En sjálfstilvísunin hefur hér enga sérstaka erfiðleika í för með sér, gagnstætt því sem gildir um "lygarann" (þar veldur hún miklum heilabrotum, sem heimspekingar hafa ekki enn fengið einhlíta niðurstöðu á), það hefði alveg eins mátt spyrja, hvort til dæmis "er kalt úti?" sé spurning. Þá vaknar auðvitað spurningin: "hvað er spurning?". Algengustu not tungumáls eru þau að fullyrða eitthvað, segja að eitthvað sé satt, til dæmis eins og þegar sagt er "það er hlýtt úti núna". Hér er tilgangurinn að koma ákveðnum upplýsingum til skila til þess sem orðunum er beint til. En líka má nota málið til dæmis til að skipa fyrir, eins og í "bónaðu bílinn fyrir mig núna!", eða lofa, eins og í "ég lofa að bóna bílinn á morgun!", eða skíra, eins og þegar prestur segir við skírnarathöfn "ég skíri þig Guðmund Svan", eða til ótal annarra hluta. Eitt af mikilvægustu hlutverkum málsins er að veita upplýsingar, eins og áður greinir, og því er annað mikilvægt hlutverk þess að biðja um upplýsingar. Þetta getum við gert á ýmsa vegu, til dæmis með því að segja "mig vantar upplýsingar um ...", eða "mig langar til að biðja þig að fræða mig um...", en algengasta leiðin er einmitt að nota form spurningar, það er segja eitthvað á forminu "er satt, að .....?". Líta má á spurningu sem áskorun til viðmælandans að veita upplýsingar, sem geta verið svokallaðar "já-nei" spurningar eða "hvað-hver" spurningar eða "hvort" spurningar eða á einhverju öðru formi. En til þess að spurning hafi merkingu, verður að koma fram, hvers konar upplýsinga vænst er. Í þessu tilfelli er beðið um upplýsingar um merkingarfræðilega eiginleika ákveðinnar notkunar á orðagerð, hvort unnt sé að lýsa henni sem spurningu. Og svarið er því: já.
Mynd: HB