Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er dálítið snúið að mæla meðaltekjur eða framleiðslu á íbúa, einkum vegna þess að verðlag og neysluvenjur eru mjög misjafnar á milli landa.
Ein leið til að bera saman tekjur í mismunandi löndum felst í því að reikna út meðaltekjur í hverju landi sem verið er að skoða í mynt viðkomandi lands og umreikna svo allt yfir í einn gjaldmiðil út frá innbyrðis gengi gjaldmiðlanna á mörkuðum. Þetta er nokkrum vandkvæðum háð, meðal annars vegna þess að í sumum löndum með vanþróað fjármálakerfi er lítið að marka opinbert gengi. Auk þess gefur þessi aðferð ranga mynd af kaupmætti teknanna vegna þess að verðlag er mjög mismunandi eftir löndum. Sérstaklega er verðlag alla jafna lægra í fátækum löndum en ríkum. Þessi aðferð gerir því of mikið úr muninum á ríkum löndum og fátækum.
Alþjóðabankinn notar aðeins breytta útgáfu af þessari aðferð til að reikna út meðaltekjur þjóða. Miðað við þá aðferð, svokallaða Atlas-aðferð, voru Íslendingar ellefta ríkasta þjóð heims árið 1998. Þjóðarframleiðsla Íslendinga á mann var þá um tveir þriðju af þjóðarframleiðslu Lúxemborgara, ríkustu þjóðar heims á þennan mælikvarða, og þrjúhundruðföld framleiðslan í fátækasta landinu, Eþíópíu.
Ísland hefur upp á að bjóða fremur góð lífskjör.
Önnur lönd fyrir ofan Ísland þetta ár á þennan mælikvarða, í réttri röð miðað við tekjur, voru Liechtenstein, Sviss, Bermúda, Noregur, Japan, Danmörk, Bandaríkin, Singapúr og Cayman-eyjar. Næstu lönd fyrir neðan voru Austurríki, Þýskaland, Mónakó, Svíþjóð og Belgía.
Þróaðri aðferðir reyna að taka tillit til mismunandi verðlags en hægt er að fara ýmsar leiðir og því getur nokkru munað um það að hvaða niðurstöðu er komist. Sé þetta gert breytist röð þjóða þó yfirleitt lítið, Íslendingar lenda þá til dæmis í níunda sæti í stað þess ellefta samkvæmt útreikningum Alþjóðabankans. Munurinn á ríkum þjóðum og fátækum mælist þó minni en ella sem fyrr segir. Samkvæmt þessum mælikvarða eru þjóðartekjur Íslendinga að meðaltali ríflega fjörutíu sinnum hærri en tekjur Eþíópíubúa.
Rétt er að hafa í huga að slíkur samanburður gefur einungis takmarkaða mynd af lífskjörum viðkomandi þjóða og tekur til dæmis ekki tillit til verðmæta sem ekki ganga kaupum og sölu á markaði. Aðrir hafa reynt að meta lífskjör almennt og skoða þá einnig þætti eins og gæði heilsugæslu, menntun, lífslíkur, réttaröryggi, tekjuskiptingu og svo mætti lengi telja. Það liggur í hlutarins eðli að slíkur samanburður er ef eitthvað er enn erfiðari en samanburður á tekjum eingöngu, en yfirleitt virðast Íslendingar einnig vera mjög ofarlega þegar lífskjör eru metin á slíkan hátt.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gylfi Magnússon. „Hve ríkir eru Íslendingar miðað við aðrar þjóðir?“ Vísindavefurinn, 17. ágúst 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=816.
Gylfi Magnússon. (2000, 17. ágúst). Hve ríkir eru Íslendingar miðað við aðrar þjóðir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=816
Gylfi Magnússon. „Hve ríkir eru Íslendingar miðað við aðrar þjóðir?“ Vísindavefurinn. 17. ágú. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=816>.