Getur þú sagt mér frá stökklum, það er hvernig þeir afla sér fæðu, æxlun þeirra og hvort þeir sofi?Stökklar (Tursiops truncatus, e. bottlenose dolphins) eru meðal algengustu höfrunga á hafsvæðinu við sunnanvert Ísland eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Er hvalategundin stökkull ekki lengur til við Ísland og ráðast þeir stundum á báta? Eins og aðrir höfrungar eru stökklar hópdýr. Ólíkt flestum öðrum tegundum eru hóparnir þó yfirleitt smáir, eða færri en 20 dýr á meðan margar aðrar höfrungategundir mynda hópa sem geta talið hundruð dýra. Stökklar eru meiri tækifærissinnar í fæðuvali en aðrir hvalir og því afar erfitt að alhæfa um dæmigerða fæðu þeirra. Samvinna við veiðar er algeng meðal stökkla og hafa þeir þróað með sér afar fjölbreytilegar aðferðir við fæðuöflun. Yfirleitt ráðast þeir á torfur ýmissa tegunda, svo sem smokkfiska eða rækju. Önnur aðferð sem þeir beita er að smala bráðinni saman í hóp og gera svo árás. Stærri bolfiska elta þeir uppi og grípa með kjaftinum. Stökklar fæla fiska líka upp á grunnsævi og króa þá þannig af. Í Bandaríkjunum urðu menn vitni að því að hópur stökkla fór upp eftir á, fældi fiska upp á moldarbakka og át þá þar aðþrengda. Þessi veiðiaðferð er ekki útbreidd meðal höfrunga og virðist hún hafa lærst af reynslu þessara tilteknu dýra. Þó samvinna við veiðar sé algeng er líka vel þekkt að stökklar veiði einir síns liðs.
Stökklar (Tursiops truncatus).
- Barros, N.B. og D.K. Odell. 1990. „Food habits of bottlenose dolphins in the southeastern United States“. Í S. Leatherwood og R.R. Reeves (ritstj.) The Bottlenose Dolphin. Academic Press. bls. 309-328.
- Barros, N.B. og R.S. Wells. 1998. „Prey and feeding patterns of resident bottlenose dolphins (Tursiops truncatus) in Sarasota Bay, Florida“. Journal of Mammalogy 79 (3).
- Santos, M.B., G.J. Pierce, R.J. Reid, I.A.P. Patterson, H.M. Ross, og E. Mente. 2001. „Stomach contents of bottlenose dolphins“ (Tursiops truncatus) in Scottish waters. Journal of the Marine Biological Association and United Kingdom 81.
- The Mammals of Texas - Online Edition.
- Black Sea Environmental Internet Node.
- Laurie Campbell Photography.