Í svari Stefáns Inga Valdimarssonar við spurningunni Hvernig er hægt að sanna að 1=2? var "sannað" að 1=2. Ef sú fullyrðing væri rétt mætti síðan leiða út frá henni næstum hvaða vitleysu sem er, til dæmis 2+2=5. Það var þess vegna eins gott að við drógum þessa alvörulausu "sönnun" til baka jafnharðan, sjá svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hver er villan í "sönnuninni" á 1=2? Við höldum ekki að sjálf sönnunin á 2+2=5 sé neitt merkilegri fyrir það að Einstein hafi skemmt sér við að setja hana á blað! Í sönnunum af þessu tagi eru oftast gerðar villur af ákveðnum tegundum sem kunna að dyljast lesendum sem hafa ekki nægilega þjálfun. Oft er til dæmis stytt út stærð sem er 0 í reynd, samanber fyrrnefnda sönnun Stefáns Inga. Einnig er stundum dregin ferningsrót án þess að gæta að því að þá getur komið út bæði plústala og mínustala. Fyrst áhugi er á svona sönnunum viljum við gjarnan halda lesendum okkar við efnið. Við treystum því þá að enginn taki þetta of alvarlega, heldur einbeiti sér að því að finna villuna eða villurnar! Við ætlum að birta núna "sönnun" á því að 1=5. Hún barst frá Bergþóri Jónssyni verkfræðinema í Kaupmannahöfn, dyggum lesanda okkar og stuðningsmanni, eftir að við birtum fyrrnefnda sönnun Stefáns Inga. "Sönnun" Bergþórs er svona:
-5 = -5 (morgunljóst) 25 - 30 = 1 - 6 (skrifað á annan hátt) 25 - 30 + 9 = 1 - 6 + 9 (bætt við 9) (5 - 3)2=(1 - 3)2 ((a-b)2 = a2 - 2ab + b2) 5 - 3 = 1 - 3 (kvaðratrótin tekin) 5=1 !!!!