Segull hefur tvö skaut, norður- og suðurskaut. Norðurskaut laðast að suðurskauti og öfugt, en af hverju leitar þá norðurskautið á áttavita í norður?Stutta svarið við þessu er að norðurskaut jarðar er vissulega norðurskaut í þeim skilningi landafræðinnar og rúmfræðinnar að það vísar í norður, en það er hins vegar suðurskaut í skilningi rafsegulfræðinnar og dregur þess vegna að sér norðurskaut á seglum sem það hefur áhrif á. Það er hárrétt hjá spyrjanda að andstæðar hleðslur draga hvor aðra að sér og eins hleðslur hrindi hvor annarri frá sér. Þetta á bæði við um jákvæðar og neikvæðar rafhleðslur og einnig um segulskaut með gagnstæðum formerkjum, það er að segja norðurskaut og suðurskaut. Þess vegna er ekki nema von að þessi spurning kvikni. Þegar menn fóru á annað borð að kynna sér segla og hegðun þeirra höfðu þeir auðvitað í fyrstu litla þekkingu á þessum fyrirbærum. Á þeim tíma var ekkert sjálfsagðara en að gefa heitið norðurskaut því skauti segulsins eða áttavitans sem leitar í norður. Það kom svo ekki í ljós fyrr en löngu síðar að þetta leiddi til þess að það skaut jarðar sem snýr í norður verður þá suðurskaut í skilningi rafsegulfræðinnar af því að það dregur að sér norðurskaut á seglum. Þetta má sjá skýrt á myndinni hér fyrir neðan.
Rétt er þó að vara við því að taka myndina of bókstaflega. Segulsvið jarðar orsakast af hreyfingum rafstrauma í fljótandi ytri kjarna jarðarinnar, en þó má með nálgun líta svo á að risastór segull sé inni í jörðinni, á svipaðan hátt og myndin sýnir.