Upphafleg spurning var sem hér segir:
Hversvegna ræða vísindamenn ekki þann möguleika, að fyrir utan heildarmassa þann sem tilheyrir Miklahvelli, geti verið aðrir Miklahvellsmassar í óendanlegum geimi? Ekki er hægt, er það, að líta svo á að geimurinn (heimurinn) endi við ystu þenslumörk efnisins?Heimsfræðingar nútímans starfa á ystu mörkum mannlegrar þekkingar þar sem ný þekking er sífellt að verða til í samspili nýrra athugana og nýrra hugmynda. Segja má að þar sé allt leyfilegt í heimi hugmyndanna; mönnum leyfist að setja fram hvaða hugmyndir sem er en þurfa hins vegar jafnframt að vera við því búnir að nýjar hugmyndir séu bæði bornar saman við athuganir og reynslu og eins við aðrar hugmyndir sem kann að vera ætlað að skýra sömu fyrirbæri. Þegar verið er að vinna á mörkum þekkingarinnar liggur í hlutarins eðli að tilteknum spurningum hefur ekki enn verið svarað með óyggjandi hætti þó að menn geri sér vonir um að það verði gert síðar. Jafnframt gefur auga leið að nauðsynlegt er að spyrja slíkra spurninga á hverjum tíma. Meðal spurninga af þessu tagi í heimsfræði okkar daga má nefna hvort alheimurinn muni þenjast út endalaust eða fara að dragast saman þannig að hann endi í svokölluðu Miklahruni. Önnur óleyst gáta er sú hvort heimurinn sem við lifum í sé endanlegur eða óendanlegur, en hann gæti vel verið óendanlegur þó að hann komi allur frá einum og sama Miklahvelli. Eins gæti hann verið endanlegur með tvennum hætti. Annars vegar gæti hann verið eins og snjóbolti sem þenst út og gisnar en hins vegar gæti hann verið eins og yfirborð á blöðru sem þenst út. Í seinna tilvikinu mundum við aldrei skynja nein ytri mörk og kann að vera auðveldara að sætta sig við þá hugmynd, samanber áhyggjur spyrjandans. Að lokum má geta þess að einn möguleikinn í vangaveltum manna um svokölluð ormagöng er sá að þau kunni að liggja yfir í aðra heima sem við getum ekki tengst með öðrum hætti. Sjá einnig svör við eftirtöldum spurningum á Vísindavefnum: Mig langar að vita hvort geimurinn er endalaus eða er eitthvað á bak við hann? Svar: Þorsteinn Vilhjálmsson Hvað eru ormagöng? Svar: Tryggvi Þorgeirsson Hvernig varð heimurinn til? Svar: Tryggvi Þorgeirsson