Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Verðbólga hefur ýmiss konar áhrif á þá sem taka lán til húsnæðiskaupa. Langtímalán vegna húsnæðiskaupa eru undantekningalítið verðtryggð á Íslandi. Því hefur verðbólga bein áhrif á þann fjölda króna sem greiða þarf í afborganir og vexti af húsnæðislánum í mánuði hverjum. Húsnæðislán eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs sem er mælikvarði á almennt verðlag á Íslandi. Áhrifin eru einföld, ef vísitalan mælir til dæmis að verðlag hefur hækkað um einn hundraðshluta þá hækka greiðslur af láni um sama hundraðshluta.
Verðbólga hefur þó áhrif á fleira, verð á húsnæði og vinnu breytist alla jafna líka. Hækki verð á neysluvörum er líklegt að verð á húsnæði og laun hækki einnig. Því fer þó fjarri að þetta fylgist fullkomlega að. Stundum hækkar verð húsnæðis hraðar en verð á öðrum vörum og stundum hægar, jafnvel lækkar, eins og gengur. Hið sama má segja um verð á vinnuafli eða laun. Undir eðlilegum kringumstæðum hækka laun þó hraðar en verðlag þegar til langs tíma er litið.
Allt skiptir þetta máli fyrir húskaupanda. Ef laun, húsnæðisverð og vísitalan sem húsnæðislán taka mið af hækka öll í takt þá hefur verðbólga lítil áhrif á hag húskaupanda. Hann greiðir sama hlutfall af launum sínum í afborganir og vexti af húsnæðislánum sínum óháð því hver verðbólgan er og lánin lækka jafnhratt í hlutfalli við verðgildi hússins með hverri afborgun.
Ef verðlag hækkar hraðar en laun húskaupandans verður hann hins vegar að verja stærri hluta launa sinna til að greiða afborganir og vexti af láninu. Það er því skynsamlegt að hafa borð fyrir báru, kaupa ekki það dýrt húsnæði að ekkert megi út af bregða án þess að kaupandi lendi í vandræðum með að greiða af lánum. Aðrar skuldbindingar en húsnæðislán skipta vitaskuld líka máli í þessu samhengi.
Ef verð á húsnæði hækkar örar en vísitalan sem húsnæðislán eru miðuð við eykst hrein eign húseiganda, það er verðmæti hússins að frádregnum áhvílandi lánum. Það er visst öryggi í því og kemur sér vel ef húsnæðið er selt. Þetta hefur þó ekki bein áhrif á það hve auðvelt er að standa undir greiðslum af lánum vegna húsnæðiskaupanna. Hið öfuga gildir ef verð á húsnæði heldur ekki í við verð á öðrum vörum. Ef vísitalan sem húsnæðislán miða við hækkar mun örar en fasteignaverð og stór hluti kaupverðs húss var fenginn að láni getur svo farið að markaðsverð hússins dugi ekki til að greiða upp lánin.
Gylfi Magnússon. „Hvaða áhrif hefur verðbólga í framtíðinni á þann sem kaupir fasteign á lánum?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2000, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49.
Gylfi Magnússon. (2000, 12. febrúar). Hvaða áhrif hefur verðbólga í framtíðinni á þann sem kaupir fasteign á lánum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49
Gylfi Magnússon. „Hvaða áhrif hefur verðbólga í framtíðinni á þann sem kaupir fasteign á lánum?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2000. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49>.