Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Spurningunni um áhrifavalda Karls Marx er kannski best svarað með hliðsjón af lífshlaupi hans. Byltingarleiðtoginn, félagsvísindamaðurinn og sagnfræðingurinn Karl Marx, var fæddur árið 1818 í Trier, sonur virts lögfræðings. Hann var af gyðingaættum og margir af forfeðrum hans, bæði í móður- og föðurætt, voru rabbínar. Þessi trúarlegi uppruni hans, sem og mikill áhugi föðurins á upplýsingunni hafa væntanlega sett mark sitt á uppeldi Marx.
Sautján ára gamall hóf hann hins vegar háskólanám í Bonn og þar kynntist hann rómantískum bókmenntum og sósíalískum hugmyndum Frakkans Saint-Simons (1760-1825). Ári síðar flutti hann sig um set til Berlínarháskóla þar sem hann kynntist hugmyndum Hegels (1770-1831) og næstu ár varð hann virkur þátttakandi í hópi lærisveina Hegels sem einkum höfðu áhuga á róttækum hugmyndum hans um stjórnmál og trúarbrögð. Þessi róttækni Marx varð meðal annars til þess að hann átti ekki framtíð fyrir sér innan akademíunnar í Prússlandi. Hann hóf störf sem blaðamaður og árið 1842 varð hann ritstjóri frjálslynda blaðsins Rheinische Zeitung í Köln. Þar kynntist hann vel samtímaumræðu um stjórnmál og efnahagsmál, sem mun hafa leitt til þess að með honum fóru að gerjast hugmyndir í anda þeirra sögulegu efnishyggju sem hann er hvað frægastur fyrir.
Þegar róttæk skrif Marx höfðu leitt til þess að blaðinu hans var lokað, fór hann til Parísar. Sannfærður um mikilvægi þess að flytja sósíalískar hugmyndir inn til Þýskalands setti hann sig í samband við franska sósíalista annars vegar og aðflutta þýska verkamenn í Frakklandi hins vegar og skömmu eftir komuna til Parísar var hann orðinn sannfærður um ágæti kommúnísks þjóðskipulags.
Marx var rekinn frá Frakklandi árið 1844 og hélt þá til Brüssel ásamt Friedrich Engels, sem hann hafði kynnst í París. Í Brüssel einbeitti Marx sér að víðtækum sagnfræðirannsóknum sem tengdust mjög áframhaldandi mótun hugmyndar hans um sögulega efnishyggju. Um svipað leyti fóru þeir Engels að starfa með hópi byltingarsinnaðra Þjóðverja sem höfðu aðsetur í London og fyrir þessi samtök skrifuðu þeir Kommúnistaárvarpið. Það kom út í upphafi byltingarársins 1848 og skömmu síðar fluttist Marx aftur til Parísar. Hann fylgdi svo í kjölfar byltingaröldunnar til Kölnar og þar störfuðu þeir Engels saman að útgáfu blaðsins Neue Rheinische Zeitung.
Árið 1848 endaði hins vegar ekki með byltingu í þeim anda sem Marx og Engels höfðu boðað í Kommúnistaávarpinu, og þegar stjórnvöld bönnuðu útgáfu ritsins ári seinna, fluttist Marx til London þar sem hann átti eftir að búa til æviloka. Bjartsýnn á að kommúnísk bylting væri á næsta leiti einbeitti hann sér að stjórnmálaþátttöku næstu árin. Smám saman hallaðist hann hins vegar að því að það yrði ekki bylting fyrr en aftur hefðu skapast ákveðnar félagslegar og efnahagslegar aðstæður: félagsleg og efnahagsleg kreppa var að hans áliti forsenda byltingar. Til þess að íhuga nánar hvernig slíkar aðstæður gætu skapast, hóf hann ítarlegar rannsóknir sínar á eðli og þróun hagkerfisins. Þessar rannsóknir birtust fyrst og fremst í stórvirkinu Das Kapital (Auðmagnið), og við þær vann hann meira eða minna til dauðadags 1883, samhliða stjórnmálastörfum innan Fyrsta alþjóðasambands verkamanna, sem var stofnað 1864.
Í stuttu máli má því segja að hugmyndir Marx og kenningar hafi orðið til undir áhrifum frá þeim hugmyndum sem hann kynntist á námsárum sínum, en þær urðu ekki síður til sem viðbrögð við þeim félagslegu-, efnahagslegu- og stjórnmálalegu hræringum sem hann varð vitni að og tók þátt í.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ragnheiður Kristjánsdóttir. „Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið?“ Vísindavefurinn, 4. ágúst 2000, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=728.
Ragnheiður Kristjánsdóttir. (2000, 4. ágúst). Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=728
Ragnheiður Kristjánsdóttir. „Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið?“ Vísindavefurinn. 4. ágú. 2000. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=728>.