Heilastofn er í beinu framhaldi af mænunni og nær yfir mænukylfu, brú og miðheila. Í heilastofni fer meðal annars fram stjórnun á lífsnauðsynlegri líkamsstarfsemi svo sem öndun, hjartslætti og hitatemprun. Þessi ferli eru að mestu leyti ósjálfráð. Heilabörkurinn er ysti hluti hvelaheilans og jafnframt sá hluti heilans sem er þróunarlega yngstur (sjá nánar í svari Valtýs Stefánssonar Thors við spurningunni Hverjar eru helstu heilastöðvarnar?). Heilabörkur manna er um 2-5 mm á þykkt og er alsettur fellingum sem auka flatarmál hans, en flatarmálið er um 0,25 m2. Heilabörkurinn gegnir mjög mikilvægu hlutverki. Þar liggja meðal annars heilastöðvar sem sjá um skynjun, svo sem heyrn, sjón, lykt, bragð og snertingu. Hann stjórnar einnig meðvituðum hreyfingum og gegnir lykilhlutverki þegar kemur að námi, minni, hugsun, tali og fleiru. Á Vísindavefnum eru mörg svör sem fjalla um heilann og starfsemi hans, til dæmis:
- Hvernig starfar mannsheilinn? Hverjar eru helstu heilastöðvarnar? eftir Valtýr Stefánsson Thors.
- Hvernig þróaðist heilinn í hryggdýrum? eftir Jón Má Halldórsson.
- Hvernig fer heilinn í okkur að því að muna? eftir Jörgen Pind.
- Hvað fer fram í vinstra heilahveli og hvað fer fram í því hægra? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Af hverju man fólk með Alzheimer hvað það gerði fyrir 50 árum, en ekki hvað það borðaði í morgunmat? eftir Jón Snædal.
- Er geymslurými heilans óendanlegt? eftir Sigurð J. Grétarsson.
- Hver er munurinn á heila karla og kvenna? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Þorkell Jóhannesson: Miðtaugakerfið – grein á Doktor.is.
- Örnólfur Thorlacius 2002. Lífeðlisfræði. Reykjavík, Iðnú.
- Mynd: The University of Texas at Arlington - Department of Biology.