Væntanlega er fyrirspyrjandi að tala um að það standi í vegi fyrir framþróun stýrikerfa að þau þurfi að vera samhæfð við eldri útgáfur af hug- og vélbúnaði. Ég er alls ekki viss um að svo sé. Nýrri stýrikerfi eru bara að nafninu til samhæfð við eldri vélbúnað. Til dæmis segir Microsoft að Windows 98 þurfi 486DX/66 MHz og 24 MB af minni. Ég held að allir séu sammála um að stýrikerfið sé algjörlega ónothæft með slíkum búnaði. Það verkar hins vegar þokkalega á Intel Pentium eða betri örgjörva með 48 MB eða meira minni. Hvað samhæfingu við eldri hugbúnað varðar þá sé ég ekki neina ástæðu til að það standi nýjum stýrikerfum fyrir þrifum. Auk þess er ég ekki viss um að ég skilji hvað átt er við með "einfaldara og notendavænna stýrikerfi." Ef átt er við "einfaldara í notkun" þá er ég á þeirri skoðun að Windows 98 sé einfalt í notkun og þokkalega notendavænt þótt ýmislegt annað megi segja ljótt um það. Ef tekin eru dæmi af öðrum stýrikerfum þá er MacOS mjög einfalt, öflugt og notendavænt. Ef öllum eldri hugbúnaði og vélbúnaði yrði hent í ruslið og skrifað yrði nýtt stýrikerfi sem aðeins keyrði á Pentium III eða betri og síðan skrifuð ný forrit sem notuðu þetta nýja stýrikerfi þá væri væntanlega hægt að skrifa það þannig að það yrði öflugra, minna, öruggara og skilvirkara en Windows-fjölskyldan, en alls óvíst er að það yrði neitt notendavænna, þó ekki væri nema vegna þess að þá þyrftu notendur að læra á nýtt stýrikerfi. Frekara lesefni af Vîsindavefnum:
- Hver eru aðalstýrikerfin í tölvum í dag? eftir EÖÞ og ÞV
- Hvað er samba í Linux-stýrikerfum? eftir EÖÞ
- Hver eru einkenni stýrikerfa með myndrænu notendaviðmóti? eftir Ebbu Þóru Hvannbert
- Hvers vegna er ekki farið að smíða móðurborð í tölvur úr ljósleiðurum? eftir Kristján Leósson