- Er nærsýni ættgeng?
- Hvað annað en erfðir valda því að fólk verður nærsýnt?
Eins og aðrir meðfæddir eiginleikar erfist sjón frá foreldrum til barna. Hún er ekki áunninn eiginleiki, þótt hana megi þjálfa að einhverju marki, og hún þroskast að sjálfsögðu frá því sem hún er við fæðingu. Spurningin um erfðir sjóngalla, eins og nær- og fjarsýni, er öllu flóknara mál og mismunandi eftir því hvaða galla eða sjúkdóm er átt við. Erfðir geta komið við sögu í sjóngöllum sem koma fram í augum sem eru að öðru leyti heilbrigð. Sérfræðingar í augnsjúkdómum telja að algengustu sjónvandamál meðal barna og fullorðinna séu arfgeng. Á þeim lista eru sjóndepra, nærsýni, fjarsýni, sjónskekkja og að vera rangeygður. Enn fremur á þetta við um litblindu, en fjallað er um hana í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er litblinda?
Deilt hefur verið um það í gegnum tíðina hvort erfðir eða umhverfi, og þar með lífshættir, ráði mestu um það hvort einstaklingur verður nærsýnn. Einkum hefur verið rætt um það hvort það sé nærsýnin sjálf sem erfist eða tilhneiging til að fá hana undir ákveðnum kringumstæðum. Það er útbreidd kenning að nærsýni sé arfgeng. Nærsýni virðist vera ættgeng og fundist hafa gen sem eru talin geta valdið henni. Þá er talið að galli við myndun augans valdi því að augað verður lengra en eðlilegt er og að myndin sé því stillt framan við sjónu í stað þess að vera stillt beint á henni. Nærsýni kemur yfirleitt fram við 8 til 12 ára aldur og er algengt að hún versni smám saman á unglingsárunum, en haldist nokkuð stöðug á fullorðinsaldri. Erfðaþættir stýra mismunandi lífefnafræðilegum þáttum sem geta haft ólík áhrif, til dæmis á næmni fyrir umhverfisáreitum svo sem mikilli nærvinnu. Þrátt fyrir sterk tengsl nærsýni við erfðir er þar með ekki sagt að umhverfisþættir og lífsstíll hafi ekki einhver áhrif á þróun hennar. Önnur kenning um nærsýni er að hún stafi af veiklun brárvöðvans (musculus ciliaris) sem stjórnar lögun augasteinsins. Slappur brárvöðvi getur ekki stillt lögun augasteins þannig að einstaklingur geti séð langt frá sér. Hann getur til dæmis slappast við mikla nærvinnu, en þá er hann lítið notaður. Þeir sem aðhyllast þessa kenningu mæla með augnæfingum til að þjálfa þennan vöðva, en ýmsar rannsóknarniðurstöður benda til þess að mikil nærvinna geti haft áhrif á þróun nærsýni. Einnig hafa komið fram kenningar um áhrif öndunar og fæðu á nærsýni. Samkvæmt kenningunni um öndun og nærsýni getur óeðlileg öndun, eins og fylgir gjarnan streitu, valdið lækkun þrýstings í augnknettinum (bulbus oculi) og þar með nærsýni. Samkvæmt þessari kenningu getur öndunin því haft bein áhrif á sjónina. Kenningin um tengsl fæðu og nærsýni gerir hins vegar ráð fyrir að ofneysla sykra (kolvetna) geti leitt til langvarandi ofgnóttar insúlíns í blóði, sem sé aftur slæm fyrir lögun augans.
Rétt er að ítreka það sem sagt var hér að ofan að deilt hefur verið um hversu mikil áhrif umhverfisþættir hafa á nærsýni. Hér er ekki tekin afstaða til þeirra kenninga sem nefndar eru heldur er tilgangurinn frekar að greina frá nokkrum þeirra til þess að sýna að skýringarnar geta hugsanlega verið margþættar og sennilegt er að margrir samverkandi þættir hafi þar áhrif. Þegar um fjarsýni er að ræða er augnknötturinn of stuttur, eða öfugt við það sem gerist hjá nærsýnum. Þetta leiðir til þess að myndin stillist aftan við sjónu í stað þess að stillast á henni og afleiðingin er sú að erfitt er að sjá nálæga hluti skýrt. Mörg börn fæðast með fjarsýni en hjá flestum þeirra lagast ástandið við eðlilega stækkun og þroskun augans. Of stuttur augnknöttur er arfgengur galli. Ungt fólk með væga eða miðlungs fjarsýni getur oft séð skýrt vegna aðlögunarhæfni augans, það er að segja að augasteinninn verður kúptari eftir því sem hluturinn sem horft er á færist nær. Með aldrinum minnkar aðlögunarhæfnin smám saman og er fjarsýni því einn af fylgifiskum öldrunar. Erfðaþættir hafa einnig áhrif á ýmsa augnsjúkdóma. Yfir 60% allra tilfella af blindu í ungbörnum stafa af arfgengum augnsjúkdómum eins og meðfæddu dreri (e. cataract), meðfæddri gláku, hrörnun sjónu (e. retinal degeneration), rýrnun augna (e. optic atrophy) og vansköpun augna. Allt að 40% sjúklinga sem eru rangeygðir eru með ættarsögu um gallann, en unnið er að því um þessar mundir að greina þau gen sem valda honum. Hjá fullorðnum einstaklingum eru gláka og aldurstengd sjónudepilsrýrnun (e. macular degeneration) helstu orsakir blindu. Í mörgum tilfellum virðast báðir þessir sjúkdómar vera arfgengir. Nokkur gen sem tengjast gláku hafa verið kortlögð og hafin er leit að genum sem koma við sögu í sjónudepilsrýrnun. Einnig hafa orðið marktækar framfarir í greiningu gena sem valda augnsjúkdómnum retinitis pigmentosa sem lýsir sér í náttblindu, skertu sjónsviði og hrörnunarbreytingum í sjónu sem leiða að lokum til blindu. Loks má nefna að augngallar koma fram í um þriðjungi arfgengra, fjölkerfa sjúkdóma. Þessi tilteknu einkenni í sjón eru oft ákvarðandi þegar greining sjúkdóms fer fram. Sem dæmi má nefna að aflagaður augasteinn getur staðfest greiningu á Marfan-heilkenni, bandvefssjúkdómur í augum tengist hjartasjúkdómum og einkennandi kirsuberjarauður blettur í auga gefur oftast til kynna Tay-Sach’s heilkenni. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um augu eða sjón, til dæmis:
- Úr hverju er augað? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Er hægt að lækna nærsýni og sjónskekkju með skurðaðgerð? eftir Jóhannes Kára Kristinsson
- Hverjir eru kostir og gallar augnaðgerða með leysi? eftir Jóhannes Kára Kristinsson
- Getur langvarandi áhorf á sjónvarp og tölvuskjá haft skaðleg áhrif á augun? eftir Jóhannes Kára Kristinsson
- Hvers vegna daprast sjónin hjá fólki sem fær hreint súrefni til innöndunar? eftir Ingimund Gíslason
- Er hægt að fæðast án lithimnu? eftir EDS
- Hvað er náttblinda og hvað veldur henni? eftir Þórdísi Kristinsdóttur
- The Cleveland Clinic
- Myopia á Wikipedia, the free encyclopedia
- Health A to Z
- Teikningar af auga: The Eyesite
- Ljósmyndir: Wikipedia, the free encyclopedia með góðfúslegu leyfi NIH National Eye Institute