Er gelíska og önnur keltnesk mál af indó-evrópskum málastofni? Eru einhver tungumál í Evrópu sem ekki falla í þennan flokk?Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað er bretónska og hvað er gelíska?
Keltneska telst til indóevrópsku málaættarinnar ásamt tíu öðrum tungumálaættum. Henni er oftast skipt í þrjá málaflokka: gelísk mál, brýþonsk mál og gallísku.
- Til gelískra mála teljast: írska, manx og skosk-gelíska.
- Til brýþonskra mála teljast: péttneska (piktneska), velska, korníska og bretónska.
- Gallíska var mál Galla en þeir voru keltneskir þjóðflokkar sem byggðu landsvæðið Gallíu á dögum Rómverja.
Til evrópskra mála sem ekki eru af indóevrópsku málaættinni en eru af finnó-úgrísku ættinni eru til dæmis finnska, sem er ríkismál í Finnlandi, eistneska í Eistlandi og ungverska í Ungverjalandi. Baskneska, mál Baska á Spáni, er ekki heldur indóevrópskt. Ekki hefur tekist að tengja það öðrum málum eða málaættum og virðist það því stakmál. Tyrkneska er af altajísku málaættinni og töluð í Tyrklandi og nokkuð í Búlgaríu en búlgarska telst til slavneskra mála sem eru af indóevrópsku málaættinni. Mynd: Asterix NZ