Athugasemd ritstjórnar: Þetta svar birtist áður 14.3. 2000 en hefur nú verið endurskoðað í ljósi nýrra upplýsinga.
Þvermál Plútó er 2300 km og er hann því heldur minni en tungl jarðar. Eðlismassi hans er að meðaltali nálægt 2 g/cm3 og er talið að hann sé úr grjóti að 60 hundraðshlutum. Afgangurinn er talinn vera ís af ýmsum gerðum og þá einkum frosið nitur (köfnunarefni), en einnig nokkuð af frosnu vatni, metani og kolmónoxíði (kolsýringi, CO). Við yfirborð hnattarins er meira en 200 stiga frost. Um Plútó gengur tunglið Karon (enska: Charon), sem er 900 km að þvermáli og tekur hver umferð þess aðeins rúmlega sex daga. Plútó er um margt sérstæður meðal hinna níu reikistjarna sólkerfisins. Að stærð og gerð líkist hann hvorki innstu hnöttunum fjórum, Merkúríusi, Venusi, jörðinni og Mars, sem eru að mestu úr föstu eða seigfljótandi bergi og málmum, né ytri hnöttunum stóru, Júpíter, Satúrnusi, Úranusi og Neptúnusi, sem eru að miklu leyti úr loftkenndu eða fljótandi efni. Á síðari árum hafa stjörnufræðingar fundið á annað hundrað smáhnatta (útstirna) í Kuiper-beltinu svonefnda, sem er utan við braut Neptúnusar. Er talið að í því séu mjög margir ís- og grjóthnettir sem eru eins konar leifar hinnar miklu efnisþoku sem sólkerfið myndaðist úr fyrir um 5 milljörðum ára. Ef Plútó hefði fyrst uppgötvast nú nýlega virðist líklegt að hann hefði verið flokkaður með útstirnum þessum en ekki talinn til reikistjarna. Af þessum ástæðum lagði stjörnufræðingurinn Brian Marsden, við bandarísku Harvard-Smithsonian stjarneðlisfræðistöðina, það til fyrir nokkrum árum að flokkun Plútó yrði framvegis tvöföld: Annars vegar yrði hann áfram talinn með reikistjörnunum níu, en hins vegar einnig með reikistirnum eða smástirnum sólkerfisins (enska: minor planet, asteroid) sem eru á sveimi einkum í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters og í Kuiper-beltinu sem áður var nefnt. Tillaga þessi leiddi af sér nokkurt fjölmiðlafár og árið 1999 tók nefnd Alþjóðasambands stjörnufræðinga (IAU), sem ber ábyrgð á flokkun og nafngiftum stjarnfræðilegra fyrirbæra, af skarið og lýsti því yfir að ekki stæði til að "lækka Plútó í tign" með því að flokka hann framvegis með smástirnum eða útstirnum. Stjörnufræðingurinn Clark Chapman ritaði árið 1999 í pistli sínum í tímaritinu The Planetary Report:
Plútó er Plútó og deilur um hvort hann sé hnöttur eða smáhnöttur virðast óþarfar og hlægilegar. Við ættum frekar að beina kröftum okkar að rannsókn hans, enda er hann eini hnöttur sólkerfisins sem geimför hafa ekki enn heimsótt.Um þessar mundir (2005) ráðgerir Bandaríska geimrannsóknastofnunin NASA að senda könnunarfar af stað til Plútós og Kuiper-beltisins árið 2006. Áætlað er að könnuður þessi verði níu ár á leiðinni til útvarðar sólkerfisins og muni senda til jarðar myndir af Plútó í júlí 2015, teknar í 9600 km fjarlægð frá yfirborði hnattarins. Geimfarinu er síðan ætlað að ferðast áfram og rannsaka útstirni í Kuiper-beltinu um 5-10 ára skeið. Nánari upplýsingar um þennan geimleiðangur er að finna á vefsíðunni: http://pluto.jhuapl.edu Fleiri svör á vísindavefnum um Plútó eru m.a.:
- Hvað er Plútó langt frá Jörðu? eftir TÞ
- Á plánetan Plútó systurplánetu/hnött? eftir Einar Örn Þorvaldsson
- Braut Plútó sker braut Úranusar og Neptúnusar. Gætu þessar reikistjörnur þá ekki rekist hvor á aðra? eftir Einar Örn Þorvaldsson og Þorstein Vilhjálmsson
- Eru brautir plánetanna samhliða eins og sett er fram í öllum bókum? Er engin braut sem fer þvert á hinar? eftir ÖJ og ÞV