Til þessa hefur ekki þótt boðlegt að nota lýsingarorð eins og "afríkanskur, ameríkanskur, kóreanskur, marokkanskur, perúanskur" eða íbúaheiti eins og "Afríkani, Ameríkani, Kóreani, Marokkani, Perúani" í vönduðu íslensku máli. "Kúbani" og "kúbanskur" eru af sama tagi. Því verður að leita annarra leiða ef við viljum sýna þjóðinni á Kúbu þá virðingu að tala um hana á vandaðri íslensku. Við höfum næg fordæmi um myndun lýsingarorðs og íbúaheitis af erlendum landaheitum. Með einkvæðum stofnum eru endingarnar -verjar (eintölu -verji) um þjóðina og -verskur algengar í góðri íslensku, enda eru orð eins og Kúbverji, kúbverskur bæði virðuleg og eðlileg.Sú skoðun, sem þarna kemur fram um myndun þjóðarheitis af Kúbu, birtist einnig í riti sem gefið var út á vegum Nordisk språksekretariat 1994. Titill ritsins er Statsnavne og nationalitetsord og eru þar birt helstu þjóðaheiti á dönsku, norsku, sænsku, finnsku og íslensku. Tvö orð eru þar gefin upp sem íslensk heiti þeirra sem á Kúbu búa, Kúbverji og Kúbumaður (1994:13). Í sama riti eru nefnd önnur þjóðaheiti sem enda á -verji: Kípverji (Kýpverji), Indverji, Kínverji, Maltverji, Pólverji, Spánverji, Tongverji, Ungverji, Þjóðverji. Í söfnum Orðabókar Háskólans er elst dæmi um Kúpverja (skrifað með -p-) frá 1897 og frá svipuðum tíma eru dæmi um Kúbumaður en dæmin um Kúbana eru frá því seint á þessari öld.
Útgáfudagur
15.8.2000
Spyrjandi
Kolbrún Vilhjálmsdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Er rétt að segja Kúbverjar í stað Kúbanir eins og áður var gert?“ Vísindavefurinn, 15. ágúst 2000, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=787.
Guðrún Kvaran. (2000, 15. ágúst). Er rétt að segja Kúbverjar í stað Kúbanir eins og áður var gert? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=787
Guðrún Kvaran. „Er rétt að segja Kúbverjar í stað Kúbanir eins og áður var gert?“ Vísindavefurinn. 15. ágú. 2000. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=787>.