur. Í almenningssöfnum eru skáldsögur oft ekki flokkaðar heldur látið nægja að halda þeim saman undir bókstafnum S og síðan er þeim raðað undir höfund sinn. Í rannsóknarbókasöfnum er almenna reglan sú að skáldsögur hafa flokkstölur rétt eins og rit í öðrum flokkum.
Flokkunarkerfið sem flest söfn hér á landi nota er kennt við höfund sinn, Bandaríkjamanninn Melvil Dewey (1851-1931), og nefnist það “Dewey decimal classification” eða tugflokkunarkerfi Deweys. Samkvæmt því er allri þekkingu skipt upp í hundruð, hundruðum í tugi, tugum í einingar og svo koll af kolli: 540 Efnafræði, 541.3 Eðlisefnafræði, 570 Lífvísindi, 575 Erfðafræði, 620 Verkfræði, 640 Landbúnaður, 800 Bókmenntir, 820 Enskar bókmenntir, 823 Enskar skáldsögur, 843 Franskar skáldsögur. Í framhaldi af þessu getum svo spurt hvar í talnaröðinni sé líklegast að finna rit um oxun, leysiefni og fleira.
Við viljum finna öll rit um hugbúnað saman, öll rit um vefnað saman, höggmyndalist saman og svo framvegis en okkur er ekki sama hver myndhöggvarinn eða höfundurinn er. Þess vegna er mikilvægt að geta gengið að verkunum undir nöfnum þeirra sem eru ábyrgir fyrir þeim og það er einmitt hugtakið ábyrgðaraðild* sem ræður mestu um það hver skráður er fyrir verki og verkið raðast undir. Skáldsaga eftir Einar Má Guðmundsson er flokkuð í 813, sem er undirdeild íslenskra bókmennta, og hún verður aldrei langt frá ljóðabók eftir Þuríði Guðmundsdóttur í 811 nema meðan hún er í notkun. Kannski skilja aðeins nokkrar hillustæður þessar bækur að. Mun meiri hlýtur aðskilnaðurinn að verða milli skáldrita á kínversku (895.1) annars vegar og skáldrita á íslensku hins vegar, en hin síðarnefndu standa samkvæmt formi sínu eða efnistökum í einhverri hillu flokksins 810.
Hér er að lokum tilfært það sem segir í lögum um Bókasafnssjóð Rithöfundasambands Íslands, en af því má ráða að nokkru máli skipti að verk séu skráð á höfunda sína:
Í fjárlögum ár hvert skal veita framlag til Bókasafnssjóðs höfunda sem úthlutað er úr samkvæmt lögum til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa, enda séu bækur þeirra notaðar á þeim bókasöfnum sem lögin taka til. Þ.e. almenningsbókasöfn sbr. lög nr. 50/1976, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, og sbr. lög nr. 71/1994, skólabókasöfn og bókasöfn í stofnunum sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum. Úthlutað er árlega styrkjum úr Bókasafnssjóði eftir nánari ákvörðun stjórnar. Enn fremur skal úthluta til rétthafa miðað við fjölda útlána bóka samkvæmt skrá um afnot bóka í bókasöfnum sem lög þessi gilda um.
Sjá einnig lög um höfundarrétt.
Oft hafa menn meiri áhuga á höfundum fagurbókmennta en fræðirita. Full ástæða er þó til þess að veita höfundum fræðirita athygli, að lesa það sem kemur frá bestu fræðimönnunum á tilteknu þekkingarsviði eða þá velja þau fagrit sem ætluð eru fyrir börn og ef til vill rituð af höfundum sem sérhæfa sig í að skrifa fyrir áhugamenn og yngri lesendur. Miklu skiptir að vel takist til í glæðingu áhugans strax í byrjun og því þótti mér vænt um að fá þessa fyrirspurn frá einum af yngri kynslóðinni.
Sjálf fékk ég ung eldlegan áhuga á bókum og sögum þegar faðir minn miðlaði til mín við dagleg störf sín áhugaverðustu Íslendingasögunum úr munnlegri geymd sinni en sagði mér síðan að ég yrði að læra að lesa sjálf. Eftir það gat ég ekki látið neinar bækur sem ég náði til ólesnar og endaði að lokum á bókasafni eins og mörg bókin.
*Um hugtakið ábyrgðaraðild segir svo í skráningarreglum: "Aðild einstaklings eða stofnunar sem á hlut í efni eða tilurð rits eða verks í riti. Ábyrgðaraðild getur verið skipt, t.d. þegar margir aðildar, einstaklingar eða stofnanir, eiga aðild að verki og ábyrgðaraðild eins aðila er ólík ábyrgðaraðild annars að eðli (t.d. samning, umritun, myndskreyting, útgáfa, útsetning, þýðing, flutningur)."
Guðrún Karlsdóttir. „Af hverju er bókum yfirleitt raðað samkvæmt nafni höfundar en ekki bókar?“ Vísindavefurinn, 25. september 2000, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=934.
Guðrún Karlsdóttir. (2000, 25. september). Af hverju er bókum yfirleitt raðað samkvæmt nafni höfundar en ekki bókar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=934
Guðrún Karlsdóttir. „Af hverju er bókum yfirleitt raðað samkvæmt nafni höfundar en ekki bókar?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2000. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=934>.