Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHeilbrigðisvísindiSálfræðiEf maður elur stelpu upp eins og hún væri strákur, mundi hún þá ekkert vita og haga sér eins og strákur?
Nei, það er alls ekki víst að hún myndi gera það. Það er ljóst, eins og með svo margt annað, að bæði líffræðilegir þættir (eins og erfðir og hormón) og félagslegir þættir (svo sem uppeldi) skipta máli fyrir kynsamsemd (e. gender identity) fólks, það er hvort það líti á sig sem karl eða konu, og hvaða kynhlutverk (e. gender role) það spilar, það er hvort það hegði sér „kvenlega“ eða „karlmannlega“.
Spurningin minnir um margt á söguna af Bruce Reimer. Bruce þessi og eineggja tvíburabróðir hans, Brian, fæddust í Bandaríkjunum árið 1966. Af heilsufarsástæðum þurfti Bruce að gangast undir skurðaðgerð á getnaðarlim þegar hann var átta mánaða gamall en aðgerðin misheppnaðist hörmulega; limurinn var skorinn af.
Þar sem ekki var hægt að græða liminn aftur á ákváðu foreldrar Bruce, að áeggjan læknisins Johns Moneys, að láta son sinn gangast undir kynskiptaaðgerð; hann skyldi fá kynfæri stúlku og vera alin upp sem stúlka. Bruce Reimer varð því að Brendu Reimer.
Kápa bókarinnar As nature made him' sem fjallar um Bruce Reimer, strák sem var breytt í stelpu.
Foreldrar Brendu reyndu hvað þeir gátu til að koma fram við hana eins og stúlku, en allt kom fyrir ekki; Brenda var bara alls ekkert kvenleg! Hún reif sig úr fallegu kjólunum sem hún var klædd í, gekk eins og strákur, sat eins og strákur og hafði mun meiri áhuga á að fara í snjókast og byggja virki en að sippa og mála sig. Að lokum varð Brenda viss um að hún væri karlmaður, fastur í kvenlíkama. Þetta olli henni að sjálfsögðu hugarangri.
Þegar Brenda var 14 ára ákvað faðir hennar að segja henni allan sannleikann um hvað hafði komið fyrir hana þegar hún var ungabarn. Þetta var henni viss léttir því nú fékk hún staðfestingu á því sem hún taldi sig alltaf hafa vitað. Hún ákvað strax að fara aftur í kynskiptaaðgerð, og tók upp nafnið David. Hann giftist fljótlega konu og gekk börnum hennar í föðurstað. Því miður varð hjónabandið ekki langlíft og við tók erfitt tímabil í lífi Davids. Sársaukafyllsti atburðurinn var líklega þegar Brian, tvíburabróðir hans, dó sökum of stórs skammts af geðklofalyfjum. Allir þessir erfiðleikar leiddu að lokum til þess að David framdi sjálfsvíg árið 2004.
Hvers vegna hegðaði Brenda sér eins og strákur og fannst hún vera karlkyns en ekki kvenkyns? Líkleg skýring er að hún fæddist með eðlileg eistu sem framleiddu karlhormón. Þessi karlhormón hafa strax á fósturskeiði áhrif á heilann. Þótt ytri kynfæri séu skorin af getur því samt sem áður verið að heilinn, sem stjórnar bæði hugsun og hegðun, hafi karlgerst til langframa og að uppeldi geti aldrei að fullu vegið upp á móti þessari breytingu.
Fólki sem vill kynna sér sögu Bruce/Brendu/Davids betur er bent á bókina As nature made him: The boy who was raised as a girl eftir John Colapinto.
Heimildir og mynd
David Reimer. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
Gleitman, H., Fridlund, A. J. og Reisberg, D. (1999). Psychology (5. útgáfa). New York: Norton.
Nolen-Hoeksema, S. (2004). Abnormal psychology (3. útgáfa). New York: McGraw-Hill.
Heiða María Sigurðardóttir. „Ef maður elur stelpu upp eins og hún væri strákur, mundi hún þá ekkert vita og haga sér eins og strákur?“ Vísindavefurinn, 27. október 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5359.
Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 27. október). Ef maður elur stelpu upp eins og hún væri strákur, mundi hún þá ekkert vita og haga sér eins og strákur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5359
Heiða María Sigurðardóttir. „Ef maður elur stelpu upp eins og hún væri strákur, mundi hún þá ekkert vita og haga sér eins og strákur?“ Vísindavefurinn. 27. okt. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5359>.