Hver er uppruni orðsins sími? Er þetta gamalt orð eða nýsmíði? Ef þetta er gamalt orð, hver var þá upphafleg merking þess? Ef þetta er nýtt orð, hver var þá hugsunin á bak við þá smíði?Orðið sími er gamalt í málinu. Það var þó einkum notað í hvorugkyni, síma, í merkingunni 'þráður, band'. Í karlkyni kemur það fyrir í samsetningunni varrsími í merkingunni 'kjölrák'. Dæmi eru um orðið í nágrannamálum. Í nýnorsku merkir sime 'reipi, taug', í sænskum mállýskum er til simme í merkingunni 'ól, reipi' og í dönsku merkir sime '(hálm)reipi'. Á eldri germönskum málstigum má finna sîmo í fornsaxnesku og sîma í fornensku í merkingunni 'band' (Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók 1989:816). Þegar farið var að tala um síma hérlendis í lok nítjándu aldar fóru ýmis orð á kreik svo sem hljóðberi, hljómþráður, hljóðþráður, talþráður og fréttaþráður. Í dansk-íslenskri orðabók eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili frá 1896 birtist orðið sími í fyrsta sinn, svo vitað sé, í samsetningunum talsími og ritsími og í sögninni að talsíma. Orðið sími vann smám saman á og árið 1905 er það nær eingöngu notað í frumvarpi frá Alþingi um símasamband milli Íslands og Evrópu. Hin forna merking 'þráður, band' varð kveikjan að því að gamalt orð var endurvakið í nýrri merkingu.
Útgáfudagur
13.7.2000
Spyrjandi
Steingrímur Ólafsson
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðsins sími?“ Vísindavefurinn, 13. júlí 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=640.
Guðrún Kvaran. (2000, 13. júlí). Hver er uppruni orðsins sími? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=640
Guðrún Kvaran. „Hver er uppruni orðsins sími?“ Vísindavefurinn. 13. júl. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=640>.