Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er einhver aldurs- og kynjamunur á stríðni barna?

Heiða María Sigurðardóttir

Aldursmunur á árásargirni

Börn öðlast snemma skilning á því að þau geti gert öðrum illt. Á öðru aldursári eykst markháð árásargirni (e. instrumental aggression) þeirra verulega, það er árásargirni eða ýgi sem snýst um að fá eitthvað í sinn hlut. Hver kannast til dæmis ekki við að tveggja ára barn fái brjálæðiskast við það að annað barn leiki með dótið þess? Þegar barnið fær loksins dótið aftur hefur það samt oft engan áhuga á því heldur virðist baráttan mun fremur snúast um að sýna hver fari raunverulega með eignarréttinn.


Dæmi um markháða árásargirni er þegar börn rífast um yfirráðarétt yfir tilteknu dóti.

Á aldrinum eins til tveggja eykst bæði líkamlegt ofbeldi barna í garð annarra sem og stríðni, það er að meiða aðra með orðum sínum eða gerðum án þess að valda líkamlegu tjóni. Í lok þessa tímabils nær stríðnin yfirhöndinni, enda er barnið þá orðið nægilega þroskað til að hafa einhvern skilning á því hvað geti komið öðrum í uppnám.

Á seinni hluta leikskólaáranna, þegar börn eru þriggja til sex ára gömul, byrja þau að sýna ögrandi árásargirni (e. hostile aggression). Þá sýna þau vald sitt yfir öðrum, til að mynda systkinum sínum eða leikfélögum, með því að meiða þá andlega eða líkamlega án þess að um sé að ræða einhvers konar baráttu um tiltekna hluti. Þetta virðist vera partur af myndun svokallaðra valdastigvelda (e. dominance hierarchies), sem einnig mætti kalla goggunarröð, þar sem staða barnanna innan hópsins verður ljós. Á heildina litið minnkar árásargirni innan hópsins þegar bygging valdastigveldisins er orðin nokkuð stöðug þar sem börn á lægri stigum reyna yfirleitt ekki að ráðast á börn sem eru mun ofar í stigveldinu.

Kynjamunur á árásargirni

Það er sannarlega munur á árásarhneigð stelpna og stráka. Við eins árs aldur eru bæði kynin nokkuð svipuð að þessu leyti til, en á meðan árásarhneigð minnkar á næstu árum hjá stelpum eykst hún nokkuð hjá strákum. Raunar er magn karlhormónsins testósteróns tengt árásarhneigð hjá báðum kynjum; því meira magn því meiri árásarhneigð. Svo má aftur deila um hvort sé orsök og hvort afleiðing, en almennt er talið að testósterónmagn hafi óbein áhrif á árásarhneigð með því að auka líkamlega virkni, en hún er að jafnaði meiri hjá strákum en stelpum.


Stelpurnar í kvikmyndinni Mean girls eru gott dæmi um klækjarefi með dulda árásargirni í garð hinna stelpnanna í hópnum.

Meiri árásarhneigð stráka á einungis við um ódulið ofbeldi (e. overt aggression) eins og að hrinda, lemja, móðga eða hóta öðrum börnum. Stelpur beita oft meiri klækjum til að klekkja á öðrum börnum og eru því líklegri en strákar til að sýna svokallaða dulda árásargirni sem einnig er kölluð tengslaárásargirni (e. relational aggression). Tengslaárásargirni felst í því að ráðast á annað fólk með því að hafa áhrif á félagslegt tengslanet þeirra, svo sem með því að skilja útundan ("Þú mátt ekki vera með okkur") eða skemma vinskap annarra barna ("Júlía sagði að Anna Rósa væri miklu skemmtilegri en þú"). Þess háttar stríðni getur að sjálfsögðu verið alveg jafn sársaukafull og að vera kýldur í nefið.

Heimild og myndir

  • Cole, M. og Cole, S. (2001). The development of children (4. útgáfa). New York, NY: Worth Publishers.
  • Mynd af börnum er af Preventing Sibling Problems eftir Shari Steelsmith. Parenting Press.
  • Mynd úr Mean girls er af Lean 'Mean' eftir Lou Lumenick. New York Post.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

18.8.2005

Spyrjandi

Katrín Hulda, f. 1991

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Er einhver aldurs- og kynjamunur á stríðni barna?“ Vísindavefurinn, 18. ágúst 2005, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5206.

Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 18. ágúst). Er einhver aldurs- og kynjamunur á stríðni barna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5206

Heiða María Sigurðardóttir. „Er einhver aldurs- og kynjamunur á stríðni barna?“ Vísindavefurinn. 18. ágú. 2005. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5206>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er einhver aldurs- og kynjamunur á stríðni barna?
Aldursmunur á árásargirni

Börn öðlast snemma skilning á því að þau geti gert öðrum illt. Á öðru aldursári eykst markháð árásargirni (e. instrumental aggression) þeirra verulega, það er árásargirni eða ýgi sem snýst um að fá eitthvað í sinn hlut. Hver kannast til dæmis ekki við að tveggja ára barn fái brjálæðiskast við það að annað barn leiki með dótið þess? Þegar barnið fær loksins dótið aftur hefur það samt oft engan áhuga á því heldur virðist baráttan mun fremur snúast um að sýna hver fari raunverulega með eignarréttinn.


Dæmi um markháða árásargirni er þegar börn rífast um yfirráðarétt yfir tilteknu dóti.

Á aldrinum eins til tveggja eykst bæði líkamlegt ofbeldi barna í garð annarra sem og stríðni, það er að meiða aðra með orðum sínum eða gerðum án þess að valda líkamlegu tjóni. Í lok þessa tímabils nær stríðnin yfirhöndinni, enda er barnið þá orðið nægilega þroskað til að hafa einhvern skilning á því hvað geti komið öðrum í uppnám.

Á seinni hluta leikskólaáranna, þegar börn eru þriggja til sex ára gömul, byrja þau að sýna ögrandi árásargirni (e. hostile aggression). Þá sýna þau vald sitt yfir öðrum, til að mynda systkinum sínum eða leikfélögum, með því að meiða þá andlega eða líkamlega án þess að um sé að ræða einhvers konar baráttu um tiltekna hluti. Þetta virðist vera partur af myndun svokallaðra valdastigvelda (e. dominance hierarchies), sem einnig mætti kalla goggunarröð, þar sem staða barnanna innan hópsins verður ljós. Á heildina litið minnkar árásargirni innan hópsins þegar bygging valdastigveldisins er orðin nokkuð stöðug þar sem börn á lægri stigum reyna yfirleitt ekki að ráðast á börn sem eru mun ofar í stigveldinu.

Kynjamunur á árásargirni

Það er sannarlega munur á árásarhneigð stelpna og stráka. Við eins árs aldur eru bæði kynin nokkuð svipuð að þessu leyti til, en á meðan árásarhneigð minnkar á næstu árum hjá stelpum eykst hún nokkuð hjá strákum. Raunar er magn karlhormónsins testósteróns tengt árásarhneigð hjá báðum kynjum; því meira magn því meiri árásarhneigð. Svo má aftur deila um hvort sé orsök og hvort afleiðing, en almennt er talið að testósterónmagn hafi óbein áhrif á árásarhneigð með því að auka líkamlega virkni, en hún er að jafnaði meiri hjá strákum en stelpum.


Stelpurnar í kvikmyndinni Mean girls eru gott dæmi um klækjarefi með dulda árásargirni í garð hinna stelpnanna í hópnum.

Meiri árásarhneigð stráka á einungis við um ódulið ofbeldi (e. overt aggression) eins og að hrinda, lemja, móðga eða hóta öðrum börnum. Stelpur beita oft meiri klækjum til að klekkja á öðrum börnum og eru því líklegri en strákar til að sýna svokallaða dulda árásargirni sem einnig er kölluð tengslaárásargirni (e. relational aggression). Tengslaárásargirni felst í því að ráðast á annað fólk með því að hafa áhrif á félagslegt tengslanet þeirra, svo sem með því að skilja útundan ("Þú mátt ekki vera með okkur") eða skemma vinskap annarra barna ("Júlía sagði að Anna Rósa væri miklu skemmtilegri en þú"). Þess háttar stríðni getur að sjálfsögðu verið alveg jafn sársaukafull og að vera kýldur í nefið.

Heimild og myndir

  • Cole, M. og Cole, S. (2001). The development of children (4. útgáfa). New York, NY: Worth Publishers.
  • Mynd af börnum er af Preventing Sibling Problems eftir Shari Steelsmith. Parenting Press.
  • Mynd úr Mean girls er af Lean 'Mean' eftir Lou Lumenick. New York Post.
...